Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:18:41 (2330)

2000-11-28 21:18:41# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að ég hef fullan skilning á því að styðja þurfi þá sem þurfa að sækja vatn langar leiðir og bera af því kostnað. Ég er alveg sammála hv. þm. um að sá kostnaður á ekki að lenda á þessum einstaklingum að fullu.

Aftur á móti tel ég að sá jöfnuður sem hv. þm. talar um eigi að koma frá landbrn. í þeim fáu tilvikum, sem hv. þm. talar um, að fólk þarf styrk. Sá styrkur á auðvitað að koma frá landbrn. eins og verið hefur hingað til. Það á ekki að vera að ýta þessu yfir á Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna sem hafa næg verkefni fyrir. Þar fyrir utan eru vinnubrögðin sem viðhöfð eru og lögð eru til í þessari brtt. stílbrot í starfsemi sjóðsins.

Og ég minni á, herra forseti, að Samband íslenskra sveitarfélaga er algjörlega á móti þessu máli. Hingað til hafa menn flaggað því hér að styðja eigi og fara að ráðum Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum efnum, a.m.k. þegar leitað er til þeirra í sambandi við sveitarstjórnarmál. Ég tek undir að svo eigi að gera, a.m.k. í þessu máli. Það kemur ljóslega fram í umsögn þeirra að þetta á að vera á hendi landbrn. og það er fullkomlega eðlilegt, enda fá tilvik eins og hv. þm. sagði. Þaðan á styrkurinn að koma.