Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:46:09 (2340)

2000-11-28 21:46:09# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Svo vel var staðið að sveitarstjórnarmálum í tíð minni sem ráðherra að sérstaklega var til þess tekið að ég hefði verið að hlunnfara ríkið af því ég hefði fært svo mikið til sveitarfélaganna þegar tekjustofnunum var breytt. Sérstaklega var til þess tekið hjá sveitarstjórnarmönnum og ég vænti þess að hv. þm. muni eftir því. Jöfnunarsjóðurinn gjörbreyttist 1990 og fékk fyrst raunverulegt hlutverk sem jöfnunarsjóður. Miklir tekjustofnar voru færðir til sveitarfélaganna. (ArnbS: Hvað gerðist síðan?)

Hvað gerðist síðan? spyr formaður félmn. Árið 1991 kemst íhaldið til valda og þá byrjaði að halla undan fæti og verða erfitt að verja málefni sveitarstjórnanna sem félmrh. Þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson var kominn í forsæti var erfitt fyrir mig sem sveitarstjórnarráðherra að verja málefni sveitarfélaga, bæði að því er varðar tekjustofnana og að því er varðar verkefnatilflutning. En áður var það mjög auðvelt þó að tekjur ríkisins væru miklu minni þá en þær eru núna.