Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:52:38 (2346)

2000-11-28 21:52:38# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við tvennt í máli hv. þm. Gunnars Birgissonar. Í fyrsta lagi hvetur hann okkur til að ræða í sama vetfanginu breytingar á barnabótum og breytingar á útsvari, tekjuskattsbreytingar og breytingar á álagningarstofni fasteignagjalds.

Í þessu sambandi vil ég minna á enn og aftur, vegna þess að þessi atriði í málafylgju stjórnarmeirihlutans eru mjög þrálát, að ríkisstjórnin ætlar á næstu þremur árum að skila aðeins hluta af því sem tekið hefur verið af barnafólki á liðnum árum.

Varðandi þann þáttinn sem ríkisstjórnin stærir sig mest af, ótekjutengda hlutanum, sem á að verða 33 þús. kr. fyrir börn fram að sjö ára aldri, þá var ótekjutengdi hlutinn fyrir fimm árum að jafnaði 40 þús. kr. --- ekki fram að sjö ára aldri heldur 16 ára aldri.