Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:23:28 (2359)

2000-11-28 23:23:28# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:23]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerir að umtalsefni skattalækkun eða lækkun á fasteignagjöldunum og talar um þær 1.100 millj. sem er lækkun á gjöldum íbúa landsbyggðarinnar. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm.: Hve mikið hækka útsvarsgreiðslur íbúa landsbyggðarinnar sem eiga að fá þessar 1.100 millj., hvað munu þær útsvarsgreiðslur hækka þegar öll hækkunin verður komin fram hjá sveitarfélögunum? Eru þær tölur ekki tilbúnar og hefur hann þær ekki til að færa hér fram?

Eigum við að fara aðeins betur í þær skattahækkunartillögur sem hér eru og ég fór í gegnum áðan? Mér þykir það ákaflega leitt ef ég hef raskað ró ágætra stjórnarþingmanna með því að lesa upp úr tillögum ASÍ og það sem þeir leggja til. Þeir eru með öðrum orðum að segja að þetta séu skattahækkunartillögur sem setji kjarasamninga og annað í uppnám. Og skattleysismörk eru ekkert að hækka í takt við það sem verið er að sækja í vasa skattgreiðenda, hvorki á höfuðborgarsvæðinu né á landsbyggðinni.

Eigum við að ræða aðeins um jöfnun námskostnaðar? Allt í lagi. Eru ekki gerðar tillögur um það? En tillögurnar eru ekki eins og tillögur okkar hv. þm. voru vegna þess að nú er verið að bæta við svo og svo mörgum sem munu njóta og þá mun minnka hjá hinum af því að ekki á að auka þetta í hlutfalli.

Í þeim aðgerðum sem eiga að styrkja byggð í landinu og styrkja hina dreifðu byggð með því sem ég var að ræða hér um og við vorum hjartanlega sammála í þeirri nefnd sem ég vitnaði til áðan, þá ræddi hv. þm. ekki um tillögur til að lækka húshitunarkostnað landsmanna úr 110--120 þús. kr. niður í meðaltal 60--63 þús. kr. miðað við þáverandi verðlag. Ekki er staðið við það í þeim tillögum sem liggja fyrir á fjárlögum fyrir næsta ár. Eru það aðgerðir til að létta íbúum landsbyggðarinnar búsetu þar? Ég bíð eftir svari við því, herra forseti, hvort við það eigi að standa eða hvort það voru bara tillögur sem settar voru fram sem gulrót fyrir þá hv. stjórnarþingmenn sem voru á móti síðustu kjördæmabreytingu til að fá þá til að samþykkja það með hangandi hendi.