Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:25:57 (2360)

2000-11-28 23:25:57# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla undir lok umræðunnar að ítreka áherslur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við höfum verið talsmenn þess að fjárhagsgrunnur sveitarfélaganna verði styrktur og tekjustofnar verði fluttir frá ríki til sveitarfélaga í því skyni. Þess vegna höfum við stutt það að heimildir sveitarfélaganna til útsvarshækkunar skuli rýmkaðar. Við höfum einnig stutt það að álagningarstofni fasteignaskatta verði breytt og teljum það mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina að slíkt skuli ná fram að ganga.

Við höfum hins vegar tekið undir með þorra sveitarfélaga í landinu sem hafa tjáð sig um þessar skattabreytingar í þá veru að eðlilegt væri við þær aðstæður sem við búum við nú, að tekjuskattslækkun til ríkissjóðs yrði samsvarandi heimildum til útsvarshækkunar hjá sveitarfélögunum, þannig að ekki yrði um auknar álögur á almenning að ræða. Við teljum að forgangsröðun ætti að vera þar önnur.

Hér erum við algerlega samstiga áliti sveitarfélaganna í landinu, ekki bara í Reykjavík. Ég nefni Reykjavík vegna þess að þar hefur verið tekin mjög eindregin afstaða í þessu efni og það hefur einnig verið gert hjá öðrum sveitarfélögum og ég held mér sé óhætt að segja í öllum landshornum, ef svo má að orði komast. Við erum líka samstiga almannahreyfingum, við erum samstiga Öryrkjabandalaginu, ASÍ, BSRB, og verkalýðshreyfingunni. Ég vara við því að þessi skattapakki nái fram að ganga án þess að breytingar verði gerðar á persónuafslætti. Við höfum bent á að persónuafslátturinn þurfi að hækka um 217 kr. í byrjun næsta árs, 447 í ársbyrjun 2002 og 457 kr. í ársbyrjun 2003, ef á að tryggja að skattleysismörk verði óbreytt miðað við það sem nú er.

Þetta mundi hins vegar ekki þýða að skattbyrðarnar væru óbreyttar, því ef tekjuskattslækkunin verður ekki samsvarandi hækkun útsvarsins verður óneitanlega um auknar álögur að ræða. Hins vegar mundi þetta þýða að skattleysismörkin væru óbreytt.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, til að leggja áherslu á hvert er meginstefið í málflutningi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við erum samstiga almannahreyfingum í landinu, við erum samstiga Samfylkingunni að verulegu leyti. Við styðjum þær skattatillögur, þ.e. breytingar sem þaðan hafa komið um að tekjuskatturinn lækki til jafns við útsvarshækkunarheimildina.

[23:30]

Herra forseti. Ég kom ekki síst upp til að færa einlægar þakkir til starfandi hæstv. félmrh., Guðna Ágústssonar, fyrir ómetanlegt framlag hans til umræðunnar. Það hefur verið í senn fróðlegt og upplýsandi að fylgjast með málflutningi hans. Það hefur varpað skýru ljósi á málin og mér finnst ástæða til þess að þakka það sem vel er gert í þessum efnum. Ég auglýsi eftir frekari ræðuhöldum frá hendi hæstv. starfandi félmrh. til þess að upplýsa okkur um ágæti þessara tillagna.