Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:30:32 (2361)

2000-11-28 23:30:32# 126. lþ. 33.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv. 143/2000, Frsm. meiri hluta ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:30]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá félmrn., Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Akureyrarbæ, Borgarfjarðarsveit og Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Einnig bárust umsagnir frá um 20 sveitarfélögum og samtökum þeirra.

Frv. er lagt fram að tillögu nefndar sem félmrh. skipaði til að fjalla um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Tilgangur þess er að samræma ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga þeim breytingum á álagningarstofni fasteignaskatts sem lagðar eru til með frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga en þar er gert ráð fyrir að við álagningu fasteignaskatts verði miðað við fasteignamat húsa og mannvirkja. Í frv. þessu er því lagt til að fasteignamat verði framvegis til viðmiðunar við álagningu vatnsgjalds. Þá er lögð til hækkun á hámarksálagningu vatnsgjalds til að vega á móti þeirri lækkun álagningarstofnsins sem breytingin mun óneitanlega hafa í för með sér. Í tillögum félmrn. er gert ráð fyrir að hækkunin nemi 0,1 hundraðshluta af fasteignamati. Í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga greinir að sú hækkun muni ekki duga til þess að vatnsveitur sveitarfélaganna verði jafnsettar og áður og leggur því meiri hluti nefndarinnar til að hækkunin verði 0,2 hundraðshlutar af fasteignamati en sú hækkun mun duga vatnsveitum sveitarfélaganna.

Þá áréttar meiri hlutinn að vatnsgjald er þjónustugjald sem má aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur raunkostnaði af rekstri vatnsveitna, þ.e. öllum stofn- og rekstrarkostnaði og afskriftum fasteigna.

Leggur meiri hlutinn því til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr. Í stað hlutfallstölunnar ,,0,4`` í c-lið komi: 0,5.

Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar sem hér stendur Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.