Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:37:31 (2365)

2000-11-28 23:37:31# 126. lþ. 33.4 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv. 142/2000, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:37]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá sjútvn. um frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Í þessu frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um gjaldið. Í fyrsta lagi er lagt til að fjárhæð þess vegna veiðiheimilda innan og utan lögsögu verði breytt til samræmis við áætlaðan kostnað Fiskistofu af veiðieftirliti.

Í öðru lagi þegar fiskiskipi er úthlutað tilteknu aflamarki sem byggist á þessari hlutdeild, þá taki gjaldið mið af úthlutuðu aflamagni en ekki lönduðum afla eins og gildandi lög gera ráð fyrir.

Í frv. er síðan lagt til að gjald fyrir veru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum verði hækkað og það verði einnig innheimt fyrir veru eftirlitsmanns um borð í fiskiskipi samkvæmt sérstakri heimild í lögum.

Eins og kunnugt er hefur staðið yfir allmikil umræða um brottkast afla. Fiskistofa hefur fengið heimild ráðherra til þess að ráða fimm nýja starfsmenn til eftirlits. Raunar er gert ráð fyrir að þeir verði ráðnir fimm á næsta ári og er búið að auglýsa eftir því sem ég sá í blöðunum. Forsendur heildarhækkunar gjaldsins eru fyrst og fremst þær að standa straum af þessu en að öðru leyti hækkar gjaldið ekki. Þó er ljóst ef maður skoðar þetta að gjaldið hækkar í ýmsum skipaflokkum en lækkar síðan í öðrum eins og gengur. En það eru breytingar sem eru að verða á þorskígildisstuðlum sem reiknaðar eru út árlega við hver fiskveiðiáramót sem valda því að gjaldið dreifist með öðrum hætti á þessu ári en í fyrra. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að fskj. I með þessu nefndaráliti er einmitt útreikningur Fiskistofu á skiptingu veiðieftirlitsgjalds milli skipaflokka sem bregður ljósi á málið.

Það hefur komið fram og var talsvert mikið rætt í starfi nefndarinnar að nauðsynlegt væri að auka samráð eftirlitsskyldra aðila og þeirra aðila þar sem menn þurfa að greiða þetta gjald og síðan Fiskistofu. Nefndin tekur mjög undir það og telur að það þurfi að treysta þetta samstarf frekar. Fyrir liggur að óformlegur samráðsvettvangur útvegsmanna og Fiskistofu er til staðar þar sem rædd eru ýmis framkvæmdaratriði varðandi veiðieftirlitið. Nefndin kemur með þá ábendingu í þessu nefndaráliti að eðlilegt sé að reyna að styrkja þennan vettvang þannig að forsendur veiðieftirlitsgjaldtökunnar hverju sinni séu líka til umfjöllunar í þessari nefnd. Við vísum í því sambandi séstaklega til þess fyrirkomulags sem er í gildi og sett eru fyrirmæli um í lögum um álitsgjöf eftirlitsskyldra aðila og fjármálaeftirlitsins. Eins og menn vita hefur þessi samráðsnefnd komið þar fram með gagnlegar ábendingar sem ég hygg að séu til bóta.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Árni Ragnar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Vilhjálmur Egilsson og undir nefndarálitið rita með fyrirvara hv. þm. Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, er samþykkur þessu áliti með fyrirvara.