Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:45:39 (2367)

2000-11-28 23:45:39# 126. lþ. 33.4 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv. 142/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:45]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um nefndarálit um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald.

Ég sem áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjútvn. hef skrifað undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um fyrirvarana því í mörgu eru þeir samstiga því sem fram kom hjá hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A . Kristjánssyni. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og reyndar kemur fram í nál., að þróa samstarfsvettvang útvegsmanna og Fiskistofu, þar sem rædd verða framkvæmdaatriði veiðieftirlitsins. Nefndin telur líka eðlilegt að á þeim vettvangi séu enn fremur ræddar forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun veiðieftirlitsgjalds hverju sinni. Það væri heppilegra fyrir Alþingi sem þarf að setja lög á hverju ári um svona gjaldtöku að sú forvinna ætti sér stað í grasrótinni og að stefnt væri að því að sæmileg sátt væri um málin áður en það kæmi inn til Alþingis og inn til nefndar.

Ég segi á sama hátt að ég hef fyrirvara varðandi gjaldtökuna á útgerðarflokkum. Þá er það líka sérstakt áhyggjuefni hve hækkunin er mikil á smábátum undir 15 metrum. Hún er 50%. Á króka- og þorskaflahámarksbátum er hún 86,6% og á sóknardagabátum 113%. Kannski má færa rök fyrir því að meira álag sé á eftirliti í þessum útgerðarflokki, en það er óheppilegt út frá öðrum sjónarmiðum að auka gjaldtöku einmitt á þennan hluta flotans sem m.a. stundar vistvænni veiðar en önnur útgerðarform.

Nefndin vildi skoða sérstaklega áhrif breytinganna á veiðieftirlitsgjald fyrir nótaveiðiflotann. Þar mætti líka setja spurningarmerki. Það kemur fram að lækkun verður varðandi síldina og lækkun varðandi loðnuna. En síðan koma inn flokkar, norsk-íslenska síldin og kolmunninn, og þá erum við komin út í úthafsveiðar. Þá er spurning hvar ætti að enda og af hverju þessir tveir flokkar eru teknir inn. En þarna kemur fram veruleg hækkun upp á 28,9%. Það eru fyrst og fremst þessi atriði sem ég vildi að kæmu fram og síðast en ekki síst að í nokkrum stofnum er náttúrlega um áætlað magn að ræða þannig að tölurnar eru nú ekki nákvæmari en svo.

Það eru fyrst og fremst þessi atriði sem ég vildi að kæmu fram og árétta ég enn og aftur að ég tel að grunnvinna hagsmunaaðila í samvinnu og samráði við Fiskistofu sé algjör nauðsyn fyrir þingið og að sátt sé í grasrótinni um það hvernig þessari gjaldtöku skuli háttað. Óska ég eftir því að tekið verði mið af þeim ábendingum eða fyrirvörum sem ég geri í sambandi við útgerðarflokka.