Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:49:50 (2368)

2000-11-28 23:49:50# 126. lþ. 33.4 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv. 142/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:49]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. sem fjallar um veiðieftirlitsgjald gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á því gjaldi sem innheimt hefur verið vegna veiðieftirlits, bæði hvað varðar upphæðir og hvernig það leggst á einstaka skipaflokka.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar í sjútvn. styðjum frv. eða leggjum til að það verði samþykkt. Þó erum við með fyrirvara varðandi efni frv. að ákveðnu leyti sem ég mun gera grein fyrir hér á eftir.

Við leggjumst ekki gegn auknu eftirliti eins og þetta frv. styður við, ef af lögum verður, enda þótt við teljum að til séu aðrar og vænlegri leiðir til að takast á við brottkast. Eins og segir í nál. og er dálítið sérkennilegt, þá hefur Fiskistofa fengið heimild ráðherra til að bregðast við mikilli umræðu um brottkast. Það er spurning við hverju er verið að bregðast. Er það bara umræðan eða ætla menn að takast á við vandann?

Eins og ég sagði teljum við fulltrúar Samfylkingarinnar að til séu aðrar leiðir vænlegri og ég vísa þar til þeirra tillagna sem við, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, höfum í gegnum tíðina flutt á hinu háa Alþingi í því efni, þar sem við höfum hallast að þeim sjónarmiðum sem eru í samræmi við þær skoðanir sem menn hafa nú mjög uppi varðandi auðlindanýtingu, að rétt sé að laða menn til réttrar breytni með því að umbuna þeim fyrir hana, en ekki refsa þeim. Við erum ekki ýkja trúuð á þær hugmyndir sem hæstv. sjútvrh. hefur í þessum efnum og byggjast fyrst og fremst á boðum og bönnum. Ég ætla ekki að fara frekar út í þessar tillögur núna, herra forseti. Þess þarf, hygg ég, ekki. Ég held að þær séu kunnar.

Ég vil líka að það komi fram að við erum þeirrar skoðunar að útvegurinn eigi að bera þann kostnað sem hlýst af eftirliti með veiðum. Það er auðvitað eðlilegt að útvegurinn greiði kostnaðargjöld og standi undir þeim kostnaði sem skattgreiðendur gera nú að stórum hluta vegna útgerðarinnar í landinu.

Herra forseti. Ég ætla að fara yfir þann fyrirvara sem við höfum við þetta mál. Það kemur í ljós að þorskígildistonnum hefur fækkað um 78.600 frá síðasta fiskveiðiári, þ.e. þeim sem er úthlutað til útgerða fiskiskipa. Þar kemur tvennt til. Annars vegar hefur orðið hlutfallslega meiri hækkun á verði þorsks en annarra tegunda og hins vegar var leyfilegur heildarafli þorsks minnkaður um 30.000 tonn. Það gerir það að verkum að lagt er til að gjald á hvert þorskígildistonn verði hækkað.

Þetta hefur einnig í för með sér, herra forseti, þessar sveiflur sem hér hafa verið raktar, bæði af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og eins af hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, þ.e. það verða breytingar hjá einstaka útgerðarflokkum vegna þessa, ýmist til lækkunar eða hækkunar.

Fyrirvari fulltrúa Samfylkingarinnar lýtur einmitt að þessu atriði, þ.e. að menn skuli nota eða viðhafa þessa aðferð við að reikna út það gjald sem útgerðinni er ætlað að greiða vegna eftirlits. Við erum ekki sannfærð um að hér sé endilega verið að fara bestu leiðina. Við teljum að menn þurfi að finna leiðir sem eru stöðugri, ef það má orða það svo, vegna þess að kostnaðurinn hlýtur að vera nokkurn veginn sá hinn sami og því óeðlilegt að gjaldið sveiflist eins og hér kemur fram. Fyrirvarinn lýtur sem sagt, herra forseti, að því hvernig þetta gjald er fjármagnað, þ.e. við erum ekki fullkomlega viss um að aðferðin sé sú besta, heldur viljum við gjarnan taka þátt í því að leita betri leiða sem valda ekki þessum sveiflum.

Herra forseti. Ég vil að lokum taka undir og ítreka það sem hér kemur fram í nál. um þennan samráðsvettvang útvegsmanna og Fiskistofu. Ég held reyndar að þessi samráðsvettvangur ætti að vera formlegur en ekki bara óformlegur eins og hér er fjallað um. Hér er vísað í hvernig þessu er háttað með Fjármálaeftirlitið og ég held það sé mjög gagnlegt að eftirlitsskyldir aðilar og stjórnvaldið hafi með sér samráð. Í því felst ekki bara það að hægt er að setja niður deilur eða komast að samkomulagi og koma í veg fyrir ágreining. Í því felst líka það æskilega aðhald sem þarf að vera að stjórnvaldinu varðandi kostnað og aukningu eftirlits, vegna þess að við viðurkennum öll að eftirlit hefur tilhneigingu til að blása nokkuð út. Ég hygg að það sé mun nær að þeir sem litið er eftir takist beint á við stjórnvaldið um þessi mál á formlegum samstarfsvettvangi og haldi þannig þessum gjöldum niðri með ákveðnum hætti, fremur en að lagt sé í hendur Fiskistofu að gera tillögur og síðan okkar að samþykkja eða synja, hafandi kannski ekki nægar forsendur fyrir því að meta hvort um eðlilegar hækkanir er að ræða. En það gjald sem hér er verið að leggja til eða sú aukning er, eins og hér segir, til samræmis við áætlaðan kostnað Fiskistofu. Herra forseti. Ég er ekki viss um að það séu nákvæmlega þau vinnubrögð sem við viljum viðhafa hér að við séum að hækka gjöld til samræmis við áætlaðan kostnað einstakra stofnana. Það er betra að farið sé yfir málið af þeim sem við eiga að búa í þeim tilfellum sem það er gerlegt og að þingið fái síðan rökstuddar tillögur ef um hækkun eða hugsanlega lækkun er að ræða.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir fyrirvara okkar við málið og jafnframt gert nokkra grein fyrir afstöðunni til þess að öðru leyti.