Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:57:33 (2369)

2000-11-28 23:57:33# 126. lþ. 33.4 fundur 216. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (fjárhæðir) frv. 142/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir allt sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði en mig langar til að bæta við örfáum orðum. Í fyrsta lagi tel ég óviðunandi að þessar sveiflur séu á þessu gjaldi. Ég tek það fram fyrst að við höfum auðvitað þá stefnu, og höfum margsagt frá henni og kynnt hana, að sjávarútvegurinn eigi að borga þann kostnað sem er af því að fylgjast með, eins og hér er verið að leggja til, og annan kostnað sem hið opinbera hefur af því að nýta þessa auðlind. Ég tel hins vegar mjög nauðsynlegt að menn líti á þessi mál út frá þessum sjónarmiðum, þ.e. að það sé sjávarútvegsins að greiða þetta. Ég er ekki þar með sagt að lýsa því yfir að hér séu menn komnir á réttar brautir hvað það varðar að velja þessa aðferð við þess gjöld. Það gengur nefnilega alls ekki til lengdar að sífellt sé verið að breyta gjöldum. Það er alveg sama hvort þetta á í hlut eða annað. Það betra að það sé jafnvægi og stöðugleiki í því. Kostnaðurinn við eftirlitið verður sá sami áfram hvað sem líður þessum breytingum á þorskígildum. Fram komu hugmyndir í umfjöllun nefndarinnar, m.a. þær að nota t.d. meðaltal einhverra ára til þess að ákveða gjaldið þannig að meiri stöðugleiki yrði þá í því.

Síðan er það sem hér er verið að gera, þ.e. að auka eftirlit til þess að koma í veg fyrir brot, ætluð brot manna á þeim lögum og reglum sem eru í gildi og til að koma í veg fyrir brottkast. Ég hef miklar efasemdir um að refsingar og viðbætur við refsingar muni skila nokkru. Vonandi skilar það þó einhverju. Samt er full ástæða til að efast um að þetta séu réttar aðferðir. Ég vil rifja upp að í svari við fyrirspurn frá mér þar sem spurt var um hvernig þessi lög hefðu virkað á undanförnum árum, kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að ákærur vegna brottkasts hefðu verið 19, ef ég man rétt, þ.e. ábendingar til lögreglu vegna brottkasts, opinberar ákærur hefðu verið þrjár, en enginn hefði verið dæmdur fyrir brottkast. Það er einmitt vandinn við svona eftirlit að sönnunarbyrðin er nánast ógerleg. Það er nánast ógerlegt að sanna brot, og því þarf að nota aðferðir sem halda mönnum í skelfingu hvað það varðar að þeir verði teknir fyrir ólöglegt athæfi. Og út á þá braut er verið er að fara með þessum eftirlitsmönnum. Hugmyndin er sem sagt að nota eftirlitsmennina sem einhvers konar grýlur sem menn eigi von á að fá um borð í bátana hjá sér og hér er m.a. verið að að leggja á gjöld til þess að greiða þann kostnað.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að þessi aðferð muni ekki gagnast nægilega vel til þess að taka á brottkasti og að menn muni í framtíðinni verða að taka á með jákvæðum aðferðum, aðferðum sem laða menn til þess að breyta rétt. En það að hóta mönnum með einhvers konar lögregluaðgerðum eða refsingum mun ekki skila þeim árangri sem menn vonast til, því miður. Það er mín skoðun. Ég vildi að það kæmi fyrst og fremst fram frá mér við þessa umræðu um þetta mál. Ég tel að ekki séu efni til að vera á móti því að hækka þessi gjöld því sjávarútvegurinn á sannarlega að borga kostnað af því að nýta auðlindina. En sú aðferð sem hér er verið að fjármagna er ekki aðferð sem ég tel að muni gefa þá niðurstöðu sem þyrfti.