Framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:38:23 (2373)

2000-11-29 13:38:23# 126. lþ. 34.1 fundur 295. mál: #A framkvæmd þingsályktunar um varðveislu báta og skipa# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur hreyft ákaflega mikilsverðu máli sem er um varðveislu gamalla skipa og báta.

Hér á árum áður var því miður fargað mjög mörgum skipum sem höfðu mjög miklar minningar úr atvinnusögu okkar Íslendinga. Mörg þessara skipa urðu eldinum að bráð og var mjög vinsælt á árum áður að taka þau í áramótabrennur. Mörgum skipum hefur verið forðað frá því að fara á áramótabrennur og bíða þess að áhugamannafélög og söfn taki þau og geti farið að gera þau upp til þess að forða þeim frá því að grotna niður. Ég vil hvetja hæstv. forsrh. til að beita sér fyrir því að þetta mál fái hraðari meðferð í gegnum stjórnsýsluna en er að gerast því að við höfum ekkert að gera með svona tillögur og svona samþykktir nema peningar fylgi með og peningaúthlutanir þarf til að vernda þessi menningarsögulegu verðmæti.