Flutningur eldfimra efna

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:06:24 (2385)

2000-11-29 14:06:24# 126. lþ. 34.3 fundur 212. mál: #A flutningur eldfimra efna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að bera fram þessa fsp. Ég áttaði mig hins vegar ekki alveg á svari hæstv. ráðherra. Í nokkuð löngu svari las hún upp þær reglugerðir sem í gildi eru. Um það er ekkert nema gott að segja en hins vegar skildi ég fsp. þannig að leitað væri eftir því hvort hæstv. ráðherra ætlaði að herða á þeim reglum sem nú gilda og setja jafnvel skýrari reglur þar sem hætta væri á ferðum. Ég held að það sé mikilvægt að hæstv. ráðherra svari því. Ég skynja það bæði meðal almennings og eins hér í þinginu að menn vilja að settar verði um þetta skýrar reglur. Þegar óhöpp af þessum toga verða þá eru það gríðarleg slys sem jaðra næstum við náttúruhamfarir. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að skýrar og vandaðar reglur gildi. Ég held að í seinni ræðu sinni á eftir muni ráðherra upplýsa okkur um hvort hún hyggist setja slíkar reglur.