Endurskoðun laga um leigubifreiðar

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:18:24 (2390)

2000-11-29 14:18:24# 126. lþ. 34.4 fundur 234. mál: #A endurskoðun laga um leigubifreiðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans en mér varð aðeins á í messunni þegar ég var að telja upp þau lög og reglugerðir sem eru í gildi um leigubílstjóra. Ég taldi upp lög um leigubifreiðar, reglugerðir um leigubifreiðar og reglur um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar. Vinnureglur umsjónarnefndar fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu um mál atvinnuleyfishafa á aldrinum 71--76 ára taldi ég ekki upp og heldur ekki reglur umsjónarnefndar vegna framkvæmdar undanþágna frá akstri eigin bifreiðar settar á grundvelli 2. mgr. 2. gr. reglna samgrh. um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar nr. 759 frá 8. nóv. 1999.

Ég skil alveg þann vanda sem hæstv. samgrh. er í og ráðuneyti hans í þessu máli en ég held að engum blandist hugur um að menn vilja ekki algert frjálsræði í þessu eins og ég kom inn á í upphafi máls míns. Ég vitnaði þá til leigubifreiðastjóra og þess frjálsræðis sem ríkti í Svíþjóð og flestir væru óánægðir með. Hins vegar tel ég rétt að benda á að nokkrir leigubílstjórar eru komnir nokkuð til aldurs og þá er þeim gert nokkuð erfitt að stunda leigubílaakstur jafnvel þótt fullfrískir séu. Ég bendi á, eins og hæstv. ráðherra veit mjög vel um, að rekstur á leigubifreið eða eigin akstur er kannski eini lífeyrissjóður þeirra. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan og benti á er ekki gott að leigubílar séu ekki til taks á álagstímum á næturnar. Ég tel að tvímælalaust eigi að taka það alvarlega til athugunar hvort sá sem á bíl og hefur leyfi til leigubílaaksturs hafi ekki rétt til þess að gera viðkomandi bifreið út allan sólarhringinn þó að hann aki ekki sjálfur nema tiltekinn tíma, átta tíma eða tólf tíma á dag. Ég veit að þetta mál þarf góða skoðun en ég tel að það þurfi þó að vera nokkurt frjálsræði leyfishafa og eigenda leigubifreiðar. Ekki sé óeðlilegt að sá sem hefur fjárfest í atvinnutæki eins og leigubíl og hefur rétt og leyfi til að aka á leigubílastöð, geti notað leyfi sitt, með takmörkunum þó, þannig að bifreiðin sé í notkun allan sólarhringinn.