Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:33:11 (2394)

2000-11-29 14:33:11# 126. lþ. 34.5 fundur 257. mál: #A notendabúnaðardeild Landssíma Íslands# fsp. (til munnl.) frá samgrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir því sem sagt er í þinginu í ræðum og fyrir skýringum með lagatexta er það svo að lögin eru sá texti sem mönnum ber alltaf að virða, þ.e. lagatextann sjálfan. 1. gr. laganna um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar er algerlega skýr. En samkvæmt henni skal allt hlutafé félagsins vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis. Hlutafélaginu er síðan samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem verða alfarið í eigu þess. Svona er lagatextinn. Landssímanum er ekki heimilt að taka hluta úr starfsemi sinni og fella inn í annað fyrirtæki í annarra eigu nema með samþykki Alþingis.

Herra forseti. Ef skilningur hæstv. samgrh. og Landssímans er réttur, má þá vænta þess að búið verði að undanskilja GSM-deildina eða ef til vill grunnnetið þegar málið kemur loksins fyrir Alþingi? Eða hvar eru takmörkin, herra forseti, ef hægt er að leggja þann skilning í það að í rauninni megi búta fyrirtækið niður og koma ákveðnum eignum þess undan áður en til sölunnar eða samþykkis kemur á Alþingi? Hvers virði er þá 1. gr. laganna um stofnun hlutafélags um Póst- og símamálastofnun, herra forseti?