Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:36:01 (2396)

2000-11-29 14:36:01# 126. lþ. 34.5 fundur 257. mál: #A notendabúnaðardeild Landssíma Íslands# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég skil hæstv. samgrh. vel að vilja lýsa því yfir að hann hafi ekki tekið ákvörðun um að selja þetta heldur hafi stjórnin gert það, en hann hafi samþykkt það með semingi einhvern tíma síðar.

Kjarni málsins er hins vegar ekki sá hvernig viðskiptaumhverfið er. Kjarni málsins er ekki sá hver þróun fjarskipta er, hvort hún er undraverð í hraða eða ekki, það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að Alþingi tók ákvörðun um að hlutafé yrði ekki selt úr félaginu nema með samþykki Alþingis. Alþingi tók ákvörðun um að Landssíminn gæti stofnað dótturfyrirtæki ef þau væru alfarið í eigu Landssímans. Þetta er ákvörðun Alþingis. Hún er skýr og því fæ ég ekki annað séð, virðulegi forseti, en að sú ræða sem hæstv. samgrh. flutti áðan, sem var meira og minna tilraun til að flýja af hólmi í umræðu um málið, hafi öll verið á þá leið að verið væri að reyna að draga athyglina frá kjarna málsins, sem er sá að lögin banna þetta. Það er nákvæmlega kjarni málsins að lögin banna þetta. Því skil ég vel að hæstv. ráðherra hafi viljað lýsa því yfir að hann hafi ekki tekið ákvörðun um að ráðast í þá aðgerð sem ég spurði um áðan.

Umræðan snýst ekki um hvort þetta hafi verið skynsamlegt eða ekki. Umræðan snýst um hvort menn eru innan lagarammans eða utan. Ég sé ekki annað eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðherra en að hér sé um skýrt lögbrot að ræða. Ég sé þetta mál ekki öðruvísi. Eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir dró hér fram: Ef rök hæstv. ráðherra duga þá má forusta Landssímans selja GSM-deildina, bara sisvona, án þess að hæstv. ráðherra hafi nokkuð með það að gera. Þá gæti forusta (Forseti hringir.) Landssímans selt grunnnetið þannig að framsóknarmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.

Virðulegi forseti. Þessi röksemdafærsla gengur ekki á neinn hátt upp.