Notendabúnaðardeild Landssíma Íslands

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:38:01 (2397)

2000-11-29 14:38:01# 126. lþ. 34.6 fundur 256. mál: #A B-landamærastöðvar á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Málflutningur hv. alþingismanna Samfylkingarinnar þegar kemur að Landssímanum er alveg stórundarlegur. Eins og hann hefur verið oftast nær og ekki síst hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, þá hefði hann væntanlega átt að gleðjast yfir því ef Síminn yrði minnkaður sem mest, seldur í pörtum og bútum og helst að GSM-símareksturinn yrði seldur sem fyrst því að í ræðum í þinginu hefur þessi mikli ótti við stærð og afl Landssímans margoft komið fram. (Gripið fram í.) En aðgerðir stjórnar Landssímans hafa snúist sem betur fer fyrst og fremst um að vinna þannig að gera þetta fyrirtæki okkar allra landsmanna sem verðmætast, standa þannig að málum að fyrirtækið standist öðrum fyrirtækjum snúning því það er komið í alþjóðlega samkeppni. Það er alveg ljóst og hv. þm. eiga auðvitað að vita það.

Það er jafnframt alveg skýrt, eins og ég las upp áðan, að í lögunum segir að heimild er fyrir því, samanber 1. mgr. 2. gr. í löggjöf Pósts og síma, að þá er félaginu, eins og þar segir, einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili. Hvernig gerast fyrirtæki eignaraðilar nema með því að eiga tiltekinn part, annaðhvort með greiðslu peninga eða annars konar eigna? Verðmæti (Gripið fram í.) sem verða til hjá Símanum í öðrum félögum verða ekki öðruvísi til en með því að greiða það út úr fyrirtækinu. Ég skil ekki hvernig það á að geta orðið öðruvísi. (LB: Þá á bara að breyta lögunum.) Hv. þm. getur væntanlega talað og komist að í öðrum fyrirspurnatíma ef ekki nægir það sem hann hefur haft tök á að tala.

Varðandi það sem kom fram hjá (Forseti hringir.) hv. þm. Kristjáni L. Möller, þá er ekkert óeðlilegt við það, því fyrir liggur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að gert er ráð fyrir að undirbúa sölu Landssímans. (LB: Hvað vill Framsfl. ...?) En mesti og besti kynningarmeistari fyrir að undirbúa sölu Símans er ef til vill Samfylkingin.