Endurhæfingardeild á Kristnesspítala

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:59:00 (2404)

2000-11-29 14:59:00# 126. lþ. 34.7 fundur 258. mál: #A endurhæfingardeild á Kristnesspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um endurhæfingardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í Kristnesi get ég upplýst eftirfarandi:

Þingmaðurinn spurði um fjölda þeirra sem njóta endurhæfingar í Kristnesi árlega. Árið 1998 voru 133 innlagnir á deildina og árið 1999 voru 110 einstaklingar lagðir inn alls 139 sinnum. Af þessum 110 einstaklingum voru sex einstaklingar utan Norður- og Austurlands, þar af fjórir úr Reykjavík og tveir Grænlendingar. Árið 2000 höfðu 104 einstaklingar verið lagðir inn alls 148 sinnum fram til 15. nóvember. Af þessum 104 einstaklingum voru þrír utan Norður- og Austurlands, þar af tveir úr Reykjavík og einn frá Ísafirði. Í ársbyrjun 2000 voru 45 einstaklingar á biðlista og 60 um miðjan nóvember. Allir á biðlistanum eru frá Norðurlandi og Austurlandi.

Þrátt fyrir þessa biðlista komu upplýsingar frá læknunum um að þegar leggja átti þessa sjúklinga inn voru þeir ekki tilbúnir til að leggjast inn. Það á oft við um sjúklinga sem eru ekki bráðasjúklingar heldur eru í endurhæfingu að þá hentar það akkúrat ekki þegar plássið er laust.

Síðan spyr hv. þm. um fjölda Norðlendinga og Austfirðinga sem njóta endurhæfingar annars staðar en í Kristnesi, en þær upplýsingar liggja ekki nákvæmlega fyrir vegna þess að sjúklingar fá auðvitað endurhæfingu víða. Á Sauðárkróki er t.d. nýlega búið að opna mjög myndarlega endurhæfingaraðstöðu og á Blönduósi er einnig endurhæfingaraðstaða og það sama gildir um Neskaupstað. Margir þessara sjúklinga hafa líka farið á Reykjalund og í Hveragerði þannig að þetta dreifist mjög víða. Nokkrir eru á einkastofum. Því er ekki hægt að gefa alveg nákvæmar upplýsingar um þetta eins og fyrirspurnin gerir ráð fyrir.

Endurhæfingardeildin í Kristnesi hefur yfir að ráða rýmum fyrir 20 endurhæfingarsjúklinga. Einnig er unnt að nota tíu rými í byggingunni sem sjúkrahótel sem er mjög góð nýjung við þjónustuna. Það er verið að auka þjónustuna á ýmsa vegu. Eftir fáeina daga verður opnuð sundlaug sem gerir möguleika Kristness miklu meiri en nokkru sinni fyrr.

Hv. þm. spyr: Er ekki hægt að nýta þessa stofnun enn betur og er ekki hægt að létta á suðvestursvæðinu? Það er alveg rétt. Það er eflaust hægt að nýta þessa stofnun enn þá betur. En uppbyggingin er auðvitað í takt við eftirspurnina. Það er mikil eftirspurn eftir ýmsum bæklunaraðgerðum og við þurfum að hafa endurhæfingarrými klár eftir slíkar aðgerðir. Kristnes hefur nýst mjög vel í þeim tilvikum.