Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:28:31 (2417)

2000-11-29 15:28:31# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til þess nú við 3. umr. þessa máls að undirstrika að niðurstaðan í tillögum svonefndrar tekjustofnanefndar og í þeim frumvörpum sem hér eru til meðferðar í þinginu er mörgum mikil vonbrigði. Nánast án undantekninga hafa sveitarstjórnir sent inn umsagnir um þessi mál sem lýsa vonbrigðum þeirra með að þessi tekjulegu samskipti ríkis og sveitarfélaga séu ekki endurskipulögð með fullnægjandi og varanlegum hætti og þeim komið í góðan farveg. Bæði er að sú úrlausn sem hér er lögð til er alls ónóg. Það liggur fyrir. Eins eru það mörgum mikil vonbrigði að tekjulegur grundvöllur sveitarfélaganna skyldi ekki breikkaður með einhverjum aðgerðum og þeim þá t.d. veitt hlutdeild í fleiri tekjustofnum heldur valin sú ákaflega einfalda leið og frumlega að benda sveitarfélögunum á og reyndar heimila þeim með lögum að hækka útsvar.

Að mjög mörgu er að hyggja í því sambandi sem kannski hefur ekki verið nægjanlegur gaumur gefinn í þessari umræðu eða á þeim skamma tíma sem gefist hefur til að skoða málin hér. Ég hygg t.d. að það muni eiga eftir að reynast svo á komandi árum að mjög mismunandi og ólík staða sveitarfélaganna hvað tekjumöguleika snertir, ekki síst vegna mismunandi meðaltekna, eigi eftir að birtast á einn eða annan hátt í mismunandi stöðu þeirra til að halda uppi lögboðinni þjónustu.

[15:30]

Í þessum málum, herra forseti, birtast okkur, m.a. í fylgigögnum, herkostnaður þjóðarinnar af hinni miklu byggðaröskun sem hér hefur geisað árum saman. Hann birtist í minnkandi tekjum og auknum rekstrarerfiðleikum sveitarfélaga á landsbyggðinni sem missa frá sér fólk og tekjur. Hann birtist líka í skuldasöfnun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem þrátt fyrir auknar rekstrartekjur verða jafnframt að ráðast í miklar og dýrar fjárfestingar til að byggja upp vegna þeirra sem flytjast inn á þetta svæði. Það leiðir til þess að þrátt fyrir auknar rekstrartekjur og betri rekstrarafkomu versnar fjárhagsleg staða sveitarfélaganna hér einnig. Niðurstaðan er sú, herra forseti, að sveitarfélög um allt land, bæði þau sem missa frá sér fólk og hin sem taka við því, auka skuldir sínar þessi árin. Þetta kemur mjög skýrt fram í gögnum sem tekjustofnanefndin dró saman og birt eru í skýrslu nefndarinnar. Sömuleiðis hefur þetta birst í tölfræðilegum upplýsingum á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga svo dæmi séu nefnd.

Utan við þessi mál sem hér hafa verið til umfjöllunar, herra forseti, liggja óuppgerð og óútkljáð mál vegna færslu grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna. Það er a.m.k. skoðun sveitarstjórnarmanna og kom fram ítrekað í viðtölum við þá á fundum félmn. að af þeirra hálfu er litið svo á að útreikningar og uppgjör á kostnaðarauka sveitarfélaganna umfram það sem til stóð þegar flutningurinn fór fram sé enn óútkljáð mál. Það sé til skoðunar í nefnd, reyndar mjög um það deilt og misvísandi upplýsingar komi fram um hversu mikill sá baggi er, mældur í hundruðum milljóna eða jafnvel milljörðum, sem sveitarfélögin hafa fengið á sínar herðar umfram það sem reiknað var með.

Hér eru einnig undanskilin stórfelld mál sem uppi eru í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og lúta að húsnæðismálum og húsnæðiskerfinu. Þau komu vart til skoðunar af hálfu félmn. Það er auðvitað ámælisvert, herra forseti, að þau mál skuli öll vera afvelta eins og raun ber vitni. Hæstv. félmrh. hefði gjarnan mátt bæta við fleiri andvökunóttum til að draga saman upplýsingar og reiða fram um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa að málum í þeim efnum. Þar er að hluta um beinar vanefndir að ræða þar sem ríkisstjórnin hefur ekki sett fé í viðlaga- eða afskriftasjóð sem tengist innlausn íbúða úr félagslega húsnæðiskerfinu. Reyndar eru nýir útreikningar til sem sýna að í þessum samskiptum hafi ríkisvaldið enn einu sinni hlunnfarið sveitarfélögin eða farið með betri hlut frá skiptunum. Ljóst er að vegna vaxtaniðurgreiðslna í Byggingarsjóði verkamanna biðu ríkisvaldsins stórfelldar skuldbindingar á komandi árum, hefði því kerfi ekki verið lokað eins og reyndin var. Framreiknaðar til einhverra ára hefðu skuldbindingar ríkissjóðs í áframhaldandi starfrækslu félagslega húsnæðislánakerfisins verið mældar í mörgum milljörðum króna. Með breytingunni sem gerð var fyrir nokkrum árum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þegar félagslega húsnæðislánakerfinu var í reynd lokað, leysti ríkisvaldið sig einhliða frá þessum skuldbindingum og kemur til með að njóta þess í formi minni greiðslna í húsnæðismálum á næstu árum svo að nemur stórfelldum fjárhæðum. Eftir situr óleystur vandinn í húsnæðismálunum. Hann er kominn yfir á herðar sveitarfélaganna.

Þannig hefur ríkisvaldið komið ár sinni fyrir borð með þessum skiptum. Með lögum um málefni sveitarfélaga eru skýrar skyldur á þeirra herðum. Þeim er gert að sjá fyrir fullnægjandi húsnæði, m.a. og ekki síst til þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Mér sýnist niðurstaðan sú, þegar þetta er allt saman skoðað ofan í kjölinn, að ríkisvaldið hafi velt stórfelldum byrðum yfir á sveitarfélögin og skilið þau eftir með þessi verkefni á herðunum án úrræða til þess að bregðast við.

Að lokum, herra forseti, vil ég nefna það sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn að í þessari vinnu. Það er hin geysilega ólíka staða sveitarfélaganna, ólík staða hvað varðar fjárhagslega afkomu, tekjumöguleika og rekstrarútgjöld og mjög mismunandi staða sveitarfélaganna til að ráða í framtíðinni við þau verkefni sem þau hafa á sínum herðum eða til stendur að flytja til þeirra.

Þegar rætt er um sveitarfélögin í landinu, herra forseti, held ég að það gleymist oft að í raun eiga mörg þeirra fátt sameiginlegt nema það að heita sveitarfélag. Þegar skoðuð er staða höfuðborgarinnar annars vegar, með 110 þús. íbúa eða hvað það nú er og nokkurra stærstu kaupstaðanna þar við hliðina, t.d. Kópavogs, Hafnarfjarðar og þess vegna Akureyrar, sveitarfélaga með tugi þúsunda íbúa og umtalsverða burði til að byggja upp og starfrækja á eigin forsendum öflugt stoðkerfi þeirrar velferðarþjónustu og verkefna sem sveitarfélögin hafa með höndum, og minnumst svo þess að um helmingur sveitarfélaganna í landinu er hins vegar með 300 íbúa eða minna innan sinna vébanda, þá eiga þessar stjórnsýslueiningar ekkert saman nema heitið sveitarfélag.

Sveitarfélögin Reykjavík, Bolungarvík eða Bárðdælahreppur eru í raun ekki sambærileg. Fram hjá þessu er mjög oft horft þegar rætt er um tekjur og verkefni sveitarfélaganna. Sú hugsun leitar æ oftar á ræðumann hvort ekki verði að horfast í augu við þetta með einhverjum hætti þannig að það birtist í löggjöfinni sjálfri og með beinum hætti sé tekið tillit til gjörólíkrar aðstöðu sveitarfélaganna, vegna stærðar þeirra en líka aðstæðna, þéttbýlissveitarfélaga með tugi þúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda íbúa og hins vegar fámennra strjálbýlissveitarfélaga sem mega standa undir verkefnum sínum með nokkur hundruð íbúa dreifð á mjög stórt svæði.

Það fer ekki mikið fyrir því, herra forseti, að horfst sé í augu við þessa stöðu í löggjöf eða öðrum stjórnvaldsefnum undanfarin ár. Þvert á móti hafa þeir sem séð hafa um flutning verkefna og fleira í þeim dúr verið blindir á þessar aðstæður að öðru leyti en því, sem alltaf er lausnin þegar vandinn minnir á sig, hin ólíka staða sveitarfélaganna, að henda því máli óútkljáðu og einhverjum fjármunum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Aftur og aftur er það niðurstaðan að löggjafinn og framkvæmdarvaldið ýtir því frá sér að fást við mismunandi stöðu sveitarfélaganna og hendir þeim pinkli ásamt einhverjum silfurpeningum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar eiga menn svo að leysa það erfiða vandamál að lesa í sundur ólíkar aðstæður sveitarfélaganna og gera þeim kleift að tryggja þegnum landsins jafnrétti í aðgangi að brýnustu þjónustu með útdeilingu fjármuna. Þetta hefur leitt til þess að á skömmum tíma hefur jöfnunarsjóðurinn vaxið úr því að velta milljörðum, 1--2 milljörðum kr., upp í að nálgast tuginn. Stór hluti þeirra fjármuna fer út á grundvelli reglugerðarábyrgða eða stjórnarsamþykkta nema hvort tveggja sé og þar af leiðandi hefur valdið verið framselt frá fjárveitingavaldinu og löggjafanum til félmrh. og stjórnar sjóðsins, að útdeila þessum miklu fjármunum. Menn geta svo spurt hvernig þetta endar ef áframhald verður á þessari þróun eins og allt teiknar til. Menn hafa ekki fundið önnur ráð að því er virðist, a.m.k. ekki í þeim frv. sem hér eru til umræðu, herra forseti.

Að mínu mati og okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði eru þetta ekki fagleg eða mjög vönduð efnistök. Ég held að ástæða hefði verið til að nema staðar, staldra við og spyrja hvort menn vildu byggja þessa hluti upp á þennan hátt. Í hnotskurn, herra forseti, og á mannamáli mætti segja að jöfnunarhlutverkið eða það jöfnunargildi sem ríkissjóður hafði gagnvart verkefnum ríkisins um allt land, ósköp einfaldlega með því að borga þjónustuna, borga kostnaðinn af því að tryggja mönnum grundvallarþjónustu á sviði fræðslu- og heilbrigðismála, þjónustu við fatlaða o.s.frv., án tillits til búsetu í landinu eftir því sem það var innan ráðanlegra marka, færist nú frá ríkinu, ríkisvaldinu og ríkissjóði, til sveitarfélaganna með millilendingu í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar er hinu stóra jöfnunarhlutverki sameiginlegs sjóðs allra landsmanna fyrir komið. Þá ættu menn m.a. að spyrja: Er það hið stjórnunarlega fyrirkomulag í þessum efnum sem menn vilja sjá til frambúðar? Væri ekki ástæða til að hafa þetta með öðrum hætti, t.d. að löggjafarvaldið, Alþingi, og sveitarfélögin sameinuðust um stjórn þessa mikla jöfnunarsjóðs sem þarna hefur verið að komið upp, sem hefur fyrir löngu breytt um eðli og er orðinn annað og meira en bara jöfnunarsjóður, þ.e. til að jafna mismunandi tekjur sveitarfélaga. Hann er líka orðinn jöfnunarsjóður á hina hliðina, til að mæta mismunandi aðstöðu þeirra til að veita þjónustu við ólíkar aðstæður í landinu. Mér er mjög til efs, herra forseti, að þetta sé að öllu leyti heilavænleg sigling sem menn hafa þarna lagt í.

Ég ætla, herra forseti, ekki að lengja þessar umræður --- það er samkomulag um að ljúka þeim í dag --- og læt þetta nægja. Ég vísa til þeirrar gagnrýni sem þegar hefur komið fram á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og allt umhverfi þessa máls, ekki síst á að enn standi til að þyngja skattbyrðina á tekjulægstu hópum landsins í tengslum við þessa breytingu. Með hækkun á sameiginlegri álagningarprósentu tekjuskatts og útsvars án þess að hliðarráðstafanir séu gerðar gagnvart persónufrádrætti munu 2--3 þús. nýir skattgreiðendur koma til sögunnar, með tekjur á bilinu 60--70 þús. kr. á mánuði. Það eru breiðu bökin sem ríkisstjórnin hefur hugsað sér að leggja pínulitla pinkla á núna rétt fyrir jólin. Það byrjar að telja frá áramótum og verður ekki annað sagt en að góðar séu gjafir þínar, eins og það hefði einhvern tíma verið orðað þegar í hlut á blessuð ríkisstjórnin og jólagjafir hennar. Þetta gagnrýnum við mjög harðlega þó að það sé að vísu til meðferðar í öðrum frv. sem koma síðar til umræðu væntanlega í jólamánuðinum. Þá verður auðvitað tekist á um það. Óhjákvæmilega mun afstaða manna ráðast af áhrifum þessa pakka í heild sinni. Það veldur því m.a. að þrátt fyrir eindreginn vilja okkar til að bæta fjárhagsafkomu sveitarfélaganna kjósum við að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls, vegna þess samhengis sem það er í og vegna þeirra vinnubragða sem ástunduð hafa verið.