Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:43:31 (2418)

2000-11-29 15:43:31# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins í tilefni af ummælum um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og uppgjörsmála þar láta þess getið að á föstudaginn lá fyrir skýrsla endurskoðunarfyrirtækis um þennan málaflokk. Forsendur þess fyrirtækis voru umsamdar á milli fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, fjmrn. og menntmrn. Fyrirtækið kemst að þeirri niðurstöðu, eins og ég hef alltaf sagt, að við það samkomulag sem var gert á sínum tíma um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið staðið að fullu og öllu. Einnig er niðurstaða fyrirtækisins sú að þegar á heildina er litið sé umframkostnaður sveitarfélaganna um 300 millj. kr. Hann verður einkum til á árunum 1998 og 1999 og má rekja hann til samninga sveitarfélaganna við grunnskólakennara um laun þeirra.

Það er ekki hægt með neinum rökum að halda því fram eins og hv. þm. gerði, að þarna standi út af óleyst mál eða að ágreiningur sé um þessi mál þegar litið er til þessarar niðurstöðu. Það hefur verið staðfest af formanni Sambands ísl. sveitarfélaga. Hann gerði ekki ágreining um niðurstöðu þessa fyrirtækis. Síðan hafa talsmenn sveitarfélaganna vakið máls á öðrum þáttum sem lágu einnig fyrir þegar samið var um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og telja að líta eigi til þeirra sérstaklega þegar fjárhagsbyrðar sveitarfélaganna vegna grunnskólans eru skoðaðar. Ég tel það hins vegar mjög vafasaman málflutning, miðað við hvernig að málum var staðið við samningsgerðina á sínum tíma, og færa þurfi fyrir því mun sterkari rök að lagðir hafi verið nýir pinklar á sveitarfélögin með flutningi grunnskólans eftir að grunnskólinn kom í þeirra hendur.

Þetta vildi ég láta koma fram og hvet hv. þm. til að kynna sér umrædda skýrslu.