Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:45:34 (2419)

2000-11-29 15:45:34# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessum skýrslum. Þær eru margar og útkomur þeirra með ólíkindum mismunandi. Ég veit ekki hvort það eru forsendur til að trúa því og treysta hundrað prósent að nákvæmlega þessi skýrsla sýni alfarið rétta niðurstöðu en ekkert sé að marka hinar sem hafa sýnt þarna miklu stærra útslag.

Ég vísaði ósköp einfaldlega til álits og mats fjölmargra sveitarstjórnarmanna sem m.a. komu fyrir félmn. Þeir telja sig sjá í ársreikningum sínum, svart á hvítu og benda á hlutfallstölur m.a. í því sambandi, að útgjöld þeirra hafi stóraukist vegna grunnskólans, umfram það sem til stóð og þeir reiknuðu með. Ég býst við að þeim komi þessar niðurstöður mjög á óvart, að þarna sé ekki um hærri fjármuni að ræða en hæstv. menntmrh. trúir á. Það er þó útslag í þessa átt, einhver hundruð millj. kr.

Ég bendi í fyrsta lagi á að þetta er ekki bara spurning um að standa við samninga. Það er ekki endilega verið að tala um að hér hafi verið brotnir eða sviknir samningar. Komi hins vegar í ljós að um stórkostlegt vanmat hafi verið að ræða í hinum reikningslega grundvelli er það auðvitað staðreynd sem verður að taka tillit til. Þá þýðir ekki að skjóta sér á bak við að af því að menn séu ekki berir að sök og hafi ekki brotið samninga þá séu þeir með allt sitt á þurru og þurfi ekki að leggja neitt af mörkum.

Í öðru lagi eru nýjar kvaðir að koma til sögunnar á sveitarfélögin vegna grunnskólans sem þarf að taka tillit til. Í þriðja lagi er meira fram undan þannig að málið er ekki eins einfalt og hæstv. menntmrh. vill vera láta, að þetta sé úr sögunni með þessari skýrslu. Mér er a.m.k. vel kunnugt um að sveitarstjórnarmenn um allt land, hvað sem talsmönnum þeirra sem eiga fyrri verk sín að verja í þessu sambandi kann að finnast, líta ekki svo á að þetta mál sé úr sögunni. Þeir trúa því að í gangi sé starf til að skoða þetta ofan í kjölinn og binda vonir við leiðréttingar í framhaldi af því.