Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 15:49:37 (2421)

2000-11-29 15:49:37# 126. lþ. 36.1 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd að forsendur þessarar skýrslu eru aðrar en sumra annarra reikninga sem þarna hafa verið gerðir. Það skiptir vissulega máli að um forsendur þessara útreikninga eða þessarar könnunar var samkomulag. Ég geri ekkert lítið úr því.

Eftir stendur hins vegar að við höfum mýmörg dæmin fyrir okkur um hversu erfitt er að meta og reikna svona hluti. Ég nefni sem dæmi þar um mismunandi niðurstöður sem mjög virtir og sumpart opinberir aðilar hafa komist að þegar þeir hafa tekið sér fyrir hendur t.d. að skoða útkomu reynslusveitarfélaganna. Við þingmenn höfum á borðum okkar mjög nýleg dæmi um sláandi ólíkar niðurstöður sem menn hafa þar komist að, annars vegar óháðir aðilar sem fengnir voru til verksins og hins vegar aðilar eins og Ríkisendurskoðun. Mönnum tekst þannig að komast að alveg ótrúlega ólíkum niðurstöðum um svona hluti. Það sem liggur fyrir er að allar þessar skýrslur, líka þessi, sýna útslag í þá átt, mismunandi mikið að vísu, að kostnaður sveitarfélaganna hafi aukist.

Í öðru lagi er ljóst, herra forseti, og það hverfur ekki, jafnvel þó að einhver úttekt á stöðu augnabliksins sýndi tiltekna hluti, að sveitarfélögin tóku við mjög miklum væntingum í þessum efnum. Þær hafa reynst þeim mjög dýrar. Það að benda á að stór hluti þessa kostnaðarauka sé vegna launahækkana til grunnskólakennara sannar bara að sveitarfélögin tóku í arf miklar væntingar um kjarabætur starfsfólks í skólum þegar þau tóku við skólunum. Það voru beinlínis rökin hjá mörgum fyrir því að styðja breytinguna, beggja megin frá, að í gegnum hana mundu kennarar fá kjarabætur, skólastarfið eflast o.s.frv.

Fram undan er ný lota í samningum við grunnskólakennara. Það eru uppi miklar væntingar um launabætur á nýjan leik af skiljanlegum ástæðum. Það er því meira eftir í þessum poka, herra forseti.