Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 10:31:46 (2427)

2000-11-30 10:31:46# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[10:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 er nú komið til 2. umr. Síðasta haust setti fjárln. það markmið fram í samvinnu við fjmrn. að flýta umræðunni um eina viku frá því sem var á fyrra ári, en þá var afgreiðsla frv. samkvæmt áætlun Alþingis í fyrsta sinn um árabil. Það er fagnaðarefni að þessi markmið skuli hafa náðst og nefndin leggur áherslu á að 3. umr. verði á tilsettum tíma. Það ber að stefna að því í framtíðinni að svo verði. Afgreiðsla fjárlagafrv. fyrr en áður bætir stjórnsýsluna, auðveldar frágang mála fyrir áramót og það liggur fyrr en ella fyrir við hvern hlut ríkisstofnanir og aðrir sem njóta fjárframlaga úr ríkissjóði eiga að búa á næsta ári.

Ég mun áður en ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. og flyt skýringar við brtt. nefndarinnar hafa nokkur orð um hið efnahagslega umhverfi sem fjárlögin taka mið af. Í öðru lagi mun ég fjalla um þá stefnumörkun sem fram kemur í tillögum meiri hluta fjárln.

Góðæri hefur ríkt í þjóðarbúskapnum undanfarin ár. Til marks um það hefur árlegur hagvöxtur verið 4,7% að meðaltali á árunum 1996--2000. Þetta er meiri hagvöxtur en víðast hvar meðal sambærilegra þjóða. Jafnframt hefur störfum fjölgað um 15 þús. á sama tíma og atvinnuleysi minnkað úr 5% af vinnuaflinu niður í 1,5%. Rifja má það upp að sumum fannst Framsfl. setja fram glannalegar spár um þessar hagstærðir fyrir fimm árum en reyndin hefur orðið önnur, bæði hagvöxtur og fjölgun starfa hafa orðið meiri en þar var gert ráð fyrir. Einnig hefur náðst góður árangur á sviði ríkisfjármála. Þannig stefnir í að ríkissjóður verði rekinn með yfir 20 milljarða kr. afgangi á þessu ári samanborið við 13,5 milljarða kr. halla árið 1995.

Þessi hagfellda þróun hefur leitt til þess að kjör heimila hafa stórbatnað. Batinn kemur meðal annars fram í því að kaupmáttur ráðstöfunartekna er 23% meiri á þessu ári en hann var 1995 og einkaneysla er 36% meiri, eða sem samsvarar 1,5 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Því er hins vegar ekki að leyna að góðærið hefur reynt á efnahagslífið. Skýr merki um það má meðal annars sjá í vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla sem í æ ríkari mæli stafar af mikilli neyslu. Við þetta bætist að ytri skilyrði þjóðarbúsins hafa versnað nokkuð, einkum vegna hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði. Þessi hættumerki benda eindregið til að hægja þurfi um sinn á ferðinni til að tryggja að árangurinn sem náðst hefur verði viðvarandi. Til að ná þessu markmiði skiptir meginmáli að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Skilaboðin til þeirra sem nú vinna að fjárlagagerð eru því skýr: Bæta þarf afkomu ríkissjóðs milli áranna 2000 og 2001.

Lítum nánar á hættumerkin og þá fyrst á verðlagssviðinu. Verðbólga náði hámarki í apríl síðastliðnum. Þá var tólf mánaða breyting verðlags 6% en í framhaldi fór verðbólgan lækkandi og í september var hún komin niður í 4,0%. Frá þeim tíma hefur verðbólgan hins vegar færst í aukana og bendir margt til að hún verði áfram um eða yfir 5%. Þetta er tvöfalt meiri verðbólga en í helstu viðskiptalöndum. Það liggur í augum uppi að slík verðbólga fær ekki staðist til lengdar. Ef hún verður áfram að marki meiri en í viðskiptalöndunum kemur fyrr en síðar að því að við verðum að horfast í augu við óþægilegar afleiðingar. Ekki þarf að fjölyrða um það hér hverjar þær gætu orðið. Við þekkjum frá frá fornu fari víxlgang verðlags, launa og gengis. Eina leiðin til að komast hjá svona ógöngum er að tryggja að eftirspurn og umsvif í efnahagslífinu haldist í hendur við framleiðslugetu þess. Ríkisfjármálin eru besta hagstjórnartækið í þessu sambandi.

Annað hættumerki er mikill viðskiptahalli. Í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að hallinn verði um 50--60 milljarðar kr. á þessu og einnig á næsta ári. Þótt halli sé ekki ávallt slæmur er enginn vafi á því að við núverandi aðstæður og horfur er hann allt of mikill. Í því sambandi nægir að benda á tvennt. Annars vegar eru erlendar skuldir þjóðarbúsins miklar og því nauðsynlegt að stemma stigu við vexti þeirra nema þær stafi af fjárfestingu sem skilar sér í auknum útflutningstekjum í framtíðinni. Viðskiptahalli er í reynd krafa á framtíðartekjur okkar af útflutningi. Hins vegar skýrist hallinn nú og að því er virðist í næstu framtíð í auknum mæli af neyslu í stað fjárfestingar eins og þetta var framan af hagvaxtarskeiðinu. Þetta er óviðunandi, ekki síst í ljósi þess að sennilega erum við um þessar mundir í toppi hagsveiflunnar. Til að ráða bót á þessu þarf að efla þjóðhagslegan sparnað og aftur eru ríkisfjármálin öflugasta hagstjórnartækið sem við ráðum yfir í því skyni.

Þriðja hættumerkið má sjá í þróun peningamála. Þetta kemur skýrast fram í stórfelldri útlánaaukningu og miklum vaxtamun gagnvart öðrum löndum. Tólf mánaða vöxtur bankaútlána á þessu ári hefur legið á bilinu 25--30%. Enginn vafi er á því að svo mikill vöxtur til lengdar samrýmist ekki stöðugleika, heldur þvert á móti grefur undan honum. Einnig er rétt að vekja athygli á því að erlend lán bankanna hafa borið uppi útlánaaukninguna. Til að sporna við útlánaþenslu hafa innlendir vextir verið hækkaðir verulega og er vaxtamunur milli Íslands og annarra landa nú í sögulegu hámarki. Þetta hefur þó ekki nægt til að verja gengi krónunnar en að sjálfsögðu aukið fjármagnskostnað annarra fyrirtækja en þeirra sem eiga greiðan aðgang að erlendu lánsfé. Fyrir vikið hefur afkoma fyrirtækja versnað. Þessi þróun sem hér á undan er rakin er áhyggjuefni því ef alvarlega slær í bakseglin á þjóðarskútunni gætu erfiðleikar á fjármálasviðinu magnast og leitt af sér dýpri lægð í efnahagslífinu en orðið hefði ef betur hefði verið búið í haginn í efnahags- og atvinnulífi. Og enn berast böndin að ríkisfjármálum því vafasamt er að auka aðhaldið í peningamálum eins og nú horfir.

Þegar horft er til þeirra atriða sem ég hef rakið hér á undan er ljóst að niðurstaða fjárlagafrv. og stefnan í ríkisfjármálum á næsta ári hefur afgerandi þýðingu fyrir þróun efnahagslífsins. Það er brýnt að ríkisfjámálin leggi sitt af mörkum til að hægja á vexti þjóðarútgjalda og leggi þannig grunn að jafnvægi og stöðugleika sem byggja má á til framtíðar. Þetta hefur oft verið nefnt að ná mjúkri lendingu í efnahagslífinu. Halda má áfram með þá líkingu. Þegar má sjá merki um lækkandi flug, meðal annars á fasteignamarkaði og í innflutningi bifreiða og ýmissa annarra vara. Farsælast er að það aðflug verði hægt en öruggt, lendingin mjúk og nýtt flugtak verði á sömu lund. Ríkisfjármálin eru eins og áður segir öflugasta stjórntækið til að ná þessu markmiði.

Þrátt fyrir þessi viðvörunarmerki í efnahagsumhverfinu eigum við Íslendingar nú meiri möguleika en nokkru sinni áður til þess að sækja fram. Til þess þarf að treysta innviði samfélagsins, stuðla að öflugu atvinnulífi, framleiðslu og hagvexti, nýta afraksturinn til að treysta velferð allrar þjóðarinnar og sækja fram í samfélagi þar sem þekking og færni skiptir sköpum. Við þurfum einnig að hlúa að þeim traustu stoðum sem menning okkar og búseta í öllu landinu hafa skapað í gegnum árin.

Tillögur meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnar nema 3,7 milljörðum kr. Þar ber hæst nokkur verkefni sem hafa forgang. Fyrst skal nefna aðgerðir til þess að styrkja stöðu sveitarfélaga í framhaldi af tillögum tekjustofnanefndar í tengslum við þá löggjöf sem nú hefur verið afgreidd um tekjustofna sveitarfélaga. Framlög í jöfnunarsjóð nema 1,8 milljörðum kr. vegna þessara aðgerða. Til viðbótar mun tekjuhliðin lækka við 3. umr. um 1,3 milljarða kr. Þetta er afar þýðingarmikil breyting, ekki síst fyrir sveitarfélögin á landsbyggðinni.

Í öðru lagi hefur meiri hluti fjárln. komið til móts við fjölmörg verkefni sem tengjast safnamálum og viðhaldi menningarminja. Brtt. fela í sér mikið átak í þessu efni. Ástæðan er sú að hverri þjóð er nauðsyn að halda til haga menningarminjum í húsbyggingum og öðrum minjum sem varða sögu þjóðarinnar. Ekki síst er þetta mikilvægt í tengslum við ferðaþjónustu sem er mjög umfangsmikill atvinnuvegur og skapar miklar gjaldeyristekjur.

Þótt náttúra landsins sé það aðdráttarafl sem er í fyrsta sæti þarf fleira að koma til ef ferðamenn eiga að dreifast um landið allt og takast á að lengja ferðamannatímann. Nokkur verkefni eru glæsilegt dæmi um hvernig til hefur tekist að þessu leyti og þarf ekki annað en nefna Vesturfarasafnið á Hofsósi í þessu sambandi. Mjög mörg skemmtileg og áhugaverð verkefni eru í undirbúningi og ákvað nefndin að koma til móts við þau. Ég geri nánar grein fyrir því síðar.

Brtt. meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar fela í sér viðbótarfjárframlög til fíkniefnamála. Það er mikil nauðsyn vegna þess að hér er um einn þann mesta vanda að ræða sem steðjar að nútímasamfélagi. Fíkniefnabaráttan er háð á mörgum vígstöðvum. Hún er háð í eftirliti með innflutningi. Þar er um forvarnir að ræða. Hún er háð á götunni og í daglegu lífi með starfi fíkniefnalögreglu og almennrar löggæslu. Hún er háð með starfi þeirra fjölmörgu samtaka sem vinna að forvörnum en margir einstaklingar hafa unnið ómetanlegt starf á þeim vettvangi og aflað sér mikillar reynslu. Afleiðingarnar af fíkniefnaneyslunni koma einnig fram í mjög dýrum meðferðarúrræðum og vistheimilum fyrir þá sem orðið hafa þessari ógæfu að bráð. Viðbótarfjármagn í þennan málaflokk síðustu tvö árin er nú um einn milljarður kr.

Ljóst er að þetta átak hefur borið árangur en betur má ef duga skal. Það skal einnig tekið fram að það er haldbesta vörnin gegn vímuefnum að stuðla að manneskjulegu samfélagi í landinu.

Meiri hluti fjárln. hefur ávallt haft í huga hvernig ríkisvaldið gæti orðið að liði til að hamla gegn byggðaröskun í landinu. Byggðaröskunin er óhagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði, hvernig sem á hana er litið eins og oft hefur komið fram í umræðunni. Gerðar hafa verið tillögur á liðnum árum um aukið fjármagn til jöfnunar á mörgum sviðum svo sem í jöfnun námskostnaðar og húshitunarkostnaði og möguleikar til fjarnáms hafa verið auknir svo nokkur dæmi séu nefnd. Eitt af þessum byggðaverkefnum er skógræktin.

Síðustu árin hefur fjármagn til skógræktar á bújörðum verið aukið og svo er einnig nú. Hér er um afar mikilvægt byggðamál að ræða sem styrkir atvinnulíf í sveitum landsins, bætir náttúrufar og bindur m.a. útblástur koltvísýrings. Þessi verkefni geta nú haldið áfram í öllum landshlutum samkvæmt þeim áætlunum sem gerðar hafa verið.

Í samgöngumálum er lagt fram fjármagn til útboðs varðandi flugsamgöngur, og er þar sjúkraflug og farþegaflug til nokkurra staða. Nánar verður gerð grein fyrir þessu í athugasemdum með brtt.

Ég hef nú stiklað á stóru um nokkur mál sem upp úr standa í þeirri tillögugerð sem nú liggur frammi.

Nokkur mál bíða 3. umr. og má þar nefna símenntunarstöðvar og fjarkennsluverkefni, heilbrigðismál og nokkur erindi varðandi löggæslu. Nefndin hefur einnig ávallt fjallað um málefni Byggðastofnunar milli 2. og 3 umr.

Við afgreiðslu fjárln. á frv. til fjárlaga berast henni fjölmörg erindi um fjárframlög til ýmissa verkefna á vegum einstaklinga og félagasamtaka og hefur svo verið um fjöldamörg ár. Á sama hátt berast framkvæmdarvaldinu á ári hverju beiðnir um styrki og fjárframlög. Þegar grannt er skoðað má sjá að sumir þessara aðila hljóta náð fyrir augum stjórnvalda því í frv. leggur framkvæmdarvaldið til fjölmargar styrkveitingar til aðila utan ríkisgeirans.

[10:45]

Vitað er að þó í fæstum tilvikum sé um að ræða háar fjárhæðir til einstakra verkefna geta þessir styrkir oft og tíðum ráðið úrslitum um hvort viðkomandi verkefni nái fram að ganga. Í sumum tilvikum má líta svo á að með styrkveitingunni sé Alþingi að lýsa velþóknun sinni á því mikilvæga starfi sem viðkomandi einstaklingar og samtök inna af hendi til góðra og gildra mála. Þegar erindi berast nefndinni eru þau í flestum tilvikum ítarlega rökstudd og ágæt grein gerð fyrir því hver áform eru uppi um ráðstöfun styrkjanna. Hins vegar hefur skort á það að fjárlaganefnd fái upplýsingar um hvernig til hefur tekist um ráðstöfun þeirra, þ.e. hvort þau markmið sem lagt var upp með og gerð var grein fyrir í beiðni viðkomandi hafi náðst.

Fjárlaganefnd hefur af þessum sökum ákveðið að þegar styrkir eru greiddir út gangist aðilar undir það að skila skýrslu sem greini frá því hvernig viðkomandi verkefni hafi reitt af og hvort þau markmið sem voru áformuð hafi náðst. Ráðgert er að samræma þessa skýrslugerð til að auðvelda eftirlit. Með þessu móti telur fjárlaganefnd að hún fái tækifæri til að fylgjast með því að opinberu fé sé ráðstafað eins og Alþingi hafi ákveðið. Áætlað er að skýrslugerð þessi verði komin á við framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2001. Ég geri sérstaklega grein fyrir þessu nú vegna þess að breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar fela í sér mikla aukningu á styrkjum til ýmissa ágætra verkefna.

Ég mun nú gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og þeim breytingartillögum sem fluttar eru við frumvarpið.

Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 21. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 9. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.

Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 3.778 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2.

Meiri hluti nefndarinnar þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa einnig veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Eins og venja er bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða 3. umr. ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar og ég hef gert grein fyrir.

Ég mun þá gera grein fyrir einstökum breytingartillögum og skýringum við þær.

Þar er fyrst á blaði Alþingi. Gerð er tillaga um 13 millj. kr. hækkun vegna aukinna útgjalda sem stafa einkum af hækkun ferðakostnaðar í kjölfar kjördæmabreytinga.

Lögð er til 23 millj. kr. hækkun fjárveitinga vegna aukins kostnaðar í almennum rekstri. Hann stafar m.a. af launaskriði vegna starfsaldurshækkana, auknu samstarfi við erlend þjóðþing, hækkun á áskriftum að hugbúnaðarkerfum og tölvuleigu og hærri síma- og póstkostnaði.

Lögð er til 1 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til skýrslugerðar um samfélagsþróun á norðurskautssvæðinu.

Forsætisráðuneyti. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. framlag til að efla yfirstjórn ráðuneytisins vegna aukins umfangs í starfsemi þess og fjölgunar verkefna sem það hefur með höndum. Gert er ráð fyrir að bætt verði við einu stöðugildi í yfirstjórn ráðuneytisins.

Ritun sögu Stjórnarráðsins. Lagt er til 3,2 millj. kr. framlag til ritunar á sögu Stjórnarráðsins en samningar hafa verið gerðir við ritnefnd sem hefur ákveðið tilhögun verksins, ráðið höfunda og áætlað kostnað við verkið, sem er áætlaður 13,2 millj. kr. fyrir árið 2001, en áður var hann áætlaður 10 millj. kr. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir árið 2002 verði 12,4 millj. kr., 11,5 millj. kr. fyrir árið 2003 og 0,6 millj. kr. í verklok árið 2004.

Menntamálaráðuneyti. Gerð er tillaga um að veita matvælaskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands 9,5 millj. kr. fjárveitingu til næringarfræðilegra rannsókna á kúamjólk og lágu nýgengi sykursýki af gerð 1 hérlendis. Fjárveitingin samsvarar einu og hálfu stöðugildi sérfræðinga og rekstrarkostnaði sem svarar 40% launakostnaðar. Reiknað er með að verkefnið taki tvö til þrjú ár hið minnsta og að svipaða fjárveitingu þurfi í þrjú ár. Að auki er sótt um styrki til rannsóknasjóða.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands fái 61 millj. kr. tekjur af sóknargjöldum á lið 06-735 sem er 9 millj. kr. hækkun frá fjárlögum 2000. Lagt er til að áætlað verði fyrir tekjum þessum á fjárlagalið skólans og jafnháum útgjöldum á móti.

Lagt er til að Raunvísindastofnun Háskóla Íslands verði veitt 15 millj. kr. tímabundin fjárveiting til viðhalds á húsnæði sem er orðið brýnt.

Leiðrétt er framsetning á fjárlagaliðnum Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður til samræmis við greinargerð með frumvarpinu. Þannig hækkar viðfangsefnið 5.21 Viðhald um 8 millj. kr. og 6.21 Stofnkostnaður lækkar um sömu fjárhæð.

Gerð er tillaga um að veita Reykjavíkurakademíunni sérstakt tímabundið þróunarfé, 10 millj. kr., til að byggja svo upp rekstrarform, stjórnsýslu og starfsmannahald hennar að hún standist þær kröfur sem gerðar eru til sjálfseignarstofnana sem gera samninga um rekstrarverkefni við einstaka ráðherra skv. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

Gerð er tillaga um að veita Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða 0,8 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til að kosta hönnun og gerð kostnaðaráætlunar um stækkun aðstöðu til funda, kennslu og námskeiðahalds. Slík aðstaða yrði einnig nýtt til að fá fleiri aðila til samstarfs í setrinu og til uppbyggingar frumkvöðlaseturs í samstarfi við Atvinnuþróunarfélagið.

Gerð er tillaga um 90 millj. kr. hækkun á liðinn Háskólar, óskipt vegna fjölgunar nemenda umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlagafrumvarpsins. Í frumvarpinu er áætlað fyrir útgjöldum vegna 7.342 nemendaígilda, en í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að þau verði 200 fleiri.

Framhaldsskólar, stofnkostnaður. Byggingarframkvæmdir, óskipt. Leiðrétt er framsetning á fjárlagaliðnum til samræmis við greinargerð með frumvarpinu. Þannig lækkar þetta viðfangsefni um 13 millj. kr. og viðfangsefnið 6.95 Tæki og búnaður, óskipt hækkar um sömu fjárhæð.

Tæki og búnaður, óskipt. Hér er lögð er til 28 millj. kr. hækkun. Annars vegar er um að ræða fyrrgreinda 13 millj. kr. hækkun til leiðréttingar og hins vegar er gerð tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja tilraunaverkefni með fartölvur og þráðlaus net í þremur framhaldsskólum, sem eru þróunarskólar í upplýsingatækni, vegna kostnaðar við öryggisskápa, tengingar á sendum og kaup á skjávörpum.

Myndlistarskólinn í Reykjavík. Gerð er tillaga um 4,6 millj. kr. tímabundið framlag vegna framkvæmda sem varða viðhald og öryggi í skólahúsnæðinu.

Myndlistarskólinn í Kópavogi. Vegna vaxandi aðsóknar að skólanum er lagt til að framlög til hans hækki um 0,5 millj. kr.

Fjölbrautaskóli Vesturlands. Gerð er tillaga um 3,9 millj. kr. hækkun á greiðsluheimild liðarins til leiðréttingar á skekkju sem gerð var við framsetningu innritunargjalda sem ríkistekna í stað sértekna við undirbúning frumvarpsins. Fjárveiting verður óbreytt eftir sem áður.

Við Námsgagnastofnun er lögð til 20 millj. kr. hækkun framlags til að mæta kostnaði sem hlýst af breytingum á námsefni og gerð nýs námsefnis í framhaldi af nýrri aðalnámskrá grunnskóla.

Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 29,5 millj. kr. hækkun vegna fimm verkefna. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 15 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til átaks í fjarvinnsluskrám safnsins í gagnagrunninn Sarp. Mikilvægt þykir að gera nokkurra ára átak í því að koma sem mestum upplýsingum í Sarp sem fyrst svo að grunnurinn geti farið að gegna hlutverki sínu eins og til er ætlast. Nú vinna þrír starfsmenn að skráningu í grunninn. Í öðru lagi er lögð til 7 millj. kr. tímabundin fjárveiting til áframhaldandi Reykholtsrannsókna. Í þriðja lagi er gerð er tillaga um 4 millj. kr. tímabundna hækkun fjárveitinga til safnsins til að gera því unnt að taka til varðveislu og skráningar málverkasafn Bjarna Jónssonar um íslenska sjávarhætti ef verður af kaupum á því. Safnið er til marks um viðamiklar athuganir Bjarna á sjóminjum og sögu fiskveiða. Í fjórða lagi er gerð tillaga um 2 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til safnsins til kaupa á sérfræðiþjónustu af Fornleifastofnun Íslands. Samningur er milli safnsins og Fornleifastofnunar um úrvinnslu rannsóknar á Stóru-Borg og ber safninu að leggja fram 2 millj. kr. árið 2001. Loks er í fimmta lagi gerð tillaga um tímabundna 1,5 millj. kr. fjárveitingu til að ljúka fornleifarannsóknum í Hólmi í Austur-Skaftafellssýslu en þar er talið að hafi verið blótstaður bænda.

Undir liðnum Byggða- og minjasöfn er lagt til að framlög til byggða- og minjasafna hækki alls um 31,3 millj. kr. Í fyrsta lagi er þar um 15,6 millj. kr. hækkun til safnanna að ræða en engin raunhækkun á fjárveitingum er á milli ára í fjárlagafrumvarpinu. Haft verði að leiðarljósi að fjárveiting nýtist vel í öllum landsfjórðungum. Þá er í öðru lagi gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til uppbyggingar Vatneyrarbúðar á Patreksfirði. Vatneyrarhúsið á Patreksfirði var starfsstöð athafnamannsins Ólafs Jóhannssonar, en hann var einn af mestu athafnamönnum landsins á fyrri hluta 20. aldar. Í Vatneyrarbúðinni eru minjar um merka sögu, en miðað er við endurgerð eins og var þegar stöðin stóð í mestum blóma. Í þriðja lagi er gerð tillaga um 3,7 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til að hefja rannsóknir á hinum forna verslunarstað á Gásum í Eyjafirði. Gerð og framkvæmd rannsóknaáætlunar munu fara fram undir faglegri yfirstjórn Þjóðminjasafns Íslands sem einnig mun annast forvörslu forngripa. Minjasafninu á Akureyri eða jafngildum aðila verður falin varðveisla gripanna í þeim tilgangi að þeir nýtist í varanlega sýningu um verslun á miðöldum. Loks er gerð tillaga um að veita Byggðasafni Snæfellinga 2 millj. kr. tímabundið framlag til endurbyggingar og viðgerða á gömlum breiðfirskum bátum.

Samgöngusafn Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum. Þetta er nýtt viðfangsefni. Hér er gerð tillaga um að veitt verði 12 millj. kr. tímabundið framlag til að koma á fót Samgöngusafni Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum. Tilgangur með stofnun þess er að safna til varðveislu tækjum og minjum sem sýna þróun í samgöngum landsmanna frá upphafi aldarinnar.

Endurbygging kútters Sigurfara. Lögð er til 6 millj. kr. tímabundin fjárveiting á þessu viðfangsefni sem er nýtt. Kútter Sigurfari er eini kútterinn úr þilskipastóli 19. aldar sem varðveittur er á Íslandi, smíðaður 1885 í Bretlandi og keyptur til Íslands 1897.

Þjóðskjalasafn Íslands. Héraðsskjalasöfn. Gerð er tillaga um 2,1 millj. kr. hækkun á þessum safnlið héraðsskjalasafna.

Söfn, ýmis framlög. Breytingar sem lagðar er til á þessum lið nema 111,5 millj. kr. til hækkunar. Ný viðfangsefni á liðnum eru 1.41 og 6.25--6.37.

Lagt er til að fjárveitingar til Nýlistasafnsins hækki um 1 millj. kr. Til að bæta rekstur safnsins hefur sú breyting orðið á starfsemi þess að sýningarstjórn er í höndum stjórnar safnsins og salir ekki leigðir út en áður var valið úr umsóknum og sýningarsalir leigðir. Stefnt er að því að ráða starfsmann á skrifstofu safnsins til viðbótar við framkvæmdastjóra. Aðkallandi úrbóta er þörf á húsnæði vegna brunavarna.

Galdrasýning á Ströndum. Lögð er til 15 millj. kr. tímabundin fjárveiting. Fyrsti áfangi hennar hefur verið opnaður á Hólmavík í gömlu pakkhúsi sem var innréttað og lagfært. Áætlað er að byggja frekar upp Galdrasýningu á Ströndum í Hrútafirði, Bjarnarfirði og Árnesi.

Gerð er tillaga um að safnliðurinn 1.90 Söfn hækki um 12 millj. kr. og er sundurliðun fjárveitinga sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans.

[11:00]

Gerð er tillaga um að veita Sögusetrinu á Hvolsvelli 7 millj. kr. tímabundna fjárveitingu næsta ár til stuðnings við framkvæmdir eins og endurbætur á aðstöðu og endurnýjun á gripum sem gestum er boðið að skoða á sýningunni Á Njáluslóð. Þá þarf að koma upp nauðsynlegum öryggisbúnaði til að hægt sé að hafa til sýnis upprunalega muni, svo sem Njáluhandrit og muni sem fundist hafa á Njáluslóðum.

Hvalamiðstöð á Húsavík. Gerð er tillaga um að veita Hvalamiðstöðinni á Húsavík 6 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til áframhaldandi endurbóta og uppbyggingar á húsnæði miðstöðvarinnar en gengið hefur verið frá kaupum á húsnæði Kaupfélags Þingeyinga, gamla sláturhúsinu, undir framtíðarstarfsemi.

Geysisstofa í Haukadal. Gerð er tillaga um að veita Geysisstofu 7 millj. kr. fjárveitingu til þriggja ára vegna stofnkostnaðar. Geysisstofa var formlega opnuð í júlí sl. Þar er að finna fjölþættan fróðleik um jarðfræði Íslands. Heildarkostnaður varð um 80 millj. kr.

Endurbygging vélbátsins Blátinds, Vestmannaeyjum. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til endurbyggingar vélbátsins Blátinds. Blátindur VE er einn af 76 þilfarsvélbátum sem byggðir voru í Vestmannaeyjum á 20. öld, 45 lesta eikarbátur, en við endurbyggingu Skansins í Vestmannaeyjum og stafkirkjusvæðisins hefur verið gert ráð fyrir Blátindi. Báturinn var smíðaður 1947 en hann er síðasti báturinn sem eftir er úr fyrrgreindum flota, heimasmíðuðum í Eyjum.

Endurbygging á Herjólfsbæ, Vestmannaeyjum. Lagt er til að Herjólfsbæjarfélaginu verði veitt 10 millj. kr. tímabundið framlag til uppbyggingar Herjólfsbæjar. Miðað er við að endurbyggð verði þrjú samtengd hús, íbúðarhús, verkstæði og fjós. Unnið hefur verið að undirbúningi á þessu þekkta bæjarstæði landnámsmannsins Herjólfs en hugsanlega er þarna um að ræða elsta þekkta bæjarstæði á Íslandi. Aflað hefur verið fjár til undirbúnings varðandi teikningar og grunnvinnu en áætlaður kostnaður við uppbygginguna er 44 millj. kr.

Sögusafnið í Reykjavík. Lagt er til 18 millj. kr. tímabundið framlag til Sögusafnsins í Reykjavík. Með uppbyggingu safnsins sem fengið hefur inni í einum af vatnstönkunum í Öskjuhlíð er markmiðið að bregða upp myndum af mikilvægum atburðum og persónum Íslandssögunnar í eins konar vaxmyndasafnastíl, en safnið er hugsað sem innlegg í sögunám grunnskólanema og jafnt fyrir innlenda ferðamenn sem erlenda.

Bátasafn á Suðurnesjum. Gerð er tillaga um 8,5 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til bátasafns sem sett verður upp á Suðurnesjum. Þar verður safn Gríms Karlssonar skipstjóra í Njarðvíkum sem hefur smíðað einstakt safn líkana af skipum. Þau sýna þróun skipa síðustu 100 ár frá upphafi vélbátaútgerðar á Íslandi.

Sjóminja- og smiðjumunasafn. Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundna fjárveitingu vegna flutnings Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar frá Reykjavík til Neskaupstaðar. Athafnamaðurinn Jósafat Hinriksson safnaði í áratugi ýmsum merkum hlutum á vettvangi sjávarútvegs og smiðja sem tengjast veiðum og vinnslu. Afkomendur Jósafats buðu Fjarðabyggð safnið að gjöf, en frá árinu 1988 var safnið í verksmiðjuhúsi Jósafats við Súðavog í Reykjavík. Fjárveitingin er ætluð til að koma upp aðstöðu yfir safnið í Neskaupstað.

Sjóminjasafn Íslands. Lögð er til 2,5 millj. kr. tímabundin fjárveiting til safnsins til að gera upp uppskipunar- og flutningabát frá 1900, Friðþjóf, en hann var síðast notaður fyrir hálfri öld. Ráðgert er að flytja bátinn frá Miðhúsum í Reykhólasveit til Bolungarvíkur og gera hann upp þar.

Jöklasafn. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Jöklasafns á Hornafirði sem tengist náttúru Austur-Skaftafellsýslu og jöklabúskap þar.

Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Lagt er til að safnið, sem byggist á íslenskri alþýðulist, fái 3 millj. kr. tímabundna fjárveitingu.

Endurbygging Tryggvaskála á Selfossi. Lögð er til 4 millj. kr. tímabundin fjárveiting til uppbyggingar Tryggvaskála á Selfossi sem hefur staðið yfir í nokkur ár.

Síldarminjasafnið á Siglufirði. Gerð er tillaga um að veita safninu 6 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja starfsemi þess.

Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði. Lagt er til að veitt verði 6 millj. kr. tímabundið framlag til endurbóta á húsinu sem er frá 18. öld.

Gerð er tillaga um 20 millj. kr. hækkun á framlögum til Endurbótasjóðs menningarstofnana og er sundurliðun fjárveitinga sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans. Þar sem liðurinn er fjármagnaður með mörkuðum tekjum af sérstökum eignarskatti verður gerð breytingartillaga við 6. gr. frumvarpsins við 3. umr. um það.

Kaupvangur á Vopnafirði. Gerð er tillaga um 14 millj. kr. tímabundið framlag til að ljúka endanlegri hönnun á innviðum Kaupvangs á Vopnafirði og gera endanlega kostnaðaráætlun auk þess að hefjast handa við lagfæringu 1. hæðar hússins. Húsið hefur verulegt gildi fyrir sögu bæjarins og bæjarmyndina í heild en það var sem kunnugt er byggt af sama byggingarmeistara og byggði Alþingishúsið.

Lagt er til að Reykjanesbæ verði veittur 10 millj. kr. tímabundinn styrkur til endurbóta á Duushúsunum í Keflavík með það fyrir augum að menningarmiðstöð bæjarins verði þar til húsa í framtíðinni, til eflingar menningu og ferðaþjónustu. Um er að ræða tvö gömul hús, Gömlu búð og Bryggjuhúsið, sem eru frá síðari hluta 19. aldar. Húsafriðunarnefnd ríkisins styrkti húsin um 500.000 kr. árið 2000. Þær aðgerðir sem nú þegar hafa verið unnar við húsin hafa aðallega beinst að því að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Húsafriðunarsjóður. Lögð er til 26,5 millj. kr. hækkun á liðnum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framlög til Húsafriðunarsjóðs hækki um 15 millj. kr. vegna mikilla verkefna. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir að 5 millj. kr. tímabundin fjárveiting fari til viðgerðar og endurbyggingar á svonefndu Syðstabæjarhúsi í Hrísey en það er elsta hús eyjarinnar, reist af Hákarla-Jörundi. Í þriðja lagi er um að ræða 3 millj. kr. tímabundið framlag vegna endurbóta á Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Í fjórða lagi er lagt til að Grýtubakkahreppi verði veittur 2 millj. kr. tímabundinn styrkur til að endurbæta beituskúr á Grenivík sem er minjar um gamla atvinnuhætti. Skúrinn er í eigu sveitarfélagsins og er Minjasafnið á Akureyri tilbúið að taka að sér rekstur hússins að viðgerðum loknum. Viðgerðir eru hafnar og hefur verið framkvæmt fyrir um 1 millj. kr. Styrkur hefur tvisvar fengist frá Húsafriðunarsjóði. Loks er gert ráð fyrir 1,5 millj. kr. tímabundnu framlagi til að endurhlaða Hraunsrétt í Aðaldal sem var upprunalega byggð á árunum 1836--1838. Hún er með stærstu réttum á landinu og þykir mjög sérstök en efnið í henni er hraungrjót. Á síðastliðnu sumri var hafist handa um uppbyggingu réttarinnar. Minjavörður Þjóðminjasafns Íslands hefur samið álitsgerð um réttina.

Ýmis fræðistörf. Bókaútgáfa Leifs Eiríkssonar. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til bókaútgáfunnar til að vinna að útgáfu Íslendingasagnanna á ensku í ritröðinni Penguin Classics. Samræmd heildarþýðing á Íslendingasögunum á ensku kom út árið 1997. Nú hefur verið samið við útgáfufyrirtækið Penguin um útgáfu á stökum sögum til að koma til móts við margvíslegar þarfir markaðarins og var Íslendingum falið að annast allan undirbúning og vinnu við ritstjórn bókanna. Tíu bækur verða gefnar út og hyggst Penguin stórauka útbreiðslu sagnanna og bjóða þær fram í stærra upplagi og í fleiri bókabúðum en áður.

Hið íslenska bókmenntafélag. Lögð er til 3 millj. kr. tímabundin hækkun á fjárveitingum Hins íslenska bókmenntafélags. Verður fjármununum einkum varið til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er gerð staðanafnaskrár, atriðisorðaskrár og ritaskrár yfir Annála 1400--1800, í öðru lagi Laufás I -- Staðurinn, í þriðja lagi er um að ræða kaup á lager bókanna Kortasaga Íslands I--II og loks er það vinnsla lærdómsrita Bókmenntafélagsins og ritröðin Íslenzk heimspeki.

Alþjóðleg samskipti. Gerð er tillaga um 17,1 millj. kr. fjárveitingu vegna fyrirhugaðs framboðs Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO. Í kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir ferðalögum frambjóðanda, 10 mánaða launum viðbótarstarfsmanns í sendiráði Íslands í París á árinu 2001 til að sinna framboðinu, leigu og rekstri á húsnæði í skrifstofubyggingu UNESCO, risnu og launum starfsmanns í hálfu starfi á Íslandi á framboðstímanum.

Lögð er til 15,5 millj. kr. hækkun framlags til að greiða aðildargjöld vegna samstarfs við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við endurskoðaða kostnaðaráætlun.

Farið er fram á 3 millj. kr. hækkun framlags til Menntastofnunar Íslands og Bandaríkjanna til að mæta óhagstæðri gengisþróun. Framlag til stofnunarinnar er áætlað 11,5 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu.

Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundna hækkun framlaga til félagsins. Það hefur staðið fyrir tveimur stórum viðburðum í ár, samnorrænu verkefni, Kultur og ungdom, og unglingalandsmóti. Næsta ár verður 23. landsmót UMFÍ haldið á Austur-Héraði.

Lagt er til að rekstrarstyrkur Bandalags íslenskra skáta hækki um 3,5 millj. kr. svo að hann fylgi almennum verðhækkunum og komi einnig til móts við stóraukin umsvif landshreyfingarinnar. Meðal verkefna sem lögð er áhersla á hjá bandalaginu eru fræðslumál, útgáfumál og aðstoð við skátafélög um allt land. Þá er skátahreyfingin stærsti formlegi félagsskapur barna og unglinga í heiminum. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi er bandalaginu dýr en samstarf við útlönd er forsenda fyrir tilvist og þróun starfseminnar.

Lagt er til að Bandalag íslenskra skáta fái 0,5 millj. kr. tímabundinn styrk til reksturs útilífsmiðstöðvar skáta og Skátaskólans á Úlfljótsvatni.

Lagt er til að fjárveiting til Landssambands KFUM og KFUK hækki um 4 millj. kr. og verði 11 millj. kr. Heildarkostnaður við starfið er um 100 millj. kr. og launagreiðslur jafngilda 30 stöðugildum en mikil sjálfboðavinna er unnin í félaginu. Reknar eru fimm sumarbúðir og fer unglingastarf fram vítt og breitt um landið og hefur aukist síðustu ár. Þá fer leiðtogafræðsla fram á vegum KFUM og KFUK.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Gerð er tillaga um 16 millj. kr. hækkun framlags til sambandsins. Annars vegar er um að ræða 8 millj. kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar við sumar- og vetrarólympíudaga Evrópuæskunnar sem haldnir verða næsta ár og hins vegar er 8 millj. kr. framlag til að styrkja stöðu sérsambanda ÍSÍ.

Ólympíunefnd fatlaðra. Lögð er til tímabundin 1,5 millj. kr. hækkun fjárveitinga til ólympíunefndar fatlaðra.

Skíðasvæðið í Tungudal við Skutulsfjörð. Á þessu nýja viðfangsefni er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til uppbyggingar á skíðasvæðinu í Tungudal við Skutulsfjörð. Eftir að snjóflóð féllu í Seljalandsdal 1994 var hafist handa við skíðalyftu í Tungudal og endurbyggingu í Seljalandsdal, en eftir snjóflóð 1998 þegar skíðalyftan í Seljalandsdal eyðilagðist aftur var ákveðið að öll uppbygging yrði í Tungudal. Sú uppbygging er styrkt eftir fyrri hrakfarir.

Ýmis framlög. Lagt er til að safnliðurinn hækki um 12 millj. kr. og er skipting liðarins sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans undir númerinu 1.90.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Lagt er til að veitt verði 6 millj. kr. framlag til að efla fíkniefnaeftirlit á Keflavíkurflugvelli með fjölgun leitarhunda. Framlagið er ætlað til kaupa á bifreið til að flytja hundana og einnig til þjálfunar og gæslu þeirra.

Friðargæsla. Sótt er um 17 millj. kr. fjárveitingu til að fjölga íslenskum starfsmönnum í alþjóðlegu friðargæslu- og uppbyggingarstarfi um fimm á árinu 2001.

Landbúnaðarráðuneyti. Yfirstjórn. Lagt er til að 2 millj. kr. framlag vegna aksturskostnaðar falli niður.

Gerð er tillaga um að safnliðurinn Ýmis verkefni hækki um 7 millj. kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að hluti af tekjum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins af rannsóknastofum yrði innheimtur af Iðntæknistofnun. Þar sem ekki hefur verið gengið endanlega frá málinu er tillagan dregin til baka og verður málið endurskoðað í ljósi niðurstöðunnar á næsta ári.

[11:15]

Veiðimálastofnun. Lögð er til 4 millj. kr. fjárveiting til að sinna áfram tilraunastarfi, þekkingaröflun og ráðgjöf í ræktun kræklings en gert er ráð fyrir að verkefnið standi yfir a.m.k. næstu þrjú ár. Kynningar hafa farið fram á verkefninu og nú hefur á annan tug aðila hafið tilraunarækt á kræklingi víðs vegar um landið.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Lögð er til 2 millj. kr. hækkun á framlagi til reksturs háskóladeilda skólans.

Garðyrkjuskóli ríkisins. Gerð er tillaga um 3,3 millj. kr. fjárveitingu í þrjú ár til uppbyggingar á sérhæfðri rannsóknaraðstöðu til rannsókna á særoki og saltskemmdum á trjágróðri og vegna doktorsverkefna á sviði plöntulífeðlisfræði og plöntunæringarfræði. Aðstöðunni mun verða komið upp við Garðyrkjuskólann og er gert ráð fyrir að hún nýtist vísindamönnum og til kennslu í skólanum.

Lögð er til 15 millj. kr. lokagreiðsla til byggingar garðyrkjumiðstöðvar við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Í miðstöðinni verður í sama húsnæði leiðbeiningarþjónusta, tilraunastjórn, kennarar, Samband garðyrkjubænda, endurmenntunarstjóri, móttaka og skólameistari. Um 125 m2 hafa þegar verið teknir í notkun með breytingum á núverandi húsnæði skólans en til stendur að hefja byggingu 425 m2 viðbyggingar við hann. Verklok eru áætluð í maí 2002.

Landgræðsla ríkisins. Lagt er til að veitt verði 10 millj. kr. framlag til verkefnisins Bændur græða landið, en verkefnið er liður í átaki stofnunarinnar við bindingu kolefnis.

Landshlutabundin skógrækt. Gerðar eru tillögur um 70,6 millj. kr. hækkun á framlögum til liðarins og eitt nýtt viðfangsefni sem er Austurlandsskógar.

Suðurlandsskógar. Lagt er til að framlög til Suðurlandsskóga hækki um 19,6 millj. kr. svo að þau verði í samræmi við áætlanir og fyrri samþykktir og hægt verði að standa við samninga sem gerðir hafa verið við trjáplöntuframleiðendur.

Vesturlandsskógar. Lögð er til 13 millj. kr. hækkun á framlagi til Vesturlandsskóga sem verða þá 34 millj. kr. Fjárþörfin miðast við þann fjölda plantna sem samið hefur verið um framleiðslu á og að gerðar verði nýjar ræktunaráætlanir til 10--20 ára fyrir 30 jarðir og skjólbeltaáætlanir fyrir allt að 50 jarðir.

Skjólskógar, Vestfjörðum. Lagt er til að framlag til Skjólskóga á Vestfjörðum hækki um 9 millj. kr. og verði alls 30 millj. kr. Stígandi verkefnisins verður hraðari en gert var ráð fyrir þar sem undirbúningsvinnan í ár nægir til að taka nýliða hraðar í verkefnið og flýta þannig áætlun um eitt ár.

Norðurlandsskógar. Lögð er til 19 millj. kr. hækkun á framlagi til Norðurlandsskóga sem verður þannig 50 millj. kr. eins og gert er ráð fyrir í 40 ára framkvæmdaáætlun.

Austurlandsskógar. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. fjárveitingu sem varið verði til að kanna áhuga á skógrækt á svæðum á Austurlandi utan Héraðsskóga og til að hefja samninga við skógræktarbændur á því svæði.

Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Þar er lagt til að greiðslur í Lífeyrissjóð bænda lækki um 8 millj. kr. Ástæða lækkunarinnar er að 6% af beingreiðslum fara til beingreiðsluhafa sem eru eldri en 70 ára, en skv. 5. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, skal ekki greiða iðgjöld í sjóðinn lengur en til 70 ára aldurs.

Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Þar er lagt til að greiðslur í Lífeyrissjóð bænda lækki um 7,7 millj. kr. Ástæða lækkunarinnar er að 10,4% af beingreiðslum fara til beingreiðsluhafa sem eru eldri en 70 ára, en skv. 5. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, skal ekki greiða iðgjöld í sjóðinn lengur en til 70 ára aldurs.

Bændasamtök Íslands. Lögð er til 26,7 millj. kr. hækkun á þessum lið vegna samningsbundinnar endurskoðunar á samningi við Bændasamtök Íslands frá 5. mars 1999. Hækkunin verður á eftirfarandi þremur viðfangsefnum:

Leiðbeiningastarfsemi, landsþjónusta. Gerð er tillaga um 12,2 millj. kr. hækkun. Þar af eru 5,7 millj. kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 6,5 millj. kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.

Leiðbeiningastarfsemi, héraðsþjónusta. Gerð er tillaga um 8,1 millj. kr. hækkun. Þar af eru 3,8 millj. kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 4,3 millj. kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.

Búfjárrækt. Gerð er tillaga um 6,4 millj. kr. hækkun. Þar af eru 3 millj. kr. vegna vanáætlaðrar greiðslu í lífeyrissjóð og 3,4 millj. kr. vegna verðlagsbóta á laun fyrir árin 2000 og 2001.

Fiskeldisrannsóknir. Lagt er til að framlag til Stofnfisks hf. hækki um 1,1 millj. kr. Hækkunin er í samræmi við verðlagsákvæði samnings við fyrirtækið.

Sjávarútvegsráðuneyti. Undir liðnum Ýmis verkefni:

Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundna hækkun á þessum lið til sjóvinnukennslu unglinga á vegum Haftinds ehf. Fjárveitingin er háð því að gerður verði þjónustusamningur um verkefnið.

Kynning erlendis á nýtingu á auðlindum hafsins. Lagt er til að veitt verði 10 millj. kr. tímabundið framlag til kynningar á málstað og sjónarmiðum Íslendinga varðandi hvalveiðar. Í frumvarpi til fjárlaga 2001 er gert ráð fyrir 15 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu til sama verkefnis. Gert er ráð fyrir að kynning á málstað og sjónarmiðum Íslendinga verði látin ná til fleiri ríkja, svo sem Bretlands og Þýskalands.

Ýmislegt. Lögð er til 38 millj. kr. hækkun á liðnum og er hún af þrennum toga. Í fyrsta lagi er lagt til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 27 millj. kr. til að standa undir kostnaði af ráðstefnu sem haldin verður hér á landi haustið 2001 í samvinnu við Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í heild er búist við 500--650 þátttakendum. Fjármögnun ráðstefnunnar er tvíþætt. Annars vegar er fjármögnun kostnaðar sem verður til hjá FAO. Áætlað er að sá kostnaður verði um 550 þús. Bandaríkjadalir. Ísland, Noregur og FAO munu skipta þessum kostnaði á milli sín og hefur verið áætlað fyrir honum í fjárlagafrumvarpi 2001 hjá utanríkisráðuneytinu á viðfangsefninu 03-190 1.19 Ráðstefnur, samtals 21,6 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir að innlendur kostnaður verði um 27 millj. kr. Heildarkostnaður vegna ráðstefnunnar er því áætlaður 48,6 millj. kr.

Í öðru lagi er gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til að ljúka hagkvæmniathugun á kalkþörungavinnslu í Arnarfirði og í Húnaþingi og til efnagreininga og vinnu að umhverfisrannsóknum. Fjárlaganefnd veitti í fyrra 4 millj. kr. tímabundið framlag til könnunar á hagkvæmni kalkþörungavinnslu í Arnarfirði annars vegar og í Húnaflóa hins vegar, 2 millj. kr. á hvorn stað. Það varð að samkomulagi milli Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hf. og sveitarstjórnar Húnaþings vestra að Atvinnuþróunarfélagið fengi alla fjárhæðina gegn því að Húnaþing vestra fengi aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Tekist hefur að ljúka endurvarpsmælingum, borunum og sýnatökum og gagnaöflun vegna hagkvæmniathugunar að mestu en ljúka þarf verkinu. Vitað er um áhuga erlendra aðila á þátttöku í uppbyggingu verksmiðju í Arnarfirði ef niðurstöður nákvæmra efnagreininga og hagkvæmniathugunar verða jákvæðar.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um 1 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða til að safna gögnum og hefja mælingar við innanvert Ísafjarðardjúp með tilliti til nýtingar auðlinda svæðisins.

Hafrannsóknastofnunin. Rannsóknaskip. Hér er lögð til 13,5 millj. kr. hækkun sem skýrist af tvennu. Annars vegar er gerð tillaga um 8 millj. kr. viðbótarframlag vegna hækkana á olíuverði á heimsmarkaði sem leitt hafa til aukins kostnaðar við útgerð rannsóknaskipa stofnunarinnar. Þá er gerð er tillaga um að veita 5,5 millj. kr. tímabundið framlag til hafrannsóknaskipsins Drafnar sem nýtt er sem skólaskip 60 daga á ári. Flestum börnum í 9. og 10. bekk grunnskóla gefst kostur á að fara í kynnisferð með skipinu og um borð er fararstjóri frá Hafrannsóknastofnuninni sem hefur umsjón með fræðslu. Kostnaður við rekstur skipsins er um 11 millj. kr. á ári.

Fiskistofa. Lögð er til 25 millj. kr. fjárveiting til að fjölga veiðieftirlitsmönnum um borð í fiskiskipum um fimm til viðbótar við þá fimm sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu. Áætlað er að hækka veiðieftirlitsgjald sem stendur undir rekstri veiðieftirlitsins um sömu fjárhæð.

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna. Gerð er tillaga um 3,7 millj. kr. fjárveitingu vegna hækkana á gjöldum umfram forsendur fjárlaga vegna reksturs á húseignum í Keldnaholti. Um er að ræða kostnað vegna rafmagns, hita og ræstinga, svo og fasteignagjalda og opinberra gjalda.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Lögð er til 25 millj. kr. hækkun framlags til að standa straum af opinberri réttaraðstoð en á það viðfangsefni er færður kostnaður vegna gjafsókna. Hann hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og var halli á liðnum í lok síðasta árs rúmar 24 millj. kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir 64 millj. kr. framlagi vegna halla þessa og síðasta árs.

Ríkissaksóknari. Lagt er til að framlag til embættis ríkissaksóknara verði hækkað um 0,7 millj. kr. vegna endurskoðunar á húsaleigusamningi sem rennur út um næstu áramót.

Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að áætlaðar sértekjur bílabanka ríkislögreglustjóra verði hækkaðar um 2,4 millj. kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 er framlag til kaupa á tveimur bifreiðum sem aðallega verða ætlaðar til tollgæslu hjá sýslumannsembættunum á Akureyri og í Keflavík. Talið er að fastagjaldið fyrir leigu á bifreiðunum muni nema um 0,6 millj. kr. og miðað við reynslutölur af akstri verði kílómetragjaldið um 1,8 millj. kr. Gerð er tillaga um að framlag til embættanna hækki um 2,4 millj. kr. og verður því ekki nettóútgjaldaauki af þessu fyrirkomulagi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík. Lagt er til að sértekjur lögreglunnar í Reykjavík lækki um 3 millj. kr. Tekjur embættisins hafa að hluta verið færðar sem sértekjur en eru í reynd skatttekjur og eiga að renna í ríkissjóð en ekki til rekstrar embættisins.

Áfengis- og fíkniefnamál. Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála. Gerðar eru tvær tillögur til hækkunar á þessu viðfangsefni og nema þær 25 millj. kr. Í fyrri tillögunni er lagt til að veitt verði 20 millj. kr. fjárheimild til þess að mæta sérstökum kostnaði við rannsóknir meiri háttar fíkniefnamála. Reynsla síðustu ára sýnir að oft hefur komið til óvæntra útgjalda vegna rannsókna stærstu mála. Er þar oft um að ræða beinan útlagðan kostnað vegna aðkeyptrar tæknivinnu en einnig sérstaka álagstíma í vinnu lögreglunnar að rannsókn fíkniefnamála, svo sem þegar fjöldi manna liggur undir grun en það getur kallað á stöðugt eftirlit. Einnig er mikilvægt að rannsókn gangi hratt fyrir sig þegar fjöldi manna sem grunaðir eru um aðild að máli hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lagt er til að fjárheimildin verði á safnlið löggæslu og að henni verði úthlutað árlega af dómsmálaráðuneytinu.

Í síðari tillögunni er lagt til að 5 millj. kr. verði varið til þess að koma rekstri sporhunda og fíkniefnaleitarhunda á varanlegan grundvöll. Nauðsynlegt þykir að koma á föstum framlögum til þjálfunar sporhunda, annaðhvort á vegum lögregluembætta eða með samningum við björgunarsveitir. Notkun lögreglu á sporhundum hefur sannað gildi sitt, en björgunarsveitir sem annast þjálfun og rekstur hundanna hafa fengið takmarkaða styrki frá ríkinu til þess. Notkun fíkniefnaleitarhunda færist einnig stöðugt í aukana samhliða öflugri fíkniefnalöggæslu. Er mikilvægt að viðhalda þjálfun fíkniefnahunda um allt land á næsta ári en tímabundið framlag var veitt til hennar á þessu ári á lið ríkislögreglustjóra. Lögreglu- og tollyfirvöld annast rekstur fíkniefnaleitarhunda en samkomulag er á milli ríkislögreglustjóra og ríkistollstjóra um samnýtingu fíkniefnahunda.

Ýmis löggæslukostnaður. Gerð er tillaga um 25 millj. kr. fjárveitingu sem varið verði til að efla löggæslu með því að fjölga lögreglumönnum, einkum á sviði fíkniefnalöggæslu. Að undanförnu hefur fjölgað verulega stórum og tímafrekum rannsóknum í fíkniefnamálum og er fyrirhugað að bæta við mannafla í fíkniefnalöggæslu til þess að anna miklu og viðvarandi álagi. Fjárhæðin samsvarar launum sex lögreglumanna ásamt tengdum kostnaði. Við það er miðað að fyrir áramót liggi fyrir nánari tillögur um ráðstöfun á fjárhæðinni.

[11:30]

Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði. Gerð er tillaga um að sértekjur sýslumannsembættisins á Höfn í Hornafirði lækki um 0,2 millj. kr. og gjöld hækki um 0,2 millj. kr. Með breytingum á lögum nr. 87/2000 var Höfn í Hornafirði gerð að aðaltollhöfn. Við þá breytingu féll niður heimild til að innheimta gjald fyrir tollþjónustu. Tekjur af þessu gjaldi hafa verið um 0,4 millj. kr. á ári.

Sýslumaðurinn í Keflavík. Lagt er til að veitt verði 1,2 millj. kr. fjárframlag til sýslumannsembættisins í Keflavík vegna aukinna leigugjalda til bílabanka ríkislögreglustjóra. Ég hef áður skýrt ástæðuna fyrir þessum tillögum.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði. Lagt er til að sértekjur yfirstjórnar sýslumannsembættisins í Hafnarfirði verði felldar niður en þær nema 1,1 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Tekjur embættisins hafa verið færðar sem sértekjur en þær eru í reynd skatttekjur. Lagt er til að sértekjur tollgæslu sýslumannsembættisins í Hafnarfirði lækki um 0,3 millj. kr. Allar þessar tillögur eru því marki brenndar að hér er um leiðréttingar að ræða.

Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Lagt er til að framlag til miðstöðvarinnar verði hækkað um 26,2 millj. kr. í kjölfar endurskoðunar á samningi við Skráningarstofuna hf. um rekstur miðstöðvarinnar frá því í október. Í samningnum er kveðið á um endurmat á gildandi samningi og viðbót vegna Schengen-samningsins, Útlendingaeftirlitsins o.fl. auk bakvakta vegna Schengen-samningsins.

Biskup Íslands. Lögð er til 10 millj. kr. hækkun fjárveitinga til að vinna að framkvæmdum á lóð Hallgrímskirkju. Stefnt er að því að ljúka þar framkvæmdum árið 2002 og er þörf fyrir sömu fjárhæð næsta ár til að það takist.

Dómkirkjan í Reykjavík. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. fjárveitingu til viðgerða og endurbóta á kirkjunni. Kostnaður við endurbætur er að nálgast 200 millj. kr. en kostnaðarauki er einkum vegna ófyrirséðra verka við þakvirki kirkjunnar.

Auðunarstofa. Gerð er tillaga um 21 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til að ljúka verkefnum í tengslum við móttöku gjafar Norðmanna, Auðunarstofu.

Rannsóknarstofnun í helgisiðum í Skálholti. Gerð er tillaga um 8,5 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til þessa nýja viðfangsefnis. Unnið er að uppbyggingu rannsóknarstofnunar í helgisiðafræðum í Skálholti en stofnuninni hafa m.a. verið afhent gögn umfangsmikillar rannsóknar Collegium Musicum.

Kirkjugarðsgjöld. Lagt er til að Kirkjugarðasambandi Íslands verði veitt 3 millj. kr. tímabundið framlag til styrktar verkefni sem felst í því að skrá legstaði og söguupplýsingar í eldri kirkjugörðum til framsetningar á veraldarvefnum. Kirkjugarðasambandið hefur ráðist í tölvuskráningu kirkjugarða og stofnað um það sjálfstætt félag. Markmið þess er að bæta skipulag og stjórn kirkjugarða, gera upplýsingar um kirkjugarða og legstaðaskrár aðgengilegar almenningi og að safna og varðveita menningarlegar heimildir um kirkjugarða og legstaði og gera aðgengilegar á veraldarvefnum. Stefnt er að því að verkefnið verði unnið á Akureyri og Blönduósi.

Félagsmálaráðuneyti. Lagt er til að veitt verði 26 millj. kr. framlag til unglingameðferðarheimilisins Götusmiðjunnar til að efla starfsemi heimilisins. Gert er ráð fyrir að Barnaverndarstofa geri samning við heimilið þar sem nánar verði kveðið á um hvernig framlaginu verði varið.

Málefni fatlaðra. Laun vegna forfalla, orlofs o.fl. Gerð er tillaga um tímabundna fjárheimild að fjárhæð 36,9 millj. kr. vegna ofmats í frumvarpinu á lækkun útgjalda stofnana ráðuneytisins í kjölfar stofnunar fæðingarorlofssjóðsins. Tillagan miðar að því að leiðrétta framlög til stofnana sem til þessa hafa ekki greitt, eða aðeins greitt að hluta, laun í barnsburðarleyfum og til rekstrarverkefna samkvæmt þjónustusamningum.

Styrktarfélag vangefinna. Lögð er til 8 millj. kr. viðbótarfjárveiting til að gera þjónustusamning við Styrktarfélag vangefinna.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Gerð er tillaga um 1.800 millj. kr. hækkun á liðnum og er hún tvíþætt. Annars vegar er lagt til að veitt verði 1.100 millj. kr. framlag í sjóðinn til að jafna tekjutap einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytinga á álagningarstofni mannvirkja. Framlagið er ákvarðað í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og er framlagið reiknað sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð.

Hins vegar er farið fram á 700 millj. kr. tímabundið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í kjölfar samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga og í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar sem skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra í október 2000. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði ráðstafað til sveitarfélaga eftir reglum sem settar verða í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Vinnumálastofnun. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna fjárheimild til kaupa á húsnæði fyrir Svæðisvinnumiðlun Austurlands á Egilsstöðum. Leigusamningur við eigendur rennur út í árslok 2000 og ekki hefur tekist að finna hentugt leiguhúsnæði þrátt fyrir ítarlega athugun.

Vinnumál. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til liðarins.

Atvinnuleysistryggingasjóður. Gerð er tillaga um 104 millj. kr. tímabundið framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs í kjölfar samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins í mars 2000 um að treysta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og verða hæfari til að takast á við ný verkefni. Samhliða gerðu forvígismenn atvinnurekenda og félagsmálaráðherra samkomulag um 104 millj. kr. framlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2001, 53 millj. kr. framlag árið 2002 og 43 millj. kr. framlag árið 2003 eða alls 200 millj. kr.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að framlög til Klúbbsins Geysis verði hækkuð um 1,8 millj. kr. vegna aukinna umsvifa. Markmið klúbbsins er að reka vinnumiðlun fyrir geðfatlað fólk auk annarrar starfsemi í þágu þess. Klúbburinn hefur tvo starfsmenn en þörf er á þeim þriðja.

Krossgötur, endurhæfingarheimili. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundna hækkun á styrk til starfsemi Krossgatna.

Byrgið, líknarfélag. Lögð er til 5 millj. kr. tímabundin hækkun á fjárveitingum til Byrgisins til reksturs afeitrunardeildar í Hafnarfirði og áfangahúss fyrir fólk sem ekki hefur í önnur hús að venda. Áformað er að þar verði langtímameðferð sem geti varað í allt að þrjú ár.

Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum. Þetta er nýtt viðfangsefni og hér er farið fram á 7 millj. kr. fjárveitingu vegna stofnunar Nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum, samanber tillögu til þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 9. maí 2000.

Blindrafélagið, burstavél. Lagt er til að Blindrafélagið fái 10 millj. kr. tímabundið fjárframlag til kaupa á burstagerðarvél fyrir Blindravinnustofuna sem verður 60 ára á næsta ári. Hún hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til vélarkaupanna enda hefur verið rekstrarhalli á starfseminni síðustu ár.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Tryggingastofnun ríkisins. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. millifærslu á almennan rekstur Tryggingastofnunar, sjúklingatryggingar vegna umsýslukostnaðar við sjúklingatryggingar en stofnunin mun annast umsýslu þeirra trygginga.

Sjúkratryggingar. Lögð er til 175 millj. kr. hækkun á framlagi til lyfjamála. Endurmat á útgjöldum til lyfjamála eftir tíu mánuði bendir til þess að útgjöld vegna málaflokksins verði 4.755 millj. kr. á árinu 2001 og hefur útgjaldaspáin hækkað um 175 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Hjálpartæki. Lagðar eru til tvær breytingar á liðnum til hækkunar um 40 millj. kr. Annars vegar er gerð tillaga um 20 millj. kr. framlag til Tryggingastofnunar til að gera henni kleift að hafa umsjón með öndunargrímum. Fjármunir voru á sínum tíma fluttir frá Tryggingastofnun til Landspítala til að annast öflun og umsjón með öndunarvélum en Tryggingastofnun annaðist þó eftir sem áður rekstur hluta þeirra. Í ljósi fenginnar reynslu er talið eðlilegt að umsjón með starfsemi þessari verði í höndum Tryggingastofnunar sem mun gera þjónustusamning við Landspítalann um þjónustu vegna öndunargríma fyrir sjúkratryggða einstaklinga í heimahúsum. Kostnaður vegna þessa samnings er áætlaður 40 millj. kr. á ári og hafa þegar verið millifærðar 20 millj. kr. af fjárheimildum Landspítala til Tryggingastofnunar.

Hins vegar er gerð tillaga um 20 millj. kr. hækkun í ljósi endurmats á útgjöldum vegna hjálpartækja.

Þjálfun. Lagt er til að 64,1 millj. kr. framlag verði fært af sjúkratryggingum til málefna fatlaðra á viðfangsefni Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, til að ljúka við þjónustusamning við félagið. Til þessa hefur Tryggingastofnun ríkisins annast samningagerð við endurhæfingarstöð félagsins sem hefur jafnframt fengið árlegan styrk frá heilbrigðisráðuneyti. Þrátt fyrir greiðslur ráðuneytisins hefur verið halli á rekstri stöðvarinnar sem hefur verið fjármagnaður af happdrættisfé félagsins. Með þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að greiðslur til endurhæfingarstöðvarinnar verðið auknar til að styrkja rekstrarstöðu hennar.

Sjúklingatryggingar. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. millifærslu af þessum lið á almennan rekstur Tryggingastofnunar vegna umsýslukostnaðar við sjúklingatryggingar en stofnunin mun annast umsýslu þeirra trygginga.

Landlæknir. Lögð er til 12 millj. kr. hækkun á framlagi til landlæknisembættisins vegna klínískra leiðbeininga en hluti kostnaðar er tímabundinn. Annars vegar er um að ræða laun læknis sem hefur unnið að klínískum leiðbeiningum og hins vegar kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar. Með klínískum leiðbeiningum opnast möguleiki á að veita skilvirka læknismeðferð með hóflegum kostnaði. Við þetta starf er m.a. stuðst við vandaðar erlendar leiðbeiningar sem verður að laga að íslenskum aðstæðum en fyrirhugað er að skipa starfshópa lækna til ráðgjafar á hinum ýmsu sérsviðum. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2000 er farið fram á 7 millj. kr. fjárveitingu til þessa verkefnis.

Geislavarnir ríkisins. Gerð er tillaga um 1,1 millj. kr. framlag til að framfylgja eftirliti með allsherjarbanni við kjarnavopnum. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Samningurinn var fullgiltur 26. júní sl. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Árlegur rekstrarkostnaður vegna þessa er áætlaður 1,1 millj. kr.

Tæki og búnaður. Lagt er til 2,4 millj. kr. tímabundið framlag sem er áætlaður kostnaður til kaupa á stofnbúnaði til nota við eftirlit með framangreindu allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn. Stofnkostnaðurinn felst í sérstökum tölvu- og hugbúnaðarkaupum.

[11:45]

Manneldisráð. Lagt er til 1,8 millj. kr. tímabundið framlag næstu þrjú árin til viðhalds á íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla. Hafist var handa við uppbyggingu á grunninum á áttunda áratugnum en að mati sérfræðinga veitir grunnurinn mikilvægar upplýsingar bæði fyrir framleiðendur og neytendur um innihald matvæla. Fyrir heilbrigðisþjónustuna hefur grunnurinn einkum gildi varðandi rannsóknir á sambandi mataræðis og heilsu. Næringarmeðferð sjúklinga á sjúkrahúsum og ráðgjöf til almennings byggist einnig á gögnum frá grunninum.

Endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Gerð er tillaga um að 64,1 millj. kr. framlag verði fært af sjúkratryggingum til málefna fatlaðra á viðfangsefni Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til að ljúka við þjónustusamning við félagið. Til þessa hefur Tryggingastofnun ríkisins annast samningagerð við Endurhæfingarstöð félagsins sem jafnframt hefur fengið árlegan styrk frá heilbrigðisráðuneyti. Þrátt fyrir greiðslur ráðuneytisins hefur verið halli á rekstri stöðvarinnar sem hefur verið fjármagnaður af happdrættisfé félagsins. Með þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að auka greiðslur til endurhæfingarstöðvarinnar til að styrkja rekstrarstöðu hennar.

Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lagt er til að veitt verði 20 millj. kr. tímabundið framlag til ársins 2004 til að greiða hluta af nýjum röntgenbúnaði fyrir myndgreiningardeild sjúkrahússins. Á árinu 1999 var heimilað að bjóða út tækjabúnað fyrir æðarannsóknastofu og tölvusneiðmyndatæki. Útboð fór fram á þessu ári og liggur niðurstaða nú fyrir. Sá búnaður sem stjórnendur sjúkrahússins leggja til að verði keyptur, kostar um 83 millj. kr. Ljóst er að fjárveitingar sjúkrahússins til tækjakaupa á þessu ári duga ekki til að kaupa þessi tæki.

Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Gerð er tillaga um að veita 68 millj. kr. tímabundið framlag til að fjármagna á næsta ári væntanlegar eftirstöðvar fæðingarorlofsgreiðslna samkvæmt núgildandi lögum um fæðingarorlof. Í ársbyrjun næsta árs taka gildi ný lög um greiðslur í fæðingarorlofi. Í stað þess að ríkisstofnanir greiði sjálfar laun í fæðingarorlofi af sínu rekstrarfé fær nýr sjóður það hlutverk.

Landspítali -- háskólasjúkrahús. Tvær tillögur eru á þessum lið sem leiða til 103,4 millj. kr. hækkunar. Er annars vegar tillaga um 120 millj. kr. viðbótarframlag til mæta kostnaði af stærri skömmtum af lyfinu beta-interferon í baráttunni við MS-sjúkdóminn. Þegar er gert ráð fyrir 40 millj. kr. af rekstrarútgjöldum Landspítalans til þessa verkefnis. Samtals er því reiknað með 160 millj. kr. heildarkostnaði vegna lyfsins á næsta ári. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að skammtur af lyfinu þarf að vera sexfaldur til að skila tilætluðum árangri.

Hins vegar er lagt til að færðar verði 16,6 millj. kr. af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Hinn 1. október 1999 var mæðravernd Landspítala -- háskólasjúkrahúss flutt og sameinuð mæðravernd Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík með samningi milli stofnananna.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. 5.50 Viðhald sjúkrahúsa, óskipt og 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Fjárveitingar ætlaðar til viðhalds lækka um 60 millj. kr. og á móti hækka fjárveitingar til stofnkostnaðar um sömu fjárhæð.

Sjúkrastofnanir SÁÁ. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til framhaldsmeðferðar unglinga og fjölskyldumeðferðar á Sjúkrastöð Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.

Sjúkraflug. Lögð er til 41,9 millj. kr. fjárveiting til að mæta kostnaði við sjúkraflug samkvæmt samningi sem áformað er að gera í kjölfar útboðs sem Ríkiskaup önnuðust. Samkvæmt útboðinu verður greitt fyrir heildargrunnbætur fyrir áætlunarflug annars vegar og heildargrunngjald fyrir sjúkraflug hins vegar. Enn fremur verður greitt gjald fyrir hvert sjúkraflug, svo og gjald fyrir hvern klukkutíma umfram staðalsjúkraflug. Með samningunum verður þjónusta sjúkraflugs í fastari skorðum og öryggi eykst. Kostnaðarauki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis vegna grunngjalds fyrir sjúkraflug er 41,9 millj. kr. Að öðru leyti er kostnaður fyrir hvert einstakt sjúkraflug greiddur af Tryggingastofnun ríkisins.

Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Lagt er til að færðar verði 16,6 millj. kr. frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Hinn 1. október 1999 var mæðravernd Landspítala -- háskólasjúkrahúss flutt og sameinuð mæðravernd Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík með samningi milli stofnananna.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill geta þess að tölvukerfið er örlítið að stríða okkur en eins og hv. þm. vita þá er ótakmarkaður tími þannig að rauða ljósið sem blikkar í ræðustól formanns fjárln. er ekki rétt.)

Ég mun fyrirgefa tölvukerfinu þessa óþolinmæði fyrst forseti sýnir þolinmæði.

Forvarnasjóður. Gerð er tillaga um 9,5 millj. kr. fjárveitingar til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er tillaga um 5,5 millj. kr. framlag til Forvarnasjóðs vegna ýmissa verkefna og þar á meðal til þátttöku í ECMDDA sem er evrópsk miðstöð í forvarnastarfi gegn vímuefnum. Í öðru lagi er tillaga um 1,5 millj. kr. framlag sem renni til vímuefnalausrar miðstöðvar ungs fólks á Ísafirði í Gamla apótekinu til að efla forvarnastarf gegn vímuefnum. Í þriðja lagi er tillaga um 1,5 millj. kr. tímabundinn rekstrarstyrk til félagasamtakanna Íslenskra ungtemplara. Í fjórða lagi er tillaga um 1 millj. kr. framlag sem renni til vímuefnalausrar miðstöðvar ungs fólks í Skagafirði til að efla forvarnastarf gegn vímuefnum.

Fjármálaráðuneyti. Lagt er til að framlag hækki um 4 millj. kr. til yfirstjórnar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 4 millj. kr. framlagi á liðnum 09-995 til Skýrsluvélakostnaður vegna aukinnar aðkeyptrar þjónustu við upplýsingavinnslu fjárlagagerðar og reksturs fjárlagakerfis ráðuneyta og Alþingis. Fjárheimildin var hins vegar millifærð af fjárlagalið aðalskrifstofunnar í frumvarpinu og er tillagan ætluð til leiðréttingar á þeirri framsetningu.

Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Gerð er tillaga um 200 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta útgjöldum samkvæmt ákvæðum um heimildir í 7. gr. fjárlagafrumvarpsins. Áætlanir um nýtingu þessara heimilda eru jafnan háðar mikilli óvissu en reynsla síðustu ára hefur leitt í ljós að fjárheimild liðarins hefur verið skorinn fullþröngur stakkur miðað við framkvæmd heimildarákvæðanna.

Barnabætur. Gerð er tillaga um 200 millj. kr. hækkun á fjárheimild til greiðslu barnabóta. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 600 millj. kr. hækkun á fjárheimildinni en sú áætlun hefur nú verið endurmetin. Aukin framlög skýrast af áformum um að draga úr tekjutengingu og afnema eignatengingu í barnabótakerfinu. Einnig verða teknar upp ótekjutengdar bætur fyrir börn yngri en sjö ára.

Vaxtabætur. Lagt er til að fjárheimild til greiðslu vaxtabóta verði lækkuð um 400 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun fyrir árið 2001. Lækkunin stafar af auknum tekjum launþega milli ára.

Lagt er til að fjárheimild viðfangsefnisins Rekstur fasteigna hækki um 0,5 millj. kr. vegna lítils háttar skekkju í reikningi á launa- og verðlagshækkun frumvarpsins sem hafði í för með sér að hækkun tekna og gjalda varð ekki alveg jöfn.

Launa- og verðlagsmál. Lagt er til að veitt verði fjárheimild sem nemi 150 millj. kr. vegna nýlegs samkomulags milli stéttarfélaga opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga um réttindamál starfsmanna, einkum veikinda- og fæðingarorlofsrétt. Samkomulagið tekur gildi 1. janúar 2001 og verður hluti af kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga. Með samkomulaginu verður veikindaréttur samræmdur fyrir þessi stéttarfélög. Þá gerir samkomulagið ráð fyrir að ríkisstofnanir greiði framlag sem nemi 0,41% af heildarlaunum starfsmanna í stéttarfélögunum í sérstakan Fjölskyldu- og styrktarsjóð. Hlutverk sjóðsins verður einkum að greiða þann mismun sem er á milli réttinda samkvæmt fæðingarorlofslögum sem taka gildi um næstu áramót og heldur meiri réttinda sem ríkisstarfsmenn hafa haft til þessa samkvæmt reglugerð um fæðingarorlof. Einnig verður það hlutverk sjóðsins að stéttarfélögin geti tekið á sérstökum áföllum hjá félagsmönnum sínum sem veikindarétturinn nær ekki til. Þá er sjóðnum ætlað að koma til móts við þarfir félagsmanna stéttarfélaganna varðandi heilsueflingu. Kostnaður við framlög í sjóðinn er áætlaður 150 millj. kr. og er hann færður í einu lagi á þennan lið. Fyrirhugað er að fjárheimildinni verði skipt niður á einstakar stofnanir þegar launaforsendur verða endurmetnar með tilliti til nýrra kjarasamninga.

Samgönguráðuneyti. Þar er gert ráð fyrir að fjárheimild sem nemi 9,7 millj. kr. verði millifærð af viðfangsefninu 10-190-1.12 á nýtt viðfangsefni hjá Flugmálastjórn, 10-471-1.11 Styrkir til innanlandsflugs. Fjárheimildin er ætluð til að mæta framlögum til flugrekstraraðila í kjölfar útboðs á sjúkra- og áætlunarflugi innan lands.

Staðsetningarkerfi. Lagt er til að heiti viðfangsefnis verði breytt úr GPS-staðsetningarkerfi í Staðsetningarkerfi. Þetta er leiðrétting.

Flugskóli Íslands. Farið er fram á 9,7 millj. kr. framlag til rekstrar Flugskóla Íslands eins og verið hefur undanfarin ár. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarstyrkur til skólans falli niður en í staðinn komi stofnstyrkur að upphæð 15 millj. kr. á ári í þrjú ár til kaupa á flughermi fyrir skólann. Þetta byggðist á þeirri forsendu að búist var við samkeppni í rekstri flugskóla, þ.e. til bóklegs náms í atvinnuflugi. Vegna samkeppnissjónarmiða þótti ekki réttlætanlegt að styrkja einn skóla umfram annan í slíkum rekstri. Af þessu hefur ekki orðið og því er talið rétt að veita áfram sama styrk til skólans.

Gestastofur og markaðsstarf. Lagt er til að heiti viðfangsefnis verði breytt úr Ferðamál og markaðsstarf í Gestastofur og markaðsstarf.

Markaðssetning Íslands í Norður-Ameríku. Farið er fram á 12 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til verkefnis um markaðssetningu Íslands í Norður-Ameríku vegna hækkunar á gengi Bandaríkjadals. Í samningi um verkefnið er gert ráð fyrir árlegu framlagi í fimm ár að fjárhæð 700.000 Bandaríkjadalir. Þegar samningurinn var gerður var gengi Bandaríkjadals u.þ.b. 70 kr. en er nú komið í ríflega 87 kr. Samningurinn rennur út árið 2004.

Ýmislegt. Gerð er tillaga um 1 millj. kr. tímabundna hækkun þessa liðar til að kosta sérútbúna bifreið í Árneshreppi í þeim tilgangi að hana megi nota til að aka yfir Trékyllisheiði að vetrarlagi og auka þannig öryggi íbúanna í hreppnum.

Hlutur ríkisins í flughermi fyrir flugskóla. Lagt er til að tímabundinni 15 millj. kr. fjárveitingu til 2003, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, verði breytt í 10 millj. kr. fjárveitingu til ársins 2005. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að rekstrarstyrkur til Flugskóla Íslands félli niður eins og ég hef áður sagt en í staðinn kæmi stofnstyrkur að upphæð 15 millj. kr. á ári til þriggja ára til kaupa á flughermi. Nú er hins vegar lagt til að stofnstyrkur til kaupa á flugherminum verði lækkaður í 10 millj. kr. til ársins 2005.

Gerð er brtt. við brtt. nr. 84 í þskj. 375 við liðinn Siglingastofnun Íslands. Tillagan er sýnd í sérstöku þingskjali og sýnir sundurliðun fyrir viðfangsefnið 670 hafnarmannvirki, 674 lendingarbætur og 680 sjóvarnargarðar.

Styrkir til innanlandsflugs. Gerð er tillaga um 51 millj. kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við áætlunarflug innan lands samkvæmt samningi sem áformað er að gera í kjölfar undangengins útboðs. Samkvæmt útboðinu verða greiddar heildargrunnbætur fyrir áætlunarflug annars vegar og heildargrunngjald fyrir sjúkraflug hins vegar. Heildarkostnaður vegna útboðsins er 155 millj. kr. Þar af er hlutur samgönguráðuneytisins 60,7 millj. kr. vegna grunnbóta fyrir áætlunarflug. Á viðfangsefninu 10-190-1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar er í frumvarpinu 9,7 millj. kr. fjárheimild sem hefur verið ætluð til þessa verkefnis og er sú fjárhæð flutt þaðan til Flugmálastjórnar eins og ég hef áður gert grein fyrir. Er því gerð tillaga hér um 60,7 millj. kr. fjárveitingu í styrki til innanlandsflugs.

[12:00]

Ferðamálasamtök landshluta. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. hækkun fjárveitinga til þess að ferðamálasamtök landshluta geti sinnt hlutverki sínu og staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað.

Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. framlag vegna kostnaðar sem hlýst af yfirstjórn byggðamála. Vorið 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem leggur fjölmargar skyldur á ráðuneytið í þessum efnum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 5 millj. kr. fjárveitingu til þessa málaflokks. Áformað er að bæta við hálfu starfi til viðbótar einu starfi sem fyrir er. Óhjákvæmilega fylgir ýmis annar starfskostnaður, svo sem vegna ferðalaga, norræns og alþjóðlegs samstarfs, kaupa á sérfræðiþjónustu o.fl.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Lögð er til 25 millj. kr. fjárveiting til að endurgreiða kostnað vegna kvikmyndargerðar í ljósi endurskoðunar á lögum nr. 43/1999, um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag vegna samdráttar sölutekna upplýsinga úr þjóðskrá. Einnig er sýnt að hagræðing vegna upptöku nýs þjóðskrárkerfis verður minni en að var stefnt. Það stafar af því að kerfið er flóknara og viðhaldsfrekara en reiknað var með í fyrstu.

Umhverfisráðuneyti. Ýmis umhverfisverkefni. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til vinnuhóps náttúrustofa og heilbrigðiseftirlits á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi vestra til að gera úttekt á skólpmengun við litla þéttbýlisstaði við sjávarsíðuna og skipuleggja vöktun á mengun við sömu staði. Árið 1997 hófst samstarf milli Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og Náttúrustofu Vestfjarða um sýnatökur og mælingar við þéttbýlisstaði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra en vegna fjárskorts hefur ekki verið hægt að ganga frá niðurstöðum þessara athugana. Til að lýsa ástandinu á raunsannan hátt þarf að koma til ítarlegri sýnataka yfir lengra tímabil.

Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um að stofnaður verði sérstakur safnliður hjá umhverfisráðuneytinu með 3 millj. kr. fjárveitingu. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.

Skipulagsstofnun. Ekki er talið að unnt verði að afla sértekna af umhverfismati eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Lækka því gjöld til jafns við lækkun tekna eða alls um 4 millj. kr.

Ofanflóðasjóður. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. millifærslu af stofnkostnaði yfir á nýtt viðfangsefni 14-381-1.01 til að aðgreina rekstrarkostnað frá styrkveitingum.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir breytingartillögum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 200l. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið og breytingartillögurnar skrifa Jón Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Árni Johnsen, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Arnbjörg Sveinsdóttir og Kristján Pálsson.

Ég hef nú gert grein fyrir nefndarálitinu og helstu þáttunum sem í því felast. Fjárlaganefnd er við núverandi aðstæður vandi á höndum. Ætlunin er að afgreiða fjárlög með miklum tekjuafgangi eins og nauðsynlegt er til þess að leggja sitt til stöðugleika í samfélaginu. Þetta verður að hafa í huga meðan að hinu leytinu raðast inn erindi og tíðum er vitnað til þess að ekki sé mikið mál að verða við þeim í ljósi hins mikla tekjuafgangs sem áætlaður er. Ég ítreka að það ber ríka nauðsyn til að hafa aðhald þótt það verði til þess að einhverjum óskum, jafnvel um hin bestu mál eða aukna starfsemi verði að hafna. Það kemur til góða í framtíðinni. Það verður að laga skuldastöðuna í góðæri og tekjum fyrir sölu ríkisfyrirtækja verður að verja til þess að verulegu leyti þó réttlætanlegt geti verið að verja þeim einnig til nýrra fjárfestinga til þess að treysta innviði samfélagsins, svo sem fjárfestinga í samgöngum.

Ég vil þakka öllu mínu samstarfsfólki í fjárlaganefnd fyrir einstaklega gott samstarf. Starfsfólki ráðuneyta þakka ég og ekki síst þakka ég starfsfólki Alþingis fyrir alla þá ómetanlegu hjálp sem það veitir okkur. Án þess mikla vinnuframlags sem það hefur lagt fram ásamt starfsmönnum fjármálaráðuneytisins og hins nýja fjárlagakerfis sem einfaldar okkur störfin hefði ekki tekist að ljúka verkum fyrir 2. umr. á þessum degi.

Nú er lokaspretturinn eftir þegar þessari umræðu lýkur að undirbúa 3. umr. málsins.