Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:08:21 (2428)

2000-11-30 12:08:21# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. var yfirgripsmikil eins og vænta mátti. Í fyrsta hluta hennar fór hv. þm. yfir almennar línur í efnahagsmálum. Það þótti mér langmerkilegasti hluti ræðunnar, herra forseti.

Í henni var í reynd í fyrsta skipti viðurkennt af fullri alvöru af talsmanni stjórnarliðsins í efnahagsmálum að dimmar blikur væru á lofti í efnahagsmálum. Sér í lagi vakti athygli mína að hv. þm. taldi núverandi viðskiptahalla óviðunandi og beinlínis hættulegan. Þetta er í hreinni andstöðu við allt það sem forustumenn Sjálfstfl. hafa sagt. Ég vísa sérstaklega til orða hæstv. forsrh. í sjónvarpsþættinum Silfri Egils fyrr á þessu ári. Þar mátti skilja að viðskiptahallinn væri eiginlega góðkynja og að engin ástæða væri til þess að hafa áhyggjur af honum. Ég spyr þess vegna hv. þm.: Hefur forusta Framsfl. önnur viðhorf og aðra sýn á efnahagsmálin og viðskiptahallann en Sjálfstfl.?

Hv. þm. sagði líka að besta leiðin til að vinna bug á viðskiptahallanum væri að efla þjóðhagslegan sparnað og til þess væri aðhald í ríkisfjármálum besti kosturinn. Ég spyr því hv. þm.: Telur hann að núverandi aðhaldsstig í ríkisfjármálum eins og það birtist í þessu frv. sé nóg til að vinna gegn viðskiptahallanum?