Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:21:30 (2440)

2000-11-30 12:21:30# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:21]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef saknað þess mjög að ekki skuli vera umræða um heilsugæslustofnanir, sjúkrahúsin og það sem snýr að málefnum aldraðra, þ.e. hjúkrunarheimili og vistheimili.

Fyrir ári sagði mætur hv. þm. úr fjárln. að þessar stofnanir hefðu farið verulega fram úr fjárlögum og að draga ætti forustumenn þeirra til ábyrgðar. Nú stöndum við frammi fyrir svo mikilli breytingu á fjárlögum að það hlýtur að kalla fram spurningu um hver ber ábyrgð á því sem er að gerast á hv. Alþingi í þeim miklu breytingum og því umfangi sem um er að ræða og hversu mikið við förum fram úr. Ég nefni sem dæmi hvað snýr að fjárlagastofnunum. Hér eru daggjaldastofnanir þar sem gert er ráð fyrir hækkun fjárlaga núna árið 2001, þá eru hækkanir frá 8,7% upp í 35,1% á milli stofnana. Á föstum fjárlögum er það frá 8,4% upp í 58% hækkanir á milli ára hjá einstökum stofnunum. Full ástæða hefði verið til þess að fá frekari upplýsingar frá fjárln. núna til að ræða þessi mál.