Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:25:50 (2444)

2000-11-30 12:25:50# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:25]

Gísli S. Einarsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta vegna þess að ég hef við allar umræður um fjárlög og fjáraukalög krafist þess, ekki bara í ár, heldur síðustu ár, að hæstv. ríkisstjórn sé viðstödd og hlýði á ræður fyrstu talsmanna flokkanna. Ég tel það vera óvirðingu við þingið að ráðherrar hlýði ekki á gagnrýni og umræður talsmanna við gagnmerkustu umræðu um fjárlög. Aðalmál þings og ríkisstjórnar eru fjárlög sem er nú verið að fjalla um.

Ég spyr því virðulegan forseta hvort þessi krafa hafi verið kynnt fyrir hæstv. ríkisstjórn og hvort hún hafi verið rædd í stjórn þingsins?

Síðan vil ég segja það, herra forseti, að reikna má með því að einstakir þingmenn, a.m.k. sá sem hér stendur, óski eftir svörum ráðherra við umræðuna. Ég segi það, virðulegi forseti, að ef ekki er farið að þessum óskum sé ég ekki fram á annað en að um verulegar tafir gæti orðið að ræða við umræðurnar og ég bið um að fá svör við þessum spurningum.

(Forseti (GuðjG): Varðandi spurningu hv. þm. hvort ósk hans hafi verið rædd í stjórn þingsins þá er svo ekki. Hæstv. ráðherrum er væntanlega kunnugt um það sem hv. þm. hefur sagt í ræðum sínum en forseti mun að sjálfsögðu koma skilaboðum hv. þm. til hæstv. ráðherra nú þegar, senda þeim skilaboð um þá ósk sem hv. þm. setur fram.)