Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 12:27:57 (2445)

2000-11-30 12:27:57# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[12:27]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Gísla S. Einarssonar að því leyti til að mér finnst enginn svipur á því að halda umræðunni áfram lon og don að engum ráðherra hæstv. ríkisstjórnar viðstöddum. Það er auðvitað enginn svipur á því, það er virðingarleysi við þessar umræður. Það er sérstakt virðingarleysi sem ríkisstjórnin sýnir sjálfri sér og fjárlögum sínum með því að ætla mönnum að ræða þau yfir algjörlega tómum ráðherrabekkjunum. Það er mikilvægt að þeir hlusti á fyrstu ræðumenn flokkanna í umræðunni en ég vil þó halda því til haga að ráðherrar eiga að gegna þingskyldum sínum eins og aðrir þingmenn. Það er engin sérstök afsökun fyrir þá umfram aðra menn að vera ekki á þingfundi þegar mikilvægustu mál eru til meðferðar. Það liggur í hlutarins eðli að við 2. umr. fjárlaga fer fram efnisumræða um mjög marga málaflokka í fjárlögunum. Þá er eðlilegt og nauðsynlegt allir fagráðherrar, allir með tölu, séu viðstaddir umræðuna eftir því sem þeir koma því mögulega við. Ég leyfi mér að fara fram á það við hæstv. forseta að hann láti gera ríkisstjórninni eins og hún leggur sig viðvart um að óskað sé eftir því að ráðherrar séu við og sitji undir umræðunni, auðvitað sérstaklega hæstv. fjmrh., en líka fagráðherrar og þeir séu hér, nema þeir hafi lögmætar fjarvistir. Ef um slíkt er að ræða í einhverjum tilvikum verður að taka á því hvernig menn fara með það ef menn vilja beina spurningum til viðkomandi ráðherra. Það er löngu þekkt að óska eftir því að þeir séu viðstaddir við 2. umr. um fjárlög og svari spurningum sem lúta sérstaklega að þeirra málaflokkum. Þess vegna er fyllilega eðlilegt að bera þessa ósk fram, herra forseti, og ég vona að þegar umræðunni heldur fram verði orðin bót á og við horfum ekki upp á galtóma ráðherrabekkina.

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að allir hæstv. ráðherrar fái þessi skilaboð.)