Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:49:06 (2451)

2000-11-30 13:49:06# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Í reynd rétti Samfylkingin stjórnarliðinu sáttarhönd við umræðurnar í fyrra. Þá lögðum við til að farið yrði í að draga úr opinberum framkvæmdum. Það var hlegið að okkur þá. Við gerðum þetta aftur í sumar. Þá töldum við að nauðsynlegt væri að efna til þjóðarsamstöðu til að vinna bug á þeim erfiðleikum sem steðjuðu að. Þá vorum við líka hafðir að háði og spotti.

Ég rifja það upp að hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði, að mig minnir í fyrra einhvern tíma, hvort ég væri reiðubúinn til að beita mér fyrir því að dregið yrði úr t.d. vegaframkvæmdum vegna þeirrar stöðu sem þá blasti við og vegna þeirra spáa sem voru byrjaðar að koma fram um þróun efnahagsmála. Ég kom hér og sagði já. Það þurfti nokkurn kjark til að gera það, herra forseti.

Hvað varðar stefnuna í sambandi við viðskiptahallann, þá hef ég spurt hv. þm. Jón Kristjánsson hvort hann telji að það sem birtist í fjárlagafrv. sé nóg til að sporna gegn viðskiptahallanum. Ég vísa til þess, herra forseti, að spár Þjóðhagsstofnunar liggja fyrir um að viðskiptahallinn muni ekki minnka þrátt fyrir það sem gert var í fyrra og þrátt fyrir það sem ríkisstjórnin er að gera núna. Ég vísa einnig til þess að OECD hefur lýst því nýlega yfir að viðskiptahallinn muni verða 10% af landsframleiðslu. Þjóðhagsstofnun taldi skelfilegt ef hann næði því að verða 8%. OECD sem gerþekkir íslenskt efnahagslíf telur að viðskiptahallinn verði 10%.

Ég spyr hv. þm. Jón Kristjánsson: Telur hann að það sem liggur fyrir í fjárlagafrv. sé nóg til að sporna gegn viðskiptahallanum? Það er spurningin sem skiptir máli vegna þess að hv. þm. sagði í dag að viðskiptahallinn væri óviðunandi og hann væri hættulegur. Ef þarna er um að ræða hættulega þróun, hvað á að gera til að sporna gegn henni? Ég spyr vegna þess að hv. þm. taldi að ríkisfjármálin í núverandi stöðu dygðu til þess eða ég skildi hann svo.

Ég spyr hv. þm. aftur: Telur hann að það sem er í frv. dugi til þess að vinda ofan af slíkum halla og þar með vernda gengið?