Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:56:36 (2455)

2000-11-30 13:56:36# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilega nokkuð langt um liðið frá því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tók þátt í að gera kjarasamninga eða telur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að það fólk sem forusta ASÍ er að semja fyrir geri mikið af því að kaupa og selja hlutabréf? Ég ímynda mér að það fólk geri ákaflega lítið af því. Ég held að það séu aðrir aðilar sem raki saman stórfelldum gróða af því.

Þær tillögur sem hv. þm. reifaði og við höfum flutt og munum ræða ítarlega síðar --- yfirleitt er venjan sú að ræða skattatillögur eða tekjutillögur við 3. umr. eins og við munum gera en ég er reiðubúinn til að gera það hvenær sem er --- ganga fyrst og fremst út á að afla tekna með því að afnema heimildir til að fresta söluhagnaði. Hv. þm. veit mætavel að fram hefur komið m.a. í fjölmiðlum frá ríkisskattstjóra að þarna er um að ræða alveg gríðarlegar upphæðir. Ég held að fram hafi komið að um 600 einstaklingar hafi frestað söluhagnaði sem nam 20 milljörðum á nokkrum árum. Ég man ekki lengur hvað það var mikið sem ríkisskattstjóri taldi að hefði tapast í tekjum vegna þessa. Ég skal fúslega viðurkenna að ef lögin hefðu verið öðruvísi þá ímynda ég mér að ekki hefði orðið jafnmikið um sölur á bréfum eins og reyndin varð, en ljóst er að sú tillaga sem Samfylkingin og þingmenn hennar leggja fram styðst auðvitað við raunveruleikann.

Að því er varðar sjávarvútveginn, þá eru menn að tala um ákveðnar kostnaðargreiðslur og ef ég má rifja það upp fyrir hv. þm., þá vill svo til að sérstök klásúla er um það í stjórnarsáttmála Framsfl. og Sjálfstfl. að það eigi að gera.

Ég rifja það líka upp fyrir hv. þm. að hæstv. sjútvrh. hefur mörgum sinnum talað í sömu veru.