Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 14:23:54 (2460)

2000-11-30 14:23:54# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. menntmrh. um mikilvægi þess að góð og örugg vitneskja sé um hvað fram fer og að sem bestur árangur náist í skólastarfinu. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan að varðandi reiknilíkönin er sjálfsagt að afla sem bestrar vitneskju um tæknilega hlið í rekstri þessara stofnana. Ég vek athygli á að þarna fer fram lifandi starf en ekki bein bókhaldsskrifstofa, og ég leyfi mér að nefna það aftur. Þess vegna er afar mikilvægt að hér sé fyrst og fremst um tæknilegan stuðning að ræða við framkvæmd á þessu starfi en það verður að gæta þess afar vandlega að uppbygging og útfærsla þess verði ekki þannig að hún virki annars vegar sem miðstýring gagnvart menntmrn., sem er að vísu ábyrgt fyrir þessum málaflokki, og hefti heldur ekki eðlilegt skólastarf og þróun þess og að einstakir skólar víða um land, sem búa við hinar breytilegustu aðstæður, geti brugðist við og þjónað skyldum sínum sem allra best. Ljóst er að þörf er á auknu fjármagni og krafti inn í framhaldsskólana til að þeir geti skilað þeim árangri sem við öll vonumst til, ekki síst nú þegar við horfum fram á stöðvun þeirra eins og nú stendur.