Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:04:41 (2467)

2000-11-30 15:04:41# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Við 2. umr. er ræðutíminn ótakmarkaður. Ég hefði þess vegna getað talað í allan dag og lýst viðhorfum mínum til hinna og þessara mála, Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. en ég kaus að tala bara í 30 mínútur. Ég taldi það nóg.

Afstaða mín til sölu á eignum hefur alltaf legið fyrir. Ég er fylgjandi EES, barðist mikið fyrir því. Þar er gert ráð fyrir frjálsum fjármagnsflutningi, frjálsri sölu eigna, frjálri sölu á vörum, þjónustu og mannafla. Það er frjálst flæði. Við gengum undir það 1991 og það var eitthvert mesta happaskref sem við Íslendingar höfum tekið, að ganga í Evrópska efnahagssvæðið. Þannig liggur allt fyrir um afstöðu mína til þess og þarf ekki að blanda því saman við það hvort við viljum selja Landssímann til Afríku. Það er ekki ástæða til þess að svara þessu. Afstaða mín til þessara mála liggur fyrir og ég þarf ekki að fara í gegnum það frekar.