Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:07:12 (2469)

2000-11-30 15:07:12# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert í þá veru að ríkisfjármálin hefðu ekkert með þetta að gera. Ég sagði að það væri óraunsætt af fyrrv. efnahagsráðgjafa að gera ráð fyrir því að menn hefðu getað náð meiri árangri í ríkisfjármálunum. Ég sagði að hér hefði náðst meiri árangur en aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu hefðu náð á síðustu fjórum til sex árum. Það hefði náðst meiri árangur en sögulega hefði nokkurn tíma tekist fyrr á Íslandi. Þannig er óraunsætt að gera ráð fyrir því að við hefðum átt að ná meiri árangri en náðst hefur. Það var það sem ég sagði.

Það liggur fyrir að það þýðir ekkert að koma eftir á og segja að við hefðum getað gert betur. Við gerðum eins vel og efni stóðu til. Við sömdum, eins og ég benti á, við Alþýðusamband Íslands og BSRB um kjaramálin og ríkissjóður fórnaði gríðarlegum tekjum til að ná árangri í kjaramálunum þannig að við gætum búið við þokkalegt umhverfi. Það var gert. Sumir segja kannski að það hafi verið vitlaust af ríkisstjórninni. Ég fullyrði að það var rétt að ná þannig samningum.