Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:09:31 (2471)

2000-11-30 15:09:31# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var náttúrlega að senda fyrrv. starfsmanni Seðlabankans tóninn. Mér fannst hann koma mjög ómaklega fram. Eftir 20 ára dvöl í Seðlabankanum fór hann allt í einu að senda Alþingi kveðjur um að þeir hefðu staðið sig illa. Ég tel það rangt hjá honum og hef verið að mótmæla því. Alþingi stendur náttúrlega að baki fjárlögum eins og maðurinn veit mjög vel.

Hins vegar er það svo að við höfum orðið fyrir nokkrum áföllum eins og ég rakti í ræðu minni. Við stöndum frammi fyrir því að útflutningstekjur af sjávarútvegi geta minnkað. Við verðum bara að segja það eins og er. Þess var lengi freistað að halda uppi genginu með hærri stýrivöxtum en aðrar þjóðir hafa. Ég sagði frá því að ég hefði efast um það í þrjú ár. Ég tel að markaðurinn muni leita jafnvægis og það er að gerast í dag. Það er bara verið að leita jafnvægis og það mun takast. Það er ekkert í umhverfinu sem sýnir að stórkostleg vá sé fyrir dyrum. Við munum ná okkur eftir þetta áfall þó töluvert muni ganga á næstu missirin. Ég er alveg klár á því.