Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:10:58 (2472)

2000-11-30 15:10:58# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kveðst vilja draga úr viðskiptahalla þjóðarinnar. Hann segir okkur hvernig eigi að gera það. Hann ætlar ekki að skerða kaupmátt þeirra sem best standa að vígi í landinu. Hann ætlar ekki að skerða kaupmátt fyrirtækjanna sem mala gullið. Hann ætlar að lækka skattana á þeim, hann lýsti því yfir. En hann ætlar að skerða kaupmátt láglaunafólksins. Hann stendur að frv. sem liggur fyrir þinginu sem gerir ráð fyrir því að skattleysismörkin muni lækka og skattbyrðar lágtekjufólks muni aukast. Síðan leyfir hv. þm. sér að koma hér í ræðustól og tala um nauðsyn þess að skerða kaupmáttinn hjá þjóðinni. Við vitum hjá hvaða hluta hennar hann ætlar að skerða kaupmáttinn.

Hann notar síðan tækifærið til að gera ósvífnar árásir á kennara sem standa í verkfalli. Þeir eru með 130 þús. kr. að meðaltali í dagvinnulaun. Hann snýr síðan út úr launakröfum þeirra. Ég mun koma nánar að þessu í síðara andsvari mínu.