Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:13:23 (2474)

2000-11-30 15:13:23# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég les lagafrumvörpin og hlusta á það sem menn segja. Ég þakka fyrir að Sjálfstfl. skuli hafa komið hér hreint til dyranna og sagt hvað hann vill gera. Hann vill lækka skatta á fyrirtæki og hann vill hækka skatta á launafólk, mest á láglaunafólkið því að hann stendur fyrir tillögum um að lækka skattleysismörkin.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að markaðurinn ætti að ráða, markaðslögmálin ættu að ráða þegar gengið væri annars vegar, þegar peningar og fjármagnsflutningar væru annars vegar. En nú spyr ég hv. þm.: Á þá ekki að hlusta á markaðslögmálin að einhverju leyti inni í skólunum vegna þess að staðreyndin er sú að þar er ekki lengur hægt að ráða fólk til starfa af því að launin eru of lág. Þar býður markaðurinn væntanlega ekki upp á sitt. Þarf þá ekki að bregðast við samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson boðar? Það verður gert með því einu væntanlega að hækka launin við þetta fólk.