Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:14:37 (2475)

2000-11-30 15:14:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í langar viðræður við hv. þm. um launamál á þeirri einu mínútu sem ég hef til andsvara. En ég spyr hann bara einnar spurningar varðandi launamálin: Hver á ekki að hækka? Hvaða starfsstéttir á Íslandi eiga ekki að hækka? Eiga allir að hækka um 70% eða 100%? Eru einhverjir sem ekki eiga að hækka? Hvernig í veröldinni ætla menn að koma þessu heim og saman? Við vitum alveg nákvæmlega ... (ÖJ: Ekki bankastjórar.) Ég var að ræða um frv. til fjárlaga.

Ég var að benda á að milli 70 og 80 milljarðar af útgjöldum ríkisins eru laun. Ég spyr: Hver er það sem á ekki að hækka? Er það einhver? (ÖJ: Já.) Jæja. (ÖJ: Margir.) Það eru margir. Þá getur vel verið að einhverjir vitringar komi hér og segi okkur hverjir það eru. Það væri gaman að sjá hvernig þetta fjárlagafrv. liti út þegar menn væru búnir að segja okkur frá því hverjir eiga að hækka og hverjir eiga ekki að hækka. Ég á eftir að sjá að hinn almenni launamaður muni sætta sig við að ríkisstarfsmenn hækki en verkamenn á almennum launamarkaði ekki.