Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:18:07 (2479)

2000-11-30 15:18:07# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að sú hækkun á gengi sem varð árin 1998 og 1999 jók kaupmátt. Hún jók kaupmátt umfram þá viðmiðunarferla sem samningarnir á almennum markaði gengu út frá. Ég hef haldið því fram, kannski einn, það getur vel verið að allir séu ósammála mér, að það hafi ekki komið launþegum vel því það skiptir öllu máli fyrir launþega að kjarabætur þeirra séu öruggar og varanlegar. Hin sígandi lukka skiptir öllu máli. Ég hef oft áður haldið því hér fram og skal áfram halda því fram.

Það liggur alveg fyrir að ríkisstjórnin, bæði þessi og aðrar hafa ráðgjafa. Til hvers eru ráðgjafar? Til að gefa ráð.

Stefna Seðlabankans í vaxtamálum hefur verið alveg skýr í marga áratugi. Þeir hafa leitast við að halda uppi hágengi sem fulltrúar atvinnulífsins hafa verið að reyna að berja niður áratug eftir áratug.