Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:22:08 (2483)

2000-11-30 16:22:08# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og að vera hér við og velta fyrir sér með mér þeirri stöðu sem er í málefnum þeirra sem eru lakar settir í þjóðfélaginu. Það fer ekki á milli mála að það eru alltaf einhverjir sem verða lakar settir. Ég er alveg klár á því. En staða þeirra, burt séð hvort Alþfl. eða einhver annar flokkur gerði þetta eða hitt, breytir engu um það meginmál sem ég hef fjallað um. Ég er að fjalla um þá stöðu sem er núna hjá því fólki sem ég er að ræða um og við höfum haft aðstöðu til að bæta kjörin hjá því.

Ég nefndi það, burt séð frá því hvað úthlutanir á styrkjum til bílakaupa hafa hækkað, þá hafa vextir hækkað úr 1% í markaðsvexti. Það gerir öryrkjum mjög erfitt að taka slík lán.

Engu að síður er rétt, þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði, að á sama tíma og lífeyrir og tekjutrygging hækkuðu um 23% voru lögð fram gögn um að hlutur sjúks gamals fólks og öryrkja í lyfjakostnaði hafði hækkað um 120%.

Er það ekki rétt, herra forseti, að fram kom í fréttum að hluti sjúklinga hefur ekki efni á að kaupa þau lyf sem læknir telur þá þurfa? Þetta kom fram í fréttum í sumar og ég vitna til þess. Það breytir engu hvað minn gamli, góði flokkur gerði. Staðan er þessi og á hana eigum við að horfa, við skulum ekki vera að líta langt aftur í tímann, við skulum horfa til dagsins í dag og framtíðarinnar. Það er það sem skiptir máli. Samfylkingin er alveg klár á því hvar þarf að grípa inn í.