Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:50:24 (2490)

2000-11-30 16:50:24# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Við getum auðvitað karpað um þetta, ég og hv. 6. þm. Suðurl., lengi dags. Hann sneri nú örlítið út úr ræðu minni þegar hann sagði að ég hafi gortað mig af því að Framsfl. hafi breytt öllu. Það er alls ekki rétt að við höfum breytt öllu, en við höfum haft gríðarleg áhrif í ríkisstjórn. Ef hv. þm. ber saman annars vegar stjórnartíð Alþfl. og Sjálfstfl. frá 1991--1995 og síðan stjórnartíð Framsfl. og Sjálfstfl. frá 1995, þá er þetta eins og dagur og nótt. Ég minnist þess að þegar ég hóf þingstörf 1995 vorum við vart komin inn í þinghúsið þegar t.d. Alþfl., sem heitir núna Samfylking, fór strax að rukka okkur um tólf þúsund störfin. Menn hlógu hér í þingsölum að því að við settum okkur það mark að fjölga störfum um tólf þúsund fram til aldamóta. Staðreyndin er sú að störfin eru fimmtán þúsund. Nákvæmlega á sama hátt og þegar við komum til þings eftir síðustu kosningar höfðum við verið með fyrirætlun um að leggja 1 milljarð til fíkniefnavarna á kjörtímabilinu. Eins og kom fram í ræðu minni höfum við þegar gert þetta. Nákvæmlega á sama hátt var farið að rukka okkur um barnabætur. Í þeim fjárlögum sem við erum að ræða í dag eru auknir peningar til barnabóta.

Ég er alveg klár á því að við þurfum að hafa áhyggjur af ákveðnum hlutum sem þingmaðurinn benti á, útflutningsverðmætum, viðskiptahalla og þar fram eftir götunum. Það er alveg ljóst að ég get deilt þeim áhyggjum með hv. þm., en við leysum þau mál ekki í karpi í andsvörum hér.