Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 18:22:33 (2501)

2000-11-30 18:22:33# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hv. þm. Jón Bjarnason, hefur þegar farið yfir vinnu fjárln. og þróun og afgreiðslu fjárlaga.

Við erum hér að ræða fjárlagafrv. fyrir árið 2001. Endurskoðuð tekjuáætlun og lánsfjáráætlun liggur hins vegar ekki fyrir né niðurstaðan í mjög mikilvægum málefnum, svo sem fjárþörf heilbrigðisgeirans, málefnum Byggðastofnunar og Ríkisútvarpsins svo eitthvað sé nefnt.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að halda umtalsverðum tekjuafgangi eftir til að greiða niður skuldir. Það er gott markmið og ætti að vera hægt miðað við efnahagsstöðu okkar í dag. Miðað við þá gjaldeyrisstöðu, gengisskráningu og gengissig sem hefur verið má ætla að þessi markmið komi til góða þegar gengið er jafnveikt og raun ber vitni.

Það er mikil þensla á höfuðborgarsvæðinu og aukinn kaupmáttur. Hann hefur ýtt undir einkaneyslu og skuldir heimilanna hafa því aukist og eru stór hluti viðskiptahallans. En sveitarfélögin hafa einnig safnað skuldum. Aðstæður þeirra eru mjög mismunandi. Í raun má segja að mörg þeirra, þau smæstu og stærstu, eigi í raun ekkert sameiginlegt annað en heitið sveitarfélag. Við þessar aðstæður hefðum við þingmenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljað sjá aðrar áherslur í fjárlagafrv. Í því sambandi minni ég á lokaorð hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem vísuðu til stefnu okkar, að fjárlögum ríkisins eigi að beita til að auka jöfnuð í samfélaginu þannig að enginn þurfi að líða vegna aldurs, fötlunar eða búsetu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur enn fremur til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna. Jafnframt viljum við að stefnan í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og haldið verði grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í atvinnurekstri við ákvörðun framkvæmda.

Fjárþörf heilbrigðisþjónustunnar er ekki ljós. Ég mun við 3. umr. ræða þá liði sem snúa að heilbrigðisþjónustunni.

Varðandi landbúnaðarmálin þá skrifa ég undir nál. landbn. með fyrirvara. Ég var í raun ánægð með afgreiðslu landbn. á frv. en benti á að fjármagn vantaði til landshlutabundinna skógræktarverkefna. Úr því hefur verið bætt. Skógræktarverkefnin hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna varðandi fyrir búsetu í landinu. Eins bendir nefndin á að nauðsynlegt sé að koma á rammasamningi ríkis og bænda um loðdýrabúskap og að áfram þurfi að greiða niður loðdýrafóður. Undir þetta tek ég.

Áhyggjur mínar beinast aðallega að Skógrækt ríkisins sem stofnun. Það er ljóst að vandi þeirrar stofnunar er töluverður. Inn í rekstur þessa árs vantar allt að 5 millj. kr. til að koma til móts við launahækkanir. Vandi stofnunarinnar hefur hlaðist upp á undanförnum árum og er upp á um 75 millj. kr. samkvæmt þeim heimildum sem ég hef. Það er vegna yfirkeyrslu í rekstri til nokkurra ára og eins vegna þess að viðhald á fasteignum og búnaði hefur verið meira en fjármagn hefur verið til. Þessi fjárskortur hefur komið fram í að þau verkefni sem ekki ná inn sértekjum verða að sitja á hakanum, t.d. grisjun og göngustígar. Þær rannsóknir sem ekki skila inn tekjum verða jafnframt að sitja á hakanum.

Skógrækt ríkisins hefur bent á að hægt sé að ná inn fjármagni til að greiða upp þessar skuldir með því að selja hluta af jörð sem Skógrækt ríkisins fékk að gjöf, þ.e. selja hluta af jörðinni Straumi í Hafnarfirði. Á fjárlögum er ekki heimild til þess að selja þessa jörð en Skógræktin telur að það gæti leyst vandann.

Það væri bágt að stórauka landshlutabundin skógræktarverkefni án þess að styrkja stöðu Skógræktar ríkisins. Stunda þarf rannsóknir samhliða þeim til að standa vel að svo stóru átaki svo ekki fari illa. Það eru uppi hugmyndir um að endurskipuleggja starfsemi Skógræktar ríkisins. Það er eðlilegt því að það hefur orðið mikil breyting. Það eru komin landshlutabundin verkefni í alla fjórðunga. Ég vil þakka fyrir að 10 millj. kr. hafi komist inn á fjárlögin til að koma á landshlutabundnu skógræktarverkefni á Austurlandi en það er ekki til staðar fyrir utan Héraðsskóga.

Ég ætla í nokkrum orðum að fara yfir og nefna nokkrar brtt. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram. Ég stikla þar á stóru og nefni aðeins nokkrar nokkrar af þeim sem hér eru á þskj. 396. Við leggjum til að framlag til jöfnunar á námskostnaði verði hækkað um 52 millj. Við leggjum til að framlag til Ríkisútvarpsins, þá sérstaklega fyrir textun frétta fyrir heyrnarskerta verði hækkað um 10 millj. kr. Við viljum aukið framlag til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi, mannúðarmála og neyðaraðstoðar og það verði hækkað um 10 millj.

Í heilbrigðismálum leggjum við til að félagslegt forvarnastarf verði eflt, þ.e. langtímaverkefni. Eins og reglur Forvarnasjóðs eru í dag þá falla langtímaverkefni ekki þar undir en þau þarf að styrkja. Þetta gæti átt við um verkefni á vegum sveitarfélaganna, á vegum ýmissa félagasamstaka, t.d. FRÆ og SÁÁ sem eru ekki bara með sérstök verkefni í gangi heldur einnig langtímaverkefni.

[18:30]

Síðan vil ég segja, herra forseti, að mjög margar góðar tillögur eru í frv. um ákveðin verkefni. Margar góðar tillögur eru um menningartengd verkefni og vonandi að þetta sé nokkurs konar upphaf að langri göngu þar sem við leggjum áherslu á þessa þætti því að menningartengd ferðaþjónusta er eitthvað sem ég tel að við eigum að leggja mikla áherslu á til að styrkja byggð í landinu.

Herra forseti. Það væri hægt að halda langa ræðu en atkvæðagreiðsla verður hér eftir örfáar mínútur því að klukkan er orðin hálfsjö. Hægt væri að fara almennt yfir efnahagsforsendur fjárlaga eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði í upphafi, eða tína til útvalda liði eins og hv. þm. Árni Johnsen gerði áðan. En þess í stað hef ég lagt áherslu á nokkra þætti af fjölmörgum sem mér finnst ástæða til að draga fram í umræðunni.