Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 18:36:01 (2502)

2000-11-30 18:36:01# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur fyrr í dag ásamt hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssyni, gert grein fyrir stefnu og skoðun Samfylkingarinnar á þessum fjárlögum og afstöðu okkar til þeirra og þeim tillögum sem við höfum lagt fram nú við 2. umr. um afgreiðslu fjárlaga.

Það er auðvitað rétt og nauðsynlegt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði, að fara nokkuð yfir stöðu efnahagslífsins og hvert horfir í þeim efnum þegar við ræðum fjárlögin vegna þess að fjárlög hvers tíma endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar í efnhagsmálum. Ég held að ekki sé ofsögum sagt, herra forseti, að það eru, vægt til orða tekið, blikur á lofti varðandi efnahagsmálin og margir hafa orðið til þess að koma fram með aðvaranir um hvert stefnir verði ekkert að gert.

En það er alveg sama hve margir fylla hóp þeirra sérfræðinga, stjórnmálamanna eða forustumanna í atvinnulífinu sem koma fram með aðvaranir um hvert stefnir, það er eins og það nái ekki eyrum hæstv. ríkisstjórnar sem þó hefur allt um það að segja hvort hægt sé að snúa þeirri þróun við sem blasir við okkur, en því miður, herra forseti, virðist ekki mikils að vænta frá ríkisstjórninni.

Í nál. fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárln. er farið yfir nokkur atriði undir kaflafyrirsögninni Mistök ríkisstjórnarinnar. Það er nefnilega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að ýmislegt í efnahagslífinu sem orðið er mikið vandamál á síðustu vikum og mánuðum er heimatilbúinn vandi ríkisstjórnarinnar og á því verður hæstv. ríkisstjórn að átta sig svo hægt sé að taka á þeim vanda. Auðvitað er það um seinan að því er varðar marga þætti í efnahagslífinu sem hafa haft áhrif á að kynda upp verðbólguna og magna upp þensluna með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þetta andvaraleysi ríkisstjórnarinnar er því, herra forseti, út af fyrir sig ákveðinn efnahagsvandi.

Hér eru nefnd a.m.k. fimm atriði sem vísa má beint til að er heimatilbúinn vandi og þau snúa að þenslunni í þjóðfélaginu. Ég hygg að flestir sérfræðingar sem þekkja til efnahagsmála viðurkenni að sú aðgerð sem ríkisstjórnin greip til fyrir nokkrum missirum þegar hún fór út í fyrstu aðgerð til að einkavæða bankana hafi beinlínis ýtt undir þensluna þegar hún jók við hlutafé í bönkunum sem varð til þess að bankarnir fóru af miklu meiri krafti í útlánin en þeir ella hefðu gert. Bankarnir eru í og hafa verið á undanförnum missirum í ákveðnu valdakapphlaupi og kapphlaupi um markaðshlutdeild í viðskiptum, að ná í viðskiptavini til bankanna og þeir hafa því langt í frá, herra forseti, hagað sér skynsamlega með tilliti til stöðu efnahagslífsins. Og það er af því sem við erum að súpa seyðið nú.

Fram hefur komið og ég hef heyrt að bankastjórar sumra bankanna hafi talað um að það sé að draga úr útlánum en þegar á heildina er litið, herra forseti, þá er alls ekki að draga úr útlánum. Þó að vera megi að eitthvað sé að draga úr útlánum einstaklinga er ekki um það að ræða að verið sé að draga úr útlánum almennt í bönkunum. Og þetta er gífurleg aukning, herra forseti, þegar til þess er litið að frá árinu 1998 hefur árleg útlánaaukning að jafnaði verið á bilinu 25--30% en sambærileg aukning útlána á árunum 1996 og 1997 var um 12% eða helmingi minni. Það hlýtur eitthvað að gefa sig, herra forseti, þegar útlánaaukningin er með þeim hætti sem við þekkjum.

Í efh.- og viðskn. ræddum við í morgun nokkuð um útlánaþensluna og stöðu bankakerfisins með tilliti til skýrslu Fjármálaeftirlitsins varðandi það mál. Þar koma fram ákveðnar áhyggjur Fjármálaeftirlitsins af miklum útlánum í bankakerfinu og einmitt ein afleiðingin af þessum miklu útlánum er mikil lækkun eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið hefur t.d. mjög miklar áhyggjur af. Ég ræddi nýverið um það úr þessum ræðustól þegar hæstv. viðskrh. var viðstaddur þá umræðu og ég gat ekki heyrt af orðum hæstv. viðskrh. að hún hefði ýkja miklar áhyggjur af eiginfjárstöðu viðskiptabankanna.

En fram hefur komið hjá Fjármálaeftirlitinu að lögboðið eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og stærstu sparisjóða hafi í heild lækkað úr 12,7% í 9,4% frá árslokum 1995 til miðs árs 2000, sem er auðvitað bein afleiðing þessarar útlánaþenslu og auknu umsvifa. Víkjandi lán sem talin eru með í útreikningum á eiginfjárhlutfalli hafa aukist verulega á þessu tímabili eða úr 2,2 milljörðum í 15,3 milljarða kr. Eiginfjárhlutfall án víkjandi lána hefur því lækkað um meira en hið lögboðna eiginfjárhlutfall, eða úr 11,7% í 6,6% á tímabilinu. Og það sem verra er, að maður sér að bankarnir hafa ekki lagt samsvarandi framlög inn á afskriftareikning og framlög í afskriftareikning sem hlutfall af útlánum hafa dregist saman í réttu hlutfalli við útlánaaukninguna sem er auðvitað fráleitt, herra forseti, en á árinu 1992 voru framlög í afskriftareikning um 4% af útlánum og raunaukning meðalútlána, en nú er framlagið komið niður fyrir núll og er í algjöru lágmarki. Þetta er hættan sem við stöndum frammi fyrir, herra forseti, sem er eitt af þeim aðvörunarljósum sem blikka nú í þjóðfélaginu, þ.e. að framlög t.d. í afskriftareikning hafa minnkað hlutfallslega mjög mikið og langt í frá haldið í við þá útlánaaukningu sem hefur verið 25--30% árlega frá árinu 1998.

[18:45]

Þetta er hættulegt, herra forseti, og gefur tilefni til að hafa áhyggjur af því hvort bankarnir komi til með að standa frammi fyrir útlánatöpum, ekki síst þegar málið er skoðað í samhengi við mikla skuldastöðu heimilanna, vaxandi skuldir í atvinnulífinu og litla framleiðni þar.

Sú var tíðin, herra forseti, að a.m.k. annar stjórnarflokkanna hafði miklar áhyggjur af skuldastöðu heimilanna. Skuldastaða heimila var reglubundið umræðuefni fyrir svona 8--10 árum og tekið upp nokkrum sinnum á vetri í utandagskrárumræðum.

Herra forseti. Frá árinu 1995, þegar þessi ríkisstjórn tók við, hefur skuldastaða heimilanna sennilega nánast tvöfaldast. Ég hygg að skuldir heimilanna hafi verið um 300 milljarðar þegar þessi ríkisstjórn tók við en stefni nú í 600 milljarða kr. Eignir heimilanna hafa vissulega aukist einnig en ekki hlutfallslega jafnmikið og skuldir. Af þessu er ástæða til að hafa áhyggjur.

Ég og hæstv. forsrh. ræddum fyrir einni eða tveimur vikum í þingsalnum um stöðuna í efnahagsmálum og ummæli fyrrv. framkvæmdastjóra peningamálasviðs Seðlabankans. Hann sagði að efnahagsstefnan á Íslandi á undanförnum árum hefði að nokkru leyti magnað þann vanda sem þjóðarbúið glímir við í dag og að afgangurinn á ríkissjóði sé ofmetinn.

Fyrrv. framkvæmdastjóri peningamálasviðs Seðlabankans taldi ýmis einkenni fjármálakreppunnar á Norðurlöndum árið 1990 hliðstæð og sjá má í efnahagsumhverfi íslensku þjóðarinnar í dag. Hins vegar kann að vera munur á stöðu hinna Norðurlandanna á þeim tíma og Íslands í dag til að taka á móti í djúpri lægð, kreppu eða brotlendingu eins og sumir kalla það.

Því miður, herra forseti, finnst mér mörg einkenni í efnahagslífinu lík því sem var í fjármálakreppunni 1990 eins og þessi fyrrv. framkvæmdastjóri eins af sviðum Seðlabankans segir. Enginn, nema þá helst ríkisstjórnin, dregur í efa að útlánaþenslan sé mjög óeðlileg og hafi kynt upp verðbólguna. Hér eru háir vextir og sú stefna er áhyggjuefni sem fylgt hefur verið varðandi þessa háu vexti. Seðlabankinn hefur reglulega sett fram hækkun á vöxtum, m.a. til þess að verja gengið. Vextirnir birtast síðan í vaxandi skuldastöðu hjá heimilunum og væntanlega atvinnulífinu einnig en kannski fyrst og fremst hjá einstaklingum sem hafa þurft að taka lán í bankakerfinu til þess að standa undir brýnustu framfærslu af því að launin duga ekki. Það fólk býr við óhagstæðustu vaxtakjörin í bönkunum.

Bankarnir eru með mismunandi vexti eftir því hve mikill borgunarmaður viðskiptavinurinn er að þeirra mati. Þeir sem eru fátækastir og standa verst og neyðst hafa til þess að taka bankalán til þess að framfleyta heimili sínu, af þeim eru teknir hæstu vextirnir, mestu dráttarvextirnir og vanskilavextirnir. Þetta finnst mér sárgrætilegt, að sú skuli raunin í bankakerfinu. Þeir sem verst hafa það í þjóðfélaginu, sem ríkisstjórnin hefur ekki hugsað um sem skyldi og venjulega hafa verið hlunnfarnir af hálfu hennar, t.d. lífeyrisþegar, stór hópur einstæðra foreldra, barnafólk sem barnabætur hafa verið skertar hjá, hafa ekki fengið sinn skerf af góðærinu. Þeir hafa hins vegar þurft að bera uppi óstjórn, að ég vil kalla, þessarar ríkisstjórnar með háum vöxtum.

Auk útlánaþenslunnar stefnir verðbólgan upp á við þó hinar ýmsu stofnanir leggi mismunandi mat á verðbólguna, í hvað hún stefnir. Hæsta talan sem nefnd hefur verið er 6%. Það er náttúrlega óásættanlegt ef verðbólga fer upp í það vaxtastig með tilheyrandi hækkun á lánum, skuldum heimilanna og verri lífskjörum.

Við höfum náttúrlega heyrt um viðskiptahallann sem nú er 54 milljarðar. Þjóðhagsstofnun spáir að hann stefni í nálægt 57 milljarða ef ég man rétt eða 58 milljarða. Íslandsbanki-FBA og OECD spá því að viðskiptahallinn fari í 70 milljarða eða yfir 9% af landsframleiðslu. Sem betur fer kom formaður fjárln. inn á það mál í upphafi umræðunnar í morgun að hann hefur ákveðnar áhyggjur af viðskiptahallanum. Væri betur ... (Gripið fram í: Ekki íhaldið.) Væri betur, ætlaði ég að segja, að samstarfsaðilar hans deildu þeim áhyggjum með honum. En ég get ekki heyrt að svo sé.

Við höfum einnig séð að Seðlabankinn hefur á undanförnum mánuðum þurft að setja einn eða tvo tugi milljarða í að verja krónuna. Síðast settu þeir fram þá skoðun að það sem m.a. hafi valdið þrýstingi á krónuna hafi verið að lífeyrissjóðirnir hafi fjárfest of mikið í útlöndum. Það er hluti af þeim heimatilbúna vanda sem við höfum bent á, m.a. hv. formaður Samfylkingarinnar. Á þetta var einnig bent, herra forseti, fyrir ári þegar stjórnarflokkarnir leituðu heimildar til að auka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í útlöndum, úr 40% í 50%. Þá vöruðum við fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn, sem hafði það mál með höndum, við frv. fjmrh. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem farið var fram á aukna heimild. Í áliti okkar segir orðrétt, herra forseti, og er rétt að rifja það upp hér:

,,Með frumvarpinu fá lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum allt að 50% af hreinni eign sjóðanna sem er yfir 500 milljarðar kr., en eignir sjóðanna hafa vaxið á þremur árum frá árslokum 1996 til ársloka 1999 um nálægt 200 milljörðum kr. eða um 65%. Fjárfestingarstefna sjóðanna getur því haft gífurlega mikil áhrif á allt efnahagsumhverfið, svo sem vaxtastig og gengi, og er nauðsynlegt að eðlilegt eftirlit og leikreglur gildi um fjárfestingu sjóðanna.``

(Forseti (GuðjG): Forseti hyggst gefa matarhlé kl. 7 og spyr hv. þm. hvort hún hyggist ljúka ræðu sinni fyrir þann tíma eða hvort hún vill gera hlé á máli sínu eftir 3--4 mínútur.)

Ég get gert hlé hvenær sem hæstv. forseta hentar það. Ég þarf lengri tíma en þær 5 mínútur sem boðið er upp á fyrir kvöldmatarhlé til að ljúka máli mínu.

(Forseti (GuðjG): Þá biður forseti hv. þm. að gera hlé á máli sínu eftir 3--4 mínútur þegar vel stendur á í ræðu hennar.)

Það skal ég gera, herra forseti.

Ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp að fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. vöruðu við því að auka heimildir lífeyrissjóðanna og sögðu að það mundi hafa mjög slæm áhrif á vaxtastig og gengi sem hefur orðið raunin. Nú heyrir maður að framsóknarmenn hafi orðið áhyggjur af þessu einnig. Því væri ástæða til að spyrja formann fjárln. að því hvort Framsfl. telur ástæðu til að beita sér fyrir því með einhverjum hætti að dregið verði úr heimildum lífeyrissjóðanna. Það er stutt síðan einn varaþm. Framsfl. kom í ræðustól og hafði miklar áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir hefðu fengið þessa heimild. Því spyr ég formann fjárln. hvort það hafi verið rætt. Það mætti auðvitað takmarka þessa heimild þó að hún yrði ekki numin úr gildi, t.d. með ákvæði til bráðabirgða í lögunum sem ég nefndi hér, þannig að þeim væri aðeins heimilt að fjárfesta að tilteknu marki í útlöndum næstu 2--3 árin meðan við sjáum hvert stefnir í efnahagslífi okkar. Ég spyr hv. formann fjárln. hvort það hafi nokkuð verið rætt í stjórnarflokkunum eða í ríkisstjórn að takmarka með einhverjum hætti að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í svo miklum mæli í útlöndum. Seðlabankinn varar við því og telur það hafa þrýst óeðlilega mikið á gengið.

Einnig vakna spurningar, þegar maður ræðir um Seðlabankann og þau tæki sem hann hefur notað til þess að spyrna gegn verðbólgunni, hamla gegn útlánaþenslunni og verja gengið, um sjálfstæði Seðlabankans eða réttara sagt ósjálfstæði Seðlabankans. Ég held, herra forseti, að bankastjórar og stjórn Seðlabankans sé allt of mikið undir hæl ríkisstjórnarinnar þegar taka þarf ákvarðanir til þess að spyrna við fótum gegn óæskilegum áhrifum í efnahagslífinu. Ég tel fulla ástæðu til þess að taka það til sérstakrar skoðunar, við munum væntanlega gera það í Samfylkingunni, hvort ekki eigi að auka sjálfstæði Seðlabankans. Við höfum rætt um frjálsræði á öllum sviðum, á fjármagnsmarkaði og á verðbréfamarkaðnum en þetta situr raunar eftir, þ.e. að auka sjálfstæði Seðlabankans þannig að hann hafi frjálsari hendur til að beita þeim tækjum sem hann telur nauðsynleg gegn þeim vanda sem við blasir hverju sinni í efnahagslífinu. Ég mun nú, herra forseti, fresta máli mínu þar til að loknu matarhléi.