Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:39:17 (2506)

2000-11-30 20:39:17# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:39]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fjárlagafrv. er reiknað með á tekjuhlið 7 millj. kr. vegna sölu ríkiseigna. Ég tel að það markmið muni nást og ljóst er að ekki þarf að selja nema 25% af hlutdeild ríkisins í bönkunum til að ná því markmiði og rúmlega það. Ég tel yfir höfuð að ekki sé skynsamlegt að þrengja kosti lífeyrissjóðanna til fjárfestingar. Það er ekki skynsamlegt að þrengja kosti þeirra til að ávaxta fjármagn sitt vegna þess að nauðsynlegt er fyrir þá að gera það til að halda stöðu sinni til þess sem er meginhlutverk þeirra, þ.e. að ávaxta fé og borga lífeyri.

Aðalhlutverk lífeyrissjóðanna er að borga lífeyri og mér finnst ekki aðgengilegt að hugsa til þess að kostir þeirra til fjárfestinga verði þrengdir og þeir hafi ekki möguleika á að ávaxta fé sitt. Ég er þeirrar skoðunar að þeir verði að hafa möguleika til að gera það og ég hef trú á því að samkomulag náist um að bjóða út hlutabréf í ríkisfyrirtækjum í skynsamlegum áföngum. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir að skoða og sú vinna er í fullum gangi.