Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:43:17 (2508)

2000-11-30 20:43:17# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekkert hissa á málflutningi hv. þm. vegna þess að það sem sjálfstæðismenn hafa gert í ríkisstjórninni allt frá árinu 1995 er að setja auðmenn í fyrirrúm en ekki almenning í landinu. Og það er mjög sérstakt að standa hér fyrir skattlagningu á almenning í landinu á sama tíma og verið er að lækka þann hluta söluhagnaðar sem hefur verið greiddur af sama og greitt er af tekjuskatti.

Af hverju hefur þetta verið núll og engu skilað? Það er af því að þessi heimild hefur verið til staðar um að fresta skattlagningu af söluhagnaði, sem 636 einstaklingar hafa nýtt sér sl. tvö ár, 636 einstaklingar hafa nýtt sér og frestað 20 milljörðum kr. á sl. tveim árum. Ef við afnemum frestunina þá er ég sannfærð um að það mun skila sér í auknum mæli í ríkissjóð. Hæstv. fjmrh. hefur talað um að það mundi a.m.k. skila 1,3 milljörðum miðað við það sem hefur verið á sl. þrem árum þannig að hv. þm. má ekki gera fjmrh. ómerking orða sinna sem hefur talið að þessi aðgerð hans muni þó skila 1,3 milljörðum í ríkissjóð.

Við áætlum bara meira og segjum 2,6 og styðjumst þar við álit ríkisskattstjóra sem segir að tekjutap vegna þessara 636 einstaklinga sem frestað hafa 20 milljörðum megi áætla með ákveðnum fyrirvörum, sem ég lýsti áðan og hef ekki tíma til að gera nú, sé allt að 8,5 milljörðum kr. Því er það bara varlega gert hjá okkur í Samfylkingunni að áætla þó ekki meiri tekjur en 2,6 milljarða í þessu efni. Vil ég enn og aftur ítreka það sem ég sagði áðan að það eru mörg lönd sem ég taldi upp sem skattleggja söluhagnað með sömu skattprósentu og tekjuskattur og ég veit ekki til annars en að það hafi skilað sér í ríkissjóð.