Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:47:15 (2510)

2000-11-30 20:47:15# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er bara fjarstæða og bull hjá hv. þm. sem enginn trúir nema hann sjálfur og kannski einhverjir íhaldsmenn með honum. Það er eftir öðru hjá sjálfstæðismönnum að standa þannig að málum að afnema þessa frestun á heimild til skattgreiðslu af söluhagnaði hjá einstaklingum en skilja lögaðilana eftir. Þeir eiga áfram að geta frestað skattlagningu á söluhagnaði sem margir telja að geti verið með þeim hætti að verið sé að búa til nýjar skattsmugur til að komast hjá skattgreiðslum. Hverjir eru það sem eru með söluhagnað sem er yfir 3,2 millj. og 6,4 millj. hjá hjónum? Það eru einhverjir einstaklingar sem eru með fullar hendur fjár. Þeir eru 636 á síðustu tveimur árum og 20 milljarða er um að tefla í því sambandi og það sem sjálfstæðismenn beita sér fyrir er að heimila lögaðilum áfram að fresta skattgreiðslum af söluhagnaði og lækka svo hjá þessum forríku einstaklingum, sem eru með söluhagnað yfir 3,2 millj. og 6,4, skattinn á þeim úr 38% í 10%. Það þekkist hvergi í þeim löndum sem ég var að telja upp enda njóta fjármagnseigendur algerrar sérstöðu og þetta er alger skattaparadís fyrir þá, Ísland, a.m.k. meðan íhaldið stjórnar sem við skulum vona að verði ekki lengi.