Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:27:22 (2514)

2000-11-30 22:27:22# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:27]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. kom inn á húsnæðismálin í yfirgripsmikilli ræðu. Ég vil taka það fram að við í fjárln. höfum ekki rætt húsnæðismál í undirbúningi 2. umr. málsins. Við hyggjumst halda fund með Íbúðalánasjóði á morgun til að ræða þau mál og fara yfir aðgerðir í húsnæðismálum en mér er kunnugt um að þau mál sem hann gerði að umtalsefni eru til umræðu enn þá og niðurstaða liggur ekki fyrir hvað tekur við um áramótin þegar sú breyting á vöxtum sem hann kom inn á tekur gildi. En við 3. umr. munum við taka þau mál sérstaklega til umræðu.

Hann kom einnig inn á barnabæturnar og reyndi að gera lítið úr þeim feikilega miklu úrbótum sem gerðar hafa verið fyrir barnafólk upp á síðkastið. Það er nú þannig að við tekjutengingu barnabóta lækkuðu þessar upphæðir, það er ljóst. Það var einmitt vegna þess að tekjur fólks hækkuðu. Ég tók það fram í dag að kaupmáttur hefur aukist um 23% frá árinu 1995, hvorki meira né minna. Þetta varð til þess að þessi mörk gerðu það að verkum að upphæðirnar lækkuðu.

Nú er verið að snúa við og hluti barnabótanna er ótekjutengdur. En ég vil nú spyrja á móti: Er hv. þm. þeirrar skoðunar að allar barnabætur eigi að vera ótekjutengdar? Er það skoðun hans?

Ríkisstjórnin tók skref og þess vegna spyr ég: Er hv. þm. þeirrar skoðunar að afnema eigi tekjutengingarnar með öllu?