Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:36:08 (2518)

2000-11-30 22:36:08# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:36]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera að hv. 13. þm. Reykv. þyki ég nokkuð kaldhæðinn og kaldlyndur. En svo er ekki. Það er alls ekki svo. Eini munurinn á því sem ég hef sagt um þá ágætu starfsstétt framhaldsskólakennara og því sem aðrir hafa sagt, það sem ég skulda þeim eða þeir skulda mér fyrir, er sá að ég hef verið hreinskilinn í málinu. Ég hef greint nákvæmlega frá því hvernig ég skynja það, nákvæmlega eins og ég þykist þekkja þetta þjóðfélag og reynt að segja þeim satt. Mér finnst þó skárra að einhverjum svíði undan því, að einhver kunni að hugsa mér þegjandi þörfina og bölvi mér, ég vil heldur segja fólki satt þó að það sé sárt en segja því ósatt.

Við vitum öll, herra forseti, hvernig ástandið er í íslensku efnahagslífi. Ég hef bara spurt spurningarinnar: Hver á ekki að hækka? Ég hef ekki á nokkurn hátt vefengt útreikninga Félags framhaldsskólakennara. Mér hefur ekki dottið í hug að fara ofan í þann samanburð eða vefengja að það sem þeir velja sér til samanburðar sé rétt. Þeir hafa hundruð stærðfræðinga í félagi sínu og hljóta að finna sér viðmiðun sem passar þeim. En ég tel rétt, herra forseti, þegar við ræðum fjármál ríkisins og efnahagsmálin, að segja þessa sögu alla. Það er hvorki stund né staður til að hækka laun, ekki um 10%, hvað þá um 70 eða 100%. Kann nú ýmsum að sárna en ég tel rétt að tala svona.