Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:42:21 (2521)

2000-11-30 22:42:21# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að við eigum ekki að innleiða markaðslögmálin í almannaþjónustu sem ríkisstjórnin er því miður að gera, eins og ég hef gert grein fyrir og margir aðrir í umræðu um fjárlögin. Ég held að það sé afskaplega varasamt að reyna að draga þjóðina í dilka með þeim hætti sem hv. þm. gerir. Við erum að tala um almennt launafólk hvort sem það starfar hjá ríki eða öðrum. Ef kröfur kennara geta orðið til að stappa stálinu í launastéttir sem búa við of kröpp kjör þá held ég að það væri ágætt og tími kominn til að sporna gegn þeirri öfugþróun sem við búum við. Við horfum upp á það að tiltölulega fámennur hluti þjóðarinnar er farinn að klóra til sín allan þjóðarauðinn. Við sjáum hvert dæmið á fætur öðru um það.

Staðreyndin er að það er ekki lengur hægt að manna skólana með þeim kjörum sem þar er boðið upp á. Meðaldagvinnulaun í framhaldsskólum landsins eru um 130 þús. kr. Byrjunarlaunin eru talsvert lægri en þetta. Þetta eru staðreyndir sem menn þurfa að horfast í augu við og við erum einfaldlega að vekja máls á staðreyndum og hvetja menn til að taka á þessum málum á raunsætt og af sanngirni.