Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:17:37 (2530)

2000-11-30 23:17:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef áhyggjur af því að markaðsaðstæður verði ekki eðlilegar á markaði þar sem eitt fyrirtæki ræður um það bil 95% af markaðnum. Þeir eru með meira en það núna. Þeir voru með 97% af markaðinum fyrir hálfu öðru ári síðan. Síðan finnst mér líka svolítið undarlegt að hv. þm. skuli ekki hafa neinar áhyggjur af því heldur bregður því fyrir sig að mjólkurkýrnar mjólki bara betur ef aðrir en ríkið sjái um að mjólka þær.

Arðurinn rennur væntanlega til eigendanna. En ef þetta verður selt úr landi og kýrnar mjólka betur --- þær eru þá við, er það ekki hv. þm.? (Gripið fram í.) --- þá flyst bara eitthvað af þessum fjármunum úr landi. Þá sitjum við eftir með það að auðvitað sækja menn arð til Íslands sem kaupa hér fyrirtæki. Það er svo sem ekkert við því að segja. En það verður a.m.k. hvað mig varðar að liggja fyrir hvernig menn ætla að standa að þessu og að hægt verði að skapa eðlilegar markaðsaðstæður á markaði til þess að ég geti skrifað upp á sölu á Landssímanum til einhverra stórfyrirtækja sem kannski ætla sér ekkert annað á þessum markaði en að hafa sem mest upp úr honum. (KPál: Hefur Samfylkingin enga skoðun á þessum máli?)

Samfylkingin hefur auðvitað skoðun á þessu máli og hún liggur alveg fyrir. (Gripið fram í.) Hún er á þá leið að við viljum að byggð verði upp samkeppni á sanngjörnum jafnræðisgrundvelli alls staðar í atvinnulífinu. Það þarf líka að eiga við um Símann. Og það ættu hv. þm. Sjálfstfl. að tileinka sér á fleiri sviðum en þeir gera í dag. (KPál: Er samkeppni með ...) (Forseti hringir.)