Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:35:24 (2532)

2000-11-30 23:35:24# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:35]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að viðskiptahallinn sé geigvænlegur. Ég er honum sammála um það, en hann greinir vandann þannig að um sé að kenna hávaxtastefnu Seðlabankans. Hvað vill hv. þm. Pétur H. Blöndal þá gera? Vill hann lækka gengið? Og ef hann vill það, hvað vill hann lækka gengið mikið?

Hann segir jafnframt að Davíð Oddsson hafi treyst á ráðgjafa sína og á þá við ráðgjafana sem komu innan Seðlabankans. Var það ekki einmitt fyrrverandi yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans sem átaldi harðlega þá stefnu sem hæstv. forsrh. hefur fylgt? Var það ekki hann sem sagði að slakinn á ríkisfjármálastefnunni hefði leitt til allt of harðrar peningamálstefnu, sem hefði leitt til of hás gengis, of hárra vaxta? Hver er yfirmaður Seðlabankans? Er það ekki hæstv. forsrh. Davíð Oddsson?

Það er að vísu rétt sem hv. þm. sagði að stutt er síðan að hæstv. forsrh. tók við Seðlabankanum, en áður var hann undir forsjá annars ráðherra sem laut forsjár Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh. Getur það verið, herra forseti, að hv. þm. haldi virkilega að Seðlabankinn, sem er mjög ósjálfstæður af seðlabanka að vera, taki sínar ákvarðanir einn og sér? Heldur t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal að 80 punkta hækkun á vöxtum um daginn, síðasta vaxtahækkun Seðlabankans, hafi verið tekin án þess að vera borin undir hæstv. forsrh.? Hefur það ekki einu sinni læðst að hv. þm. að vera kynni að ákvörðunin um þá vaxtahækkun hafi verið tekin í forsrn.?