Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:37:58 (2534)

2000-11-30 23:37:58# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:37]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hvaðan hefur hv. þm. að þessi fyrrverandi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hafi ekki komið með þau ráð? Ég veit ekki betur en fram hafi komið á fundum að viðkomandi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hafi einmitt haft þessa skoðun árum saman. Það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin hlustar ekki á ráðgjafa sína, hún veit betur en allir ráðgjafarnir. Það hefur margsinnis komið fram. Hv. þm. getur bara tínt til tvo hagfræðinga sem eru á öðru máli en allar innlendar og erlendar sérfræðistofnanir á sviði efnahagsmála. Og þessir hagfræðingar eru hv. þm. dr. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Þeir tveir einir hafa aðra skoðun en allt hagfræðingastóðið samanlagt.

Herra forseti. Það er alveg rétt held ég hjá hv. þm. að útlánaþenslan muni hægja á sér að sjálfu sér. Það stafar af því að bankarnir eru komnir að mörkum útlánagetu sinnar og það stafar líka af því að markaður fyrir ýmsar neysluvörur er mettaður eins og ég held að hv. þm. hafi sagt í ræðu sinni.

En hvað verður um viðskiptahallann? Gufar hann þá upp af sjálfu sér? Ég held ekki, herra forseti. Það kemur fram að Þjóðhagsstofnun telur að hann haldi áfram að aukast. Hún telur að hann muni verða fast að 60 milljörðum á næsta ári. En það eru aðrar stofnanir sem þekkja íslenskt efnahagslíf ekki síður en Þjóðhagsstofnun og hafa spáð betur eins og reynslan sýnir en Þjóðhagsstofnun. Það er t.d. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Hvað segir hún, herra forseti? Hún segir að viðskiptahallinn haldi áfram að aukast, hann muni verða 70 milljarðar, hann muni verða 10% af landsframleiðslu.

Hvernig ætlar hv. þm. að fjármagna þann viðskiptahalla? Og hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að álagið á gengið, þegar t.d. erlendar fjármálastofnanir hætta að lána á þeim kjörum eða hætta yfirleitt að lána út á kvóta Íslands? Hvernig ætlar hann þá að fjármagna viðskiptahallann? Hvernig ætlar hann þá að halda uppi genginu sem hann segir að sé núna komið í jafnvægi?