Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:41:10 (2536)

2000-11-30 23:41:10# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, talsmaður Sjálfstfl. í málefnum öryrkja og almannatrygginga, hefur nú tekið að sér að skýra stefnu flokksins gagnvart kennarastéttinni. Svo er að skilja á máli hans að honum þyki kjör kennara vera mjög góð, jafnvel svo góð að jaðri við að vera ósæmilegt. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. vill að kjör kennara verði skert, a.m.k. vill hann ekki að þau verði bætt. En spurning mín til hv. þm. er þessi: Ef það er staðreynd að ekki verður unnt að manna skólana á þeim kjörum sem boðið er upp á, hvað vill hv. þm. Pétur H. Blöndal gera? Til hverra ráða vill hann grípa? Því væntanlega vill hann að íslenska skólakerfið verði rekið en stöðvist ekki.